Skip to main content

Tannplanti eða brúarsmíði?

Bjarni Elvar Pjetursson, prófessor við Tannlæknadeild

Þótt sú kunna setning „Hreinar tennur skemmast ekki“ eigi fullkomlega við rök að styðjast er það nú svo að ekki endast allar tennur út heila mannsævi. Þegar við fæðumst erum við flest tannlaus. Á fyrstu tveimur æviárunum spretta tuttugu barnatennur upp úr tanngarðinum. Á bilinu sex til tólf ára koma síðan þrjátíu og tvær fullorðinstennur í stað barnatannanna. Á árum áður var algengt að fullorðinstennur töpuðust og fólk væri orðið tannlaust aftur, jafnvel á unga aldri.

Bjarni Elvar Pjetursson, prófessor við Tannlæknadeild, segir að fyrir röskum fjórum áratugum hafi komið fram sú nýjung að setja títan-skrúfur í tannlaust kjálkabein og nota þær sem nokkurs konar akkeri fyrir „þriðja“ tannsettið. Þetta kallist að koma fyrir tannplanta. „Aðferðin hefur verið í stöðugri þróun en hún gerir kleift að græða þriðja tannsettið í flesta þá sem þess óska,“ segir Bjarni Elvar.

Bjarni Elvar Pjetursson

Þótt sú kunna setning „Hreinar tennur skemmast ekki“ eigi fullkomlega við rök að styðjast er það nú svo að ekki endast allar tennur út heila mannsævi.

Bjarni Elvar Pjetursson

Í byggingafræðum er öllum ljóst að hús sem reist eru á sandi eru ekki líkleg til að endast. Það sama á við um uppbyggingu í munnholinu. Tannlæknar standa þannig daglega frammi fyrir því að taka ákvarðanir um meðferð sjúklinga. Þegar tekin er ákvörðun um smíði tanngervis í tannlaust bil er algengast að tönnin sé annaðhvort smíðuð á stakan tannplanta eða sem brú með tvær stoðtennur til hvorrar hliðar. „Þegar meðferð er áætluð þarf að skoða áhættuþætti nánar. Tanngervi, smíðuð á tannplanta eða stoðtennur, eru undir miklu álagi í munninum og geta gefið sig við notkun. Upp geta komið minniháttar vandamál sem hægt er að lagfæra á einfaldan hátt en einnig geta komið upp erfiðari og flóknari vandamál sem geta í versta falli valdið því að endurgera þarf tanngervið. Þrátt fyrir að meirihluti tanngerva standi sig vel undir þessu mikla álagi eru líffræðileg og tæknileg vandamál ekki óalgeng,“ segir Bjarni Elvar.

„Þegar tennur og tannplantar eru borin saman hefur það sýnt sig að vandamálin hjá tannstuddum tanngervum eru frekar líffræðilegs eðlis en vandamálin hjá tannplantastuddum tanngervum eru frekar tæknilegs eðlis,“ segir Bjarni.

Þar sem engar slembirannsóknir hafa verið gerðar í munn- og tanngervalækningum, þar sem brýr á stoðtennur eru bornar saman við stakar krónur á einn tannplanta, hefur verið reynt að draga saman á kerfisbundinn hátt þær rannsóknir sem til eru. Bjarni Elvar segir að þetta sé gert í þeirri viðleitni að bera saman hefðbundnar brýr á stoðtennur við stakar tennur á tannplanta. Einnig sé tilgangurinn að meta umfang líffræðilegra og tæknilegra vandamála sem upp kunna að koma við hvora aðferð fyrir sig. Niðurstöðurnar hafa sýnt að um 90% tanngerva, bæði á tennur og tannplanta, endast lengur en tíu ár og að koma má í veg fyrir flest líffræðileg og tæknileg vandamál með góðri munnhirðu, reglulegu eftirliti, réttri meðferð og vönduðum vinnubrögðum.