Að treysta sérfræðingum: Hvað, hvenær og hvers vegna? | Háskóli Íslands Skip to main content

Að treysta sérfræðingum: Hvað, hvenær og hvers vegna?

Hvenær 
3. desember 2019 12:10 til 12:50
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Finnur Dellsén, nýbakaður handhafi Hvatningarverðlauna Vísinda- og tækniráðs og dósent í heimspeki við Háskóla Íslands, fjallar um togstreitu þess að treysta sérfræðingum eða eigin hyggjuviti í erindi í Hátíðasal Háskóla Íslands þriðjudaginn 3. desember nk. kl. 12.10-12.50.

Bein útsending frá erindinu

Til þess að sérfræðingar geti þjónað hlutverki sínu þurfum við að treysta þeim þegar þeir tjá sig um sitt sérsvið. Á hinn bóginn virðist líka eftirsóknarvert að hugsa sjálfstætt og gagnrýnið um niðurstöður sérfræðinga – að trúa ekki endilega því sem manni er sagt. Auk þess vitum við að ekki eru allir „sérfræðingar“ traustsins verðir. Í erindi sínu mun Finnur velta upp þessari togstreitu og reyna að svara þremur nátengdum spurningum:

(1) Hvað felst eiginlega í því að treysta sérfræðingum?
(2) Hvers vegna þurfum við oft að treysta sérfræðingum?
(3) Hvenær, þ.e.a.s. í hvaða kringumstæðum, eigum við að treysta sérfræðingum fremur en að hugsa sjálfstætt?

Rannsóknir Finns hafa að miklu leyti snúist um það hvernig við öðlumst skilning og þekkingu á heiminum, sérstaklega í vísindum og með hjálp þeirra. Hann hefur m.a. sett fram og rökstutt þá kenningu að vísindalegar framfarir felist í því að öðlast aukinn skilning á vísindalegum fyrirbærum fremur en t.d. aukna þekkingu. Þessi „skilningskenning“ er nú talin meðal fjögurra helstu kenninga heimspekinnar um eðli vísindalegra framfara.

Finnur hlaut á dögunum Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs sem eru veitt vísindamanni sem snemma á ferlinum þykir hafa skarað fram úr og skapað væntingar um framlag í vísindastarfi sem treysti stoðir mannlífs á Íslandi. Þá hlaut hann fyrr á árinu hin virtu Nils Klim verðlaun fyrir rannsóknar sínar í þekkingarfræði og vísindaheimspeki en þau eru árlega veitt norrænum fræðimanni yngri en 35 ára fyrir framúrskarandi framlag á sviði hugvísinda, félagsvísinda, lögfræði eða guðfræði. Auk þess hefur hann fengið alþjóðleg verðlaun sem kennd eru við svissneska heimspekinginn Henri Lauener og veitt eru annað hvert ár upprennandi fræðimanni á sviði heimspekinnar.

Finnur Dellsén lauk BA-prófi í heimspeki frá Háskóla Íslands árið 2007 en stundaði einnig nám í stærðfræði við Háskóla Íslands og stærðfræðilegri rökfræði við Gautaborgarháskóla. Hann lauk MA-prófi og doktorsprófi í heimspeki frá University of North Carolina í Chapel Hill í Bandaríkjunum.

Finnur hefur m.a. starfað sem nýdoktor við University College Dublin á Írlandi og er nú dósent í heimspeki við Háskóla Íslands en hefur auk þess sinnt kennslu og rannsóknum við Høgskolen i Innlandet í Lillehammer í Noregi frá 2017.

Erindi Finns er öllum opið.

Boðið verður upp á hádegissnarl að því loknu.

Finnur Dellsén lauk BA-prófi í heimspeki frá Háskóla Íslands árið 2007 en stundaði einnig nám í stærðfræði við Háskóla Íslands og stærðfræðilegri rökfræði við Gautaborgarháskóla. Hann lauk enn fremur MA-prófi og doktorsprófi í heimspeki frá University of North Carolina í Chapel Hill í Bandaríkjunum.

Að treysta sérfræðingum: Hvað, hvenær og hvers vegna?