
Umhverfis- og auðlindafræði
120 einingar - Meistarapróf gráða
Umhverfis- og auðlindafræði er spennandi, þverfræðilegt og alþjóðlegt nám þar sem fengist er við hin stóru viðfangsefni nútímans. Meginmarkmið námsins er að útskrifa nýja kynslóð fagfólks sem hefur haldgóða þekkingu og færni á sviði umhverfis- og auðlindafræða og getur unnið þvert á fræði og faggreinar. Kennt er alfarið á ensku og nemendahópurinn er alþjóðlegur.

Námið
Meistaranámið er þverfræðilegt rannsóknartengt nám. Nemendur velja sér kjörsvið eða áherslulínur:
- Umhverfis- og auðlindafræði
- Sjálfbær orku- og iðnaðarkerfi
- Umhverfisvísindi og stjórnun umhverfismála
- Stjórnun náttúruauðlinda
- Sjávarauðlindafræði
- Endurnýjanleg orka – orkuhagfræði, orkustefnumótun og sjálfbærni

Þverfræðilegt skipulag
Öll fræðasvið Háskóla Íslands standa að náminu og meistaranemar velja leiðbeinanda í meistararitgerð úr hópi fastra akademískra starfsmanna í samráði við kennara námsins. Námið er samsett úr margvíslegum kjarna- og valnámskeiðum auk rannsóknarverkefnis (30 eða 60 ECTS). Heimadeild leiðbeinanda segir til um frá hvaða deild nemandi brautskráist frá að námi loknu.
- Umsækjendur þurfa að hafa lokið BS-, BA- eða B.ed.- prófi eða öðru háskólanámi sem metið er jafngilt. Miðað við 1. einkunn (7,25) í grunnnámi.
- Umsækjendur, sem ekki hafa ensku að móðurmáli, þurfa að sýna fram á góða þekkingu á enskri tungu (TOEFL 85, IELTS 6.5). Íslenskir umsækjendur þurfa aðeins að sýna fram á trausta undirstöðu í ensku með því að skila greinargerð á ensku.
- Umsækjendur skulu skila stuttri greinargerð (1-2 bls.) þar sem þeir tilgreina hvers vegna þeir hafa áhuga á þessu námi, bakgrunn sinn og þekkingu á þessum málaflokki, markmið með náminu og framtíðaráform, og hugsanlegt viðfangsefni í meistararitgerð. Greinargerðir frá öllum nemendum, íslenskum sem erlendum, skulu vera á ensku.
- Öllum umsóknum skulu fylgja meðmæli frá 2-3 einstaklingum (kennari/yfirmaður) sem þekkja vel til umsækjenda og geta veitt honum skýra umsögn.

Að námi loknu
Umhverfis- og auðlindafræðingar eru eftirsóttir starfskraftar og að námi loknu bíður fjölbreyttur starfsvettvangur, svo sem í ráðgjöf á sviði umhverfis- og orkumála, hjá fyrirtækjum með virka umhverfisstefnu, í stjórnsýslu á sveitarstjórnarsviði og landsvísu, við rannsóknir hjá opinberum stofnunum og einkaaðilum og við kennslu.
Alþjóðlegt umhverfi
Nemendahópurinn samanstendur af fólki alls staðar að úr heiminum með fjölbreyttan bakgrunn, bæði hvað varðar menntun og starfsreynslu. Íslenskir nemendur fá þannig einstakt tækifæri til að vinna í alþjóðlegu umhverfi innan landsteinanna. Námið er því tilvalið fyrir fólk sem vill öðlast færni í að vinna í þverfræðilegum og alþjóðlegum teymum.

Félagslíf
Gaia, félag meistaranema í umhverfis– og auðlindafræðum við Háskóla Íslands, stendur fyrir öflugu félagslífi, auk þess sem markmið þess er að vera öflugt samskipta– og öryggisnet. Gaia er aðalskipuleggjandi Grænna daga við Háskóla Íslands. Nemendahópurinn í umhverfis– og auðlindafræðum er alþjóðlegur og því fara samskipti innan félagsins yfirleitt fram á ensku.
Hafðu samband
Upplýsingar um námið veitir
Bjargey Anna Guðbrandsdóttir verkefnisstjóri
umhverfi@hi.is
Sími: 525-5457
