Skip to main content

Vendinám á háskólastigi

Ingibjörg B. Frímannsdóttir, lektor við Kennaradeild 

Vendikennsla eða spegluð kennsla er aðferð sem tekin hefur verið upp í sumum kennslustofum landsins að undanförnu. Hún snýst um að nemendur nálgast fyrirlestra og kynningar kennara á netinu og koma undirbúnir í tíma og takast þar á við verkefni með aðstoð kennara í stað þess að kennarar flytji fyrirlestra í tímum. Í Háskóla Íslands hafa kennarar tekið þessa aðferð upp á sína arma og ein þeirra er Ingibjörg B. Frímannsdóttir, lektor við Kennaradeild.

Ingibjörg B. Frímannsdóttir

„Valið á vendikennslu sem kennslufyrirkomulagi liggur í leit minni að hinni einu sönnu kennsluaðferð.“

Ingibjörg B. Frímannsdóttir

„Valið á vendikennslu sem kennslufyrirkomulagi liggur í leit minni að hinni einu sönnu kennsluaðferð,“ segir Ingibjörg. Hún hefur undanfarna tvo áratugi haft umsjón með kennslu bæði staðnema og fjarnema í kennaranámi og vildi kanna hvort vendikennsluformið hentaði hugsanlega betur en það form sem lengstum hefur verið notað.

Ingibjörg lagði því upp með skipulag sem byggist á hugmyndafræði vendikennslunnar haustið 2013. Hún útbjó fyrir kennslustundir stutta fyrirlestra um afmarkað efni og sömuleiðis verkefni sem tengdust efni þeirra. „Mæting í bekkjartíma var mjög góð og vinna nemenda, bæði þeirra sem mættu á staðinn og þeirra sem unnu á netinu, skilaði sér í þekkingu á því viðfangsefni sem fjallað var um hverju sinni.“

Í forkönnun á árangri kennsluaðferðarinnar kom í ljós að af þeim 15 pistlum sem skoðaðir voru haustið 2013 var hlustun að meðaltali 62%. Í kennslumati nemenda að lokinni kennslu haustið 2013, þar sem gefin er einkunn fyrir skipulag námskeiðsins, bendir allt til að nemendur hafi kunnað fyrirkomulaginu vel en þeir gáfu því einkunnina 4,53 af 5 mögulegum. Ingibjörg ákvað að halda áfram með verkefnið haustið 2014 og þá reyndist meðaltalshlustun enn meiri. Hún telur því að vendikennsluformið geti hentað vel til kennslu á háskólastigi, að minnsta kosti í sumum greinum.