Skip to main content

Doktorsvörn í læknavísindum - Samúel Sigurðsson

Doktorsvörn í læknavísindum - Samúel Sigurðsson - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
10. desember 2018 13:00 til 16:00
Hvar 

Veröld - Hús Vigdísar

stofu VHV-023

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Mánudaginn 10. desember ver Samúel Sigurðsson doktorsritgerð sína í læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Áhrif bólusetningar með prótein-tengdu pneumókokka bóluefni á pneumókokka í nefkoki og sýkingar af völdum pneumókokka í íslenskum börnum. The impact of vaccination with conjugated pneumococcal vaccine on pneumococcal carriage and disease caused by pneumococci in Icelandic children.

Andmælendur eru dr. Adam Finn, prófessor í barnalækningum við Háskólann í Bristol, og dr. Richard Malley, prófessor við Harvard-háskóla í Boston.

Umsjónarkennari var dr. Ásgeir Haraldsson, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands, og leiðbeinandi dr. Karl G. Kristinsson, prófessor við sömu deild. Auk þeirra sátu í doktorsnefnd Birgir Hrafnkelsson, prófessor við Raunvísindadeild, Helga Erlendsdóttir, aðjúnkt við Læknadeild, og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

Engilbert Sigurðsson, prófessor og forseti Læknadeildar, stjórnar athöfninni sem fer fram í Veröld - Húsi Vigdísar, stofu VHV-023, og hefst kl. 13:00.

Ágrip af rannsókn

Streptococcus pneumoniae, pneumókokkar, eru á meðal algengustu baktería sem valda miðeyrnabólgu og lungnabólgu í börnum og geta valdið alvarlegum ífarandi sýkingum eins og heilahimnubólgu og blóðeitrun. Bólusetning gegn tíu algengustu, meinvirkustu og/eða sýklalyfjaónæmustu hjúpgerðunum var bætt í ungbarnabólusetningar á Íslandi árið 2011.

Markmið rannsóknarinnar var að meta áhrif bólusetningarinnar á berahlutfall pneumókokka og á sýkingar af völdum þeirra í bólusettum íslenskum börnum samanborið við fyrri árganga.

Í rannsókn I var nefkokssýnum safnað árlega á árunum 2009 til 2015 frá börnum úr leikskólum á höfuðborgar-svæðinu. Í rannsókn II var notast við heilsugæslugagnagrunn Landlæknis og allar heilsugæslukomur barna vegna miðeyrnabólgu frá 2005 til 2015 voru metnar. Í rannsókn III voru allar komur vegna öndunarfærasýkinga á bráðamóttöku barna frá 2008 til 2013 skoðaðar. Í rannsókn IV voru allar innlagnir á Barnaspítala Hringsins frá 2005 til 2015 metnar.

Frá upphafi bólusetningarinnar hefur berahlutfall bóluefnishjúpgerða lækkað um 94% í leikskólabörnum. Berahlutfall annara minna meinvirkra hjúpgerða hefur aukist og hefur því heildarberahlutfall pneumókokka haldist stöðugt. Sýklalyfjaónæmum pneumókokkum hefur fækkað í íslenskum leikskólabörnum. Komum á heilsugæslur og á bráðamóttöku barna vegna eyrnabólgu hefur fækkað um 24%. Komum á bráðamóttöku barna vegna lungnabólgu hefur fækkað um 23% og innlögnum á Barnaspítala Hringsins um 20%. Innlögnum vegna ífarandi pneumókokka-sýkinga hefur fækkað um 93% frá upphafi bólusetningarinnar.

Rannsóknin sýnir að sjúkdómsbyrði pneumókokka hefur minnkað umtalsvert í íslenskum börnum frá upphafi bólusetningar árið 2011.

Abstract

Streptococcus pneumonia is a common cause of respiratory tract infections in children and can cause life-threatening invasive infections. Vaccinations against the 10 most common, virulent and/or antimicrobial resistant serotypes was initiated in Iceland in 2011.

The aim of this study was to examine the impact of the vaccination on pneumococcal carriage and infections.

Nasopharyngeal carriage was evaluated annually and health care or hospital visits due to acute otitis media, respiratory infections or invasive disease were measured.

Nasopharyngeal carriage of vaccine serotypes was reduced (94%). The total carriage rate was unchanged due to replacement with less virulent serotypes. Antimicrobial non-susceptible pneumococci were less common. Health care visits for acute otitis media were reduced (24%) as were visits to paediatric emergency room due to pneumonia (23%) and hospital admissions (20%). Admissions for invasive pneumococcal infections were reduced (93%).

The burden of pneumococcal disease in Iceland has been greatly reduced following the vaccination.

Um doktorsefnið                 

Samúel Sigurðsson er fæddur á Ísafirði 25. janúar 1988. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 2007, B.Sc.-prófi í læknisfræði 2013 frá Háskóla Íslands og kandídatsprófi í læknisfræði frá sama skóla 2017. Samúel starfar nú sem læknakandídat á Landspítala. Foreldrar Samúels eru Deborah Ólafsson og Sigurður Ólafsson. Sambýliskona Samúels er Guðrún Mist Gunnarsdóttir læknir og eiga þau soninn Tristan Storm.

Samúel Sigurðsson ver doktorsritgerð sína í læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands mánudaginn 10. desember kl. 13:00

Doktorsvörn í læknavísindum - Samúel Sigurðsson