Skip to main content

Tekur Þórberg alvarlega

Soffía Auður Birgisdóttir, sérfræðingur á Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Hornafirði

Sterk staða Þórbergs Þórðarsonar í íslenskri bókmenntasögu er óumdeild. Höfundarverki hans hefur þó furðu lítt verið sinnt í fræðilegum skilningi þótt það hafi breyst á undanförnum árum, ekki síst með tilkomu Þórbergsseturs á Hala í Suðursveit. Við bætast svo skrif þeirra Halldórs Guðmundssonar og Péturs Gunnarssonar um ævi Þórbergs. Soffía Auður Birgisdóttir, sérfræðingur við Rannsóknasetur háskólans á Höfn, hefur rannsakað höfundarverk Þórbergs Þórðarsonar undanfarin ár og þannig bætt um betur.

„Markmiðið er að skoða vandlega bakgrunn þessa sérstaka bókmenntagervis sem Þórbergur vinnur með – og má kalla skáldævisögu – og spyrja mikilvægra spurninga á borð við: Hverjar eru helstu kveikjur að skrifum Þórbergs? Úr hvers konar umhverfi, félagslegu og bókmenntalegu, eru þau sprottin, í hverju eru helstu nýjungar þeirra fólgin og hver eru áhrif Þórbergs á íslenska bókmenntasögu?“

Soffía Auður Birgisdóttir

Soffía Auður segir það lensku að líta á Þórberg sem furðufugl sem varla beri að taka alvarlega. Bækur hans falli ekki að hefðbundnum skilgreiningum á bókmenntum og henti því illa í námskeið sem byggjast á slíkum skilgreiningum.

Soffía Auður Birgisdóttir

Soffía Auður segir það lensku að líta á Þórberg sem furðufugl sem varla beri að taka alvarlega. Bækur hans falli ekki að hefðbundnum skilgreiningum á bókmenntum og henti því illa í námskeið sem byggjast á slíkum skilgreiningum. „Ég fór til dæmis sjálf í gegnum margra ára háskólanám í íslenskum bókmenntum án þess að rekast á nema eitt verk eftir Þórberg á leslistum námskeiða. Mig grunaði snemma að á bak við þá byltingu í íslenskri frásagnarlist, sem sjá má í skrifum Þórbergs, lægi meira en sérviska höfundarins og trúðslæti,“ segir Soffía Auður og bætir við að komið hafi á daginn að Þórbergur sé mjög snjall höfundur sem viti vel hvað hann sé að sýsla „þótt hann hafi unun af því að leika og leika sér.“

Soffía Auður, sem hefur alltaf verið heilluð af bókum Þórbergs, býr og vinnur inni í miðju sögusviði margra bóka hans. „Það eitt eykur skilning á verkum hans að vera beintengdur við umhverfið sem bækurnar eru sprottnar úr,“ segir hún. Soffía Auður hefur haldið fjölda fyrirlestra um skrif Þórbergs, bæði heima og erlendis. „Erindin úti hafa alltaf mælst vel fyrir, það er nefnilega einn misskilningurinn að verk Þórbergs séu óþýðanleg þar sem þau séu of „lókal“. Þvert á móti held ég að því meira „lókal“ sem bækur eru, þess meiri áhugi er á þeim „glóbal“.

Soffía Auður stefnir að því að gefa út bók um skrif Þórbergs á næsta ári og segist vonast til að rannsókn sín hafi gildi fyrir íslenska bókmennta- og menningarsögu. „Ég held að ýmislegt í rannsókninni muni stuðla að endurmati á verkum Þórbergs og stöðu hans í íslenskri bókmenntasögu – og jafnvel koma á óvart. Lífið er lítils virði ef bókmenntir og listir eru ekki gildur þáttur í samfélagi okkar og framlag mitt verður vonandi til þess að auðga umræðu um mikilvægi þeirra.“

Soffía Auður lauk doktorsprófi frá Háskóla Íslands árið 2016.