Skip to main content

Vann fyrstu úttektina á lífhagkerfi Íslands

Elísabet Kemp Stefánsdóttir sameinaði áhuga sinn á hagfræði og auðlindanýtingu í meistaraverkefni sínu í hagfræði með því að greina svokallað lífhagkerfi Íslands. „Lífhagkerfi er hugtak sem nær yfir alla virðiskeðju lífauðlinda en þær auðlindir hafa þá sérstöðu að vera endurnýjanlegar. Því má nýta þær á sjálfbæran hátt, eins og t.d. fiskinn í kringum landið. Rannsóknir á lífhagkerfinu fela í sér þverfræðilega nálgun þar sem markmiðið er að huga að sjálfbærri nýtingu auðlinda ásamt því að huga að hagvexti í þjóðfélaginu,“ segir Elísabet.

Elísabet Kemp Stefánsdóttir

„Lífhagkerfi er hugtak sem nær yfir alla virðiskeðju lífauðlinda en þær auðlindir hafa þá sérstöðu að vera endurnýjanlegar. Því má nýta þær á sjálfbæran hátt, eins og t.d. fiskinn í kringum landið.

Elísabet Kemp Stefánsdóttir

Elísabet segir valið á viðfangsefninu hafa komið í beinu framhaldi af fyrri störfum hennar hjá Matís. „Í kjölfar aukinnar umræðu um lífhagkerfi annars staðar á Norðurlöndum og í Evrópu fannst okkur mikilvægt að kanna hver sérstaða lífhagkerfis norðurslóða væri. Á norðurslóðum búum við ekki við sömu tækifæri til nýtingar lífauðlinda og önnur lönd í Evrópu. Því er mikilvægt að komast að því hverjir styrkleikar okkar og veikleikar eru til að vinna frekar með lífhagkerfið í samvinnu við önnur lönd,“ bendir Elísabet á.

Rannsókn Elísabetar er fyrsta matið sem unnið er á íslenska lífhagkerfinu. „Greining mín á lífhagkerfi Íslands sýnir hvað grunnframleiðsla úr lífauðlindum er stór hluti af íslenska hagkerfinu. Þar skipar sjávarútvegurinn stóran sess enda er hann gjarnan talinn grunnatvinnuvegur á Íslandi. Draga má þá ályktun af niðurstöðunum að heildarframlag lífhagkerfisins til vergrar landsframleiðslu sé um 30 prósent. Rannsóknin undirstrikar einnig hve ólík Ísland, Grænland og Færeyjar eru hinum norrænu ríkjunum þegar litið er til tækifæra til að nýta lífauðlindir,“ segir Elísabet. 

Elísabet bendir á að í fyrri skýrslum um lífhagkerfi hafi verið skortur á ákveðnum markmiðum og aðferðum til að meta árangur. „Í rannsókninni eru settar fram tillögur um hvernig meta má lífhagkerfið og þróun þess út frá hagfræðilegu sjónarhorni,“ segir hún að lokum. 

Leiðbeinandi: Daði Már Kristófersson, forseti Félagsvísindasviðs og dósent við Hagfræðideild.