Skip to main content

Doktorsvörn í lyfjafræði - André Rodrigues Sá Couto

Doktorsvörn í lyfjafræði - André Rodrigues Sá Couto  - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
18. janúar 2019 13:00 til 15:30
Hvar 

Askja

132

Nánar 
Aðgangur ókeypis

André Rodrigues Sá Couto ver doktorsritgerð sína í lyfjafræði við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið:Hópmyndun sýklódextrína og sýklódextrín flétta.Assessment of self-aggregation on CD and drug/CD complexes.
                 

Andmælendur eru dr. Andrea Mele, prófessor við Politecnico di Milano, Ítalíu, og dr. Bernard Martel, prófessor við Háskólann í Lille, Frakklandi.

 

Umsjónarkennari og leiðbeinandi var dr. Þorsteinn Loftsson, prófessor við Lyfjafræðideild. Að auki sátu í doktorsnefnd dr. Hákon Hrafn Sigurðsson, prófessor við Lyfjafræðideild, og Patrick Augustijns, prófessor við KU Leuven, Belgíu.

 

Dr. Elín Soffía Ólafsdóttir, professor við Lyfjafræðideild, stjórnar athöfninni.

 

Ágrip af rannsókn

Doktorsverkefnið fjallar um sýklódextrín og myndun nanóagna í vatnslausnum sýklódextrína. Sýklódextrín eru hringlaga fásykrungar sem geta aukið leysanleika fitusækinna lyfja með myndun vatnsleysanlegra flétta (complexes) þar sem fitusæknir hópar lyfjasameinda fara inn í vatnsfælin holrúm sýklódextrína. Rannsóknir sýna að aukinn vatnsleysanleiki lyfja auðveldar gjöf þeirra og bætir lyfjameðferð sjúklinga. Nú þegar innihalda um 40 mismunandi markaðssett lyf sýklódextrín. Sýklódextrín og lyfjafléttur þeirra geta hópað sig saman og myndað agnir, en myndun slíkra agna getur haft neikvæð áhrif við lyfjaframleiðslu svo sem við framleiðslu á stungulyfjum. Þvermál agnanna getur verið frá örfáum nanómetrum upp í nokkra millimetra. Markmið doktorsverkefnisins var að þróa aðferðir til að greina sýklódextrín og sýklódextrín nanóagnir, og rannsaka þá þætti sem hafa áhrif á myndun þeirra. Fimm mismunandi aðferðir voru metnar til að greina sýklódextrín (þ.e. α-sýklódextrín [αCD], β-sýklódextrín [βCD] og 2-hýdroxýprópýl-β-sýklódextrín [HPβCD]) og sýklódextrín nanóagnir í vatnslausnum. Flutningur sýklódextrína í gegnum hálfgegndræpar himnur var notaður til að ákvarða hópunarstyrk (critical aggregation concentration [cac]) sýklódextrína. Rannsóknirnar sýna að βCD hefur meiri tilhneigingu til að mynda nanóagnir en αCD sem aftur hefur meiri tilhneigingu til að mynda nanóagnir en HPβCD. Fléttumyndun sýklódextrína hefur áhrif á hópun þeirra og cac gildi. Einnig sýna rannsóknirnar að ákveðin efnasambönd (eins og t.d. þvagefni) geta hamlað agnamyndun í sýklódextrín lausnum. Niðurstöður doktorsverkefnisins auka þekkingu okkar á myndun nanóagna í vatnslausnum sýklódextrína, skýra myndun þeirra og benda á leiðir til að koma í veg fyrir myndun agnanna.  Niðurstöður verkefnisins munu einnig nýtast við hönnun á sýklódextrín nanóögnum til markbundinna lyfjagjafa (þ.e. targeted drug delivery).

Um doktorsefnið

André Rodrigues Sá Couto, sem fæddur er árið 1988, lauk MS-gráðu í lyfjafræði frá Háskólanum í Lissabon árið 2012 og starfaði við rannsóknir á sýklódextríni áður en hann innritaðist í doktorsnám undir handleiðslu Þorsteins Loftssonar við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands árið 2014.

 

André Rodrigues Sá Couto

Doktorsvörn í lyfjafræði