20. líf- og heilbrigðisvísindaráðstefnan | Háskóli Íslands Skip to main content

20. líf- og heilbrigðisvísindaráðstefnan

20. líf- og heilbrigðisvísindaráðstefnan - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
2. júní 2021 8:00 til 3. júní 2021 17:00
Hvar 
Nánar 
Aðgangur ókeypis

20. líf- og heilbrigðisvísindaráðstefnan fer fram í streymi og á Hilton Reykjavík Nordica 2. og 3. júní 2021. Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands stendur fyrir ráðstefnunni en þar koma saman allir helstu vísindamenn landsins á þessum sviðum. 

Skoða dagskrá

Á dagskrá er kynning á tæplega 250 rannsóknum sem ná yfir flest fræðasvið líf- og heilbrigðisvísinda. Umfjöllunarefnin eru allt frá sameindalíffræði og erfðafræði til endurhæfingar, hjarta- og æðasjúkdóma, lyfjagreininga og andlegrar og líkamlegrar heilsu manna á öllum æviskeiðum. Á dagskrá eru bæði málstofur á íslensku og ensku. 

Covid-19 í brennidepli

Nýjustu rannsóknir og niðurstöður tengdar Covid-19 verða í brennidepli á ráðstefnunni. Þrjár málstofur verða með öllu tileinkaðar faraldrinum og þar verður m.a. fjallað um líðan fólks í Covid og Covid-19 og hjúkrun. Tveir spennandi gestafyrirlesarar munu einnig fjalla um Covid-19. Ingileif Jónsdóttir, prófessor í ónæmisfræði við Læknadeild og deildarstjóri smit- og bólgusjúkdóma hjá Íslenskri erfðagreiningu, mun fjalla um bólusetningar og Covid-19. Örn Almarsson, efnafræðingur og Chief Technology Officer hjá lyfjafyrirtækinu Lyndra, mun m.a. fjalla um þróun Moderna bóluefnisins við Covid-19, en hann tók þátt í þróun þess.

Fyrirlestrar fyrir almenning

Efnt verður til opinna fyrirlestra fyrir almenning þar sem fjallað verður um spennandi málefni úr líf- og heilbrigðisvísindum á aðgengilegan hátt. Inga B. Árnadóttir, prófessor í tannlæknisfræði við Tannlæknadeild, mun fjalla um áhrif orkudrykkja á tannheilsu. Kristín Briem, prófessor í sjúkraþjálfun við Læknadeild, mun fjalla um orsakir, afleiðingar og forvarnir alvarlegra hnémeiðsla.

Kennsluhættir framtíðar

Gestamálstofa um umbætur í kennslu og virka kennsluhætti er hluti af dagskrá og þar verða flutt níu áhugaverð erindi. Adam Cheng, prófessor í barnalækningum við University of Calgary og sérfræðingur í hermikennslu mun einnig fjalla um hermikennslu í heilbrigðisvísindum í sérstökum gestafyrirlestri. 

Fjölbreyttar málstofur

Á dagskrá verða 46 málstofur úr ranni líf- og heilbrigðisvísinda. Þar verður m.a. fjallað um heilsueflingu aldraðra, flugelda, aðgerðir, erfðafræði, andlega líðan, heilsu kvenna, slys og þjálfun, erlendar konur og barneignaferlið, lyfjavísindi, hreyfingu og heilsu barna og ungmenna, lýðheilsu, fjölskylduna og umönnun, málþroska, taugavísindi, aðferðafræði, krabbamein, hjúkrun á heimilum og súrefnismælingar í augum.

Ráðstefna í 20 ár

Líf- og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands er nú haldin í 20. sinn en hún hefur fest sig í sessi sem stærsti viðburður af þessum toga hér á landi. Þetta verður í fyrsta sinn sem streymt verður beint frá ráðstefnunni.

Allir eru velkomnir á ráðstefnuna og aðgangur er ókeypis. Formleg dagskrá verður birt seint í maí.

Skráning, dagskrá og nánari upplýsingar á heimasíðu ráðstefnunnar: https://lifogheil.hi.is/

Fylgdu ráðstefnunni á Facebook

20. líf- og heilbrigðisvísindaráðstefnan fer fram í streymi og á Hilton Reykjavík Nordica 2. og 3. júní 2021. Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands stendur fyrir ráðstefnunni en þar koma saman allir helstu vísindamenn landsins á þessum sviðum. 

20. líf- og heilbrigðisvísindaráðstefnan