Skip to main content

Doktorsvörn í líf- og læknavísindum - Ólína Guðbjörg Viðarsdóttir

Doktorsvörn í líf- og læknavísindum - Ólína Guðbjörg Viðarsdóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
25. september 2020 14:00 til 17:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Föstudaginn 25. september ver Ólína Guðbjörg Viðarsdóttir doktorsritgerð sína í líf- og læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Vitrænt mat og endurhæfing ungs fólks eftir geðrof. The assessment and treatment of neurocognition and social cognition in early psychosis.

Vörninni verður streymt: https://livestream.com/hi/doktorsvornolinagudbjorgvidarsdottir

Andmælendur eru dr. Lisa M. Wu, dósent við Aarhus Institute of Advanced Studies í Danmörku, og dr. Ragnar Pétur Ólafsson, prófessor við Sálfræðideild Háskóla Íslands.

Umsjónarkennari var dr. Berglind Guðmundsdóttir, prófessor við Læknadeild, og leiðbeinandi Brynja B. Magnúsdóttir, dósent við Háskólann í Reykjavík. Meðleiðbeinandi var Engilbert Sigurðsson, prófessor og forseti Læknadeildar Háskóla Íslands. Auk hans sátu í doktorsnefnd dr. David L. Roberts, dósent við University of Texas Health Science Center, og dr. Elizabeth W. Twamley, prófessor við University of California, La Jolla.   

Ingibjörg Harðardóttir, prófessor og varaforseti Læknadeildar Háskóla Íslands, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 14.00.

Fjöldatakmörkun: Einungis 60 manns geta verið í salnum á meðan á doktorsvörninni stendur.

Ágrip af rannsókn 

Markmið doktorsverkefnisins voru (1) að leggja mat á vitræna getu, líðan og færni í daglegu lífi hjá öllum þeim sem sóttu þjónustu á Laugarási, deild innan Landspítala sem sérhæfir sig í meðferð og endurhæfingu ungs fólks eftir geðrof, á árunum 2015 - 2017, og kanna forspárgildi vitrænna þátta fyrir sjálfsmati og mati aðstandenda á færni í daglegu lífi, (2) að kanna skammtíma- og langtímaáhrif vitrænnar endurhæfingar með félagsskilningsþjálfun (VEF) á vitræna þætti, líðan og færni í daglegu lífi, (3) meta innleiðingu meðferðarinnar með tilliti til hentugleika, áreiðanleika og viðhalds.

Frávik frá heilbrigðum samanburðarhópi komu fram í flestum vitrænum þáttum og voru mest í getu til að setja sig í spor annarra (Theory of Mind ,ToM) og seinkuðu yrtu minni (>1 staðalfrávik undir meðaltali). Tafarlaust yrt minni og skilningur á andlitssvipbrigðum (emotion recognition) spáðu marktækt fyrir um mat aðstandenda á færni í daglegu lífi en eignunarstíll (attributional style) var eini þátturinn sem spáði fyrir um sjálfsmat á færni í daglegu lífi. Niðurstöður úr mati á árangri VEF sýndu að marktækur munur var á milli hópa á mælingum á tafarlausu og seinkuðu yrtu minni, vinnsluminni, stýrifærni, ToM og fjandsamlegum eignunarstíl (hostile attributional style). Hjá þeim sem luku meðferð kom fram marktæk bæting á flestum vitrænum þáttum, neikvæðum einkennum og færni í daglegu lífi 12 mánuðum eftir að meðferð lauk. VEF var innleidd á árangursríkan hátt á Laugarási.   

Rannsóknirnar sýna að meirihluti einstaklinga með fyrsta geðrof er með vanda í vitrænum þáttum og gefa vísbendingar um gagnsemi VEF í þessum hópi, ekki síst ef markmiðið er að efla vitræna getu og auka færni í daglegu lífi til lengri tíma.

Samstarfsaðili rannsóknarinnar er Landspítali - Háskólasjúkrahús.

English abstract 

The aims of this thesis were (1) to investigate the rate of cognitive impairment in those receiving treatment by the early intervention in psychosis (EIP) service in Iceland between 2015 and 2017, and the individual contributions of neuro- and social-cognitive domains to self-reported and informant-reported functional outcome, (2) to implement a novel integrated cognitive remediation (ICR), and evaluate the immediate and long-term effects on cognition, symptom severity and functional outcomes, (3) to examine implementation outcomes of the intervention. 

Findings showed significant neuro- and social-cognitive impairments compared to healthy comparison samples, which were most significant in immediate verbal memory and ToM. In the context of multiple predictor variables, informant reported functional outcomes were predicted by immediate verbal memory and emotion recognition, whereas self-reported functional outcome was best predicted by attributional style. The intervention was associated with improvement on multiple neuro- and social-cognitive measures and appears to produce lasting effects on neurocognition, negative symptoms and functional outcomes. The intervention was successfully implemented at the EIP service.

This thesis demonstrates that young early psychosis patients in Iceland exhibit broad cognitive impairments compared to controls, supporting the rationale for an integrated neuro- and social-cognitive intervention.

Um doktorsefnið

Ólína Guðbjörg Viðarsdóttir er fædd þann 16. nóvember 1982 og ólst upp í Grindavík. Hún lauk BS-prófi í sálfræði frá University of Richmond, Bandaríkjunum, árið 2004 og Cand. Psych.-prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands árið 2009. Meðfram doktorsnáminu hefur hún starfað sem sálfræðingur og verkefnastjóri á Laugarási, deild innan geðþjónustu Landspítala, sem sérhæfir sig í meðferð og endurhæfingu ungs fólks með byrjandi geðrofssjúkdóma. Auk þess hefur Ólína starfað sem gestakennari við Háskóla Íslands. Ólína hefur kynnt rannsóknir sínar á fjölda íslenskra og alþjóðlegra ráðstefna. Foreldrar Ólínu eru Jóhanna Sævarsdóttir skólastjóri og Viðar Geirsson vélstjóri. Ólína er gift Eddu Garðarsdóttur og búa þær í Reykjavík ásamt börnum sínum, Bergþóru Hönnu Ólínudóttur og Viðari Bjarti Eddusyni.

Ólína Guðbjörg Viðarsdóttir ver doktorsritgerð sína í líf- og læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands föstudaginn 25. september 2020.

Doktorsvörn í líf- og læknavísindum - Ólína Guðbjörg Viðarsdóttir