Skip to main content

Beanfee – Hugbúnaður til atferlisþjálfunar

Beanfee – Hugbúnaður til atferlisþjálfunar - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
16. apríl 2021 14:00 til 15:00
Hvar 

Á netinu

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Helgi Sigurður Karlsson heldur erindið „Beanfee – Hugbúnaður til atferlisþjálfunar“ á vegum Rannsóknastofu í atferlisgreiningu. Viðburðurinn fer fram á netinu og er hægt að fylgjast með honum hér.

Helgi er klínískur sálfræðingur og deildarstjóri upplýsinga- og tæknideildar í Lækjaskóla með mikla reynslu af vinnu með hegðunarvanda ungmenna innan grunnskólakerfisins. Fljótlega eftir að Helgi hóf nám í sálfræði kviknaði hjá honum áhugi á atferlisgreiningu sem hefur fylgt honum allar götur síðan. Helgi lauk námi til cand.psych.-gráðu frá Háskóla Íslands árið 2010 og hóf störf innan grunnskólakerfisins sama ár. Helgi hefur meðal annars haldið erindi um bekkjastjórnun á ráðstefnu um heildstæðan stuðning við jákvæða hegðun (PBS) árið 2012 ásamt því að sitja í stjórn Samtaka um atferlisgreiningu á Íslandi (SATÍS) frá 2014 til 2015.

Árið 2018 stofnaði Helgi sprotafyrirtækið Beanfee ásamt Sveini Steinarssyni, tölvunarfræðingi og fyrrverandi tæknistjóra Já hf. og Gallup á Íslandi. Beanfee er tilraun þeirra til að nota gagnreyndar aðferðir atferlisgreiningar til lausnar á þeim víðfeðma hegðunarvanda sem herjar á grunnskólakerfið í dag.

Um erindið
Innlend og erlend gögn úr heilbrigðis- og menntakerfum benda til þess að röskun á jákvæðri hegðun ungmenna sé víðfemt og kostnaðarsamt vandamál sem teygir sig inn í alla anga samfélagsins. Sú lausn sem rannsóknir síðustu áratuga sýna að virkar best til atferlisþjálfunar eru aðferðir hagnýtrar atferlisgreiningar. Útfærslur aðferðanna eru þó börn síns tíma og er frammi skýr þörf til þess að aðlaga þær að nútímanum. Beanfee er tilraun til að einfalda þá þætti atferlisþjálfunar sem reynast flóknir og tímafrekir og er því oft ekki fylgt eftir af uppteknu fólki í heimi örra breytinga. Hugbúnaðurinn færir lausnir til atferlisþjálfunar yfir í pakkaform sem fólk getur deilt sín á milli. Ásamt upplýsingum fela pakkarnir í sér leikjavæðingu (e. gamification) jákvæðrar hegðunar með því að bjóða upp á umbun og afreksmerki sem hvatningu til árangurs.

Helgi Sigurður Karlsson heldur erindið „Beanfee – Hugbúnaður til atferlisþjálfunar“ á vegum Rannsóknastofu í atferlisgreiningu. Viðburðurinn fer fram á netinu.

Beanfee – Hugbúnaður til atferlisþjálfunar