
Umhverfis- og auðlindafræði
30 einingar - Viðbótardiplóma
Umhverfis- og auðlindafræðin er þverfræðileg í eðli sínu og krefst breiðrar þekkingar. Viðbótarnámið hentar því einstaklingum með margvíslegan bakgrunn sem vilja auka við þekkingu sína á sviði umhverfis- og auðlindamála og styrkja stöðu sína á vinnumarkaði.

Af hverju?
Lífsgæði á Íslandi byggja á sjálfbærri nýtingu auðlinda, sérstaklega orkuauðlinda, fiskistofna og landsins sjálfs enda er náttúra Íslands það sem dregur flesta ferðamenn til landsins.
Í samfélaginu og í flestum geirum atvinnulífsins er vaxandi krafa um þekkingu á sviði umhverfis- og auðlindamála. Starfsfólk með sérþekkingu á málefnum sem snerta umhverfi og nýtingu auðlinda er eftirsótt og tækifærin leynast víða.
Umhverfis- og auðlindafræðin er þverfræðileg í eðli sínu og krefst breiðrar þekkingar. Viðbótarnámið hentar því einstaklingum með margvíslegan bakgrunn sem vilja auka við þekkingu sína á sviði umhverfis- og auðlindamála og styrkja stöðu sína á vinnumarkaði. Námið hentar þeim sem koma beint eða óbeint að umhverfis- og auðlindamálum í starfi sínu, hvort sem er innan stjórnsýslunnar, í atvinnulífinu, í menntakerfinu, eða á vettvangi frjálsra félagasamtaka.

Einstaklingsbundin sérhæfing
Í viðbótarnáminu er miðlað nýjustu þekkingu á sviði umhverfis- og auðlindamála og fjallað um viðfangsefnin út frá mismunandi, þverfræðilegum sjónarhornum. Nemendur geta valið áherslur eins og umhverfismál almennt, sjálfbæra þróun, stefnumótun og stjórnsýslu umhverfismála, endurnýjanlega orku og orkuskipti, stjórnun sjávarauðlinda og umhverfisstjórnun fyrirtækja. Nemendur geta einnig styrkt þekkingu sína í einstökum greinum með því að velja námskeið þvert á fræðasvið Háskólans.
Námið er 30 einingar og er skipulagt sem fullt nám í eitt misseri eða hlutanám í tvö misseri. Öll námskeið eru kennd á ensku og nemendur sitja námskeið með alþjóðlegum og fjölbreyttum hópi meistaranema í umhverfis- og auðlindafræði. Umsækjendur þurfa að hafa lokið grunngráðu á háskólastigi (BA, BS eða B.Ed), óháð námsgrein, sem þýðir að ekki er gerð krafa um fyrra nám í tilteknum námsgreinum.
Umsækjendur þurfa að hafa lokið BS-, BA- eða B.Ed.- prófi eða öðru háskólanámi sem metið er jafngilt. Erlendir umsækjendur, sem ekki hafa ensku að móðurmáli, þurfa að sýna fram á góða þekkingu á enskri tungu (TOEFL 85, IELTS 6.5).

Fjölbreytt úrval námskeiða
Nemendur ljúka 18 einingum (bundið val) í námskeiðum í umhverfis- og auðlindafræði og geta valið 12 einingar til viðbótar þvert á fræðasvið Háskólans. Mikill fjöldi námskeiða er í boði:
- Inngangur að umhverfis- og auðlindafræði
- Sjálfbær þróun, stefnumótun umhverfis- mála og stjórnun náttúruauðlinda
- Umhverfisstjórnun fyrirtækja
- Sjálfbær framtíð
- Hnattrænar loftslagsbreytingar
- Orkuhagfræði, stefnumótun og sjálfbærni
- Stjórnkerfi umhverfis- og auðlindamála
- Verndunarlíffræði
- Lífsferilsgreining (LCA)
- Umhverfi sjávar og sjávarútvegur
Starfs- og námstækifæri
Starfsfólk með sérþekkingu á málefnum sem snerta umhverfi og nýtingu auðlinda er eftirsótt og tækifærin leynast víða. Námið hentar þeim sem koma beint eða óbeint að umhverfis- og auðlindamálum í starfi sínu, hvort sem er innan stjórnsýslunnar, í atvinnulífinu, í menntakerfinu, eða á vettvangi frjálsra félagasamtaka.
Námið opnar einnig tækifæri til frekara náms og nemendur sem hljóta fyrstu einkunn í öllum námskeiðum sem falla undir bundið val geta sótt um meistaranám í umhverfis- og auðlindafræði. Viðbótarnámið er jafnframt hægt að fá metið til eininga í meistaranámi í umhverfis- og auðlindafræði.

Félagslíf
Gaia, félag meistaranema í umhverfis– og auðlindafræðum við Háskóla Íslands, stendur fyrir öflugu félagslífi, auk þess sem markmið þess er að vera öflugt samskipta– og öryggisnet. Gaia er aðalskipuleggjandi Grænna daga við Háskóla Íslands. Nemendahópurinn í umhverfis– og auðlindafræðum er alþjóðlegur og því fara samskipti innan félagsins yfirleitt fram á ensku.
Hafðu samband
Upplýsingar um námið veitir
Bjargey Anna Guðbrandsdóttir verkefnisstjóri
umhverfi@hi.is
Sími: 525-5457
Bókaðu fjarfund í bókunargátt
