Sýrusliti fornra tanna svipar til slits hjá unglingum í dag | Háskóli Íslands Skip to main content

Sýrusliti fornra tanna svipar til slits hjá unglingum í dag

Svend Richter, dósent við Tannlæknadeild

Mikið tannslit einkenndi tennur fornmanna um heim allan sem talið er stafa af neyslu grófrar og harðrar fæðu. Sýruslit á tönnum hefur hins vegar verið álitið fremur nýlegt vandamál en skilningur er að vakna um að það hafi ávallt verið til staðar í einhverjum mæli,“ segir Svend Richter, dósent í tannlæknisfræði, sem hefur beint sjónum sínum að þætti sýruslits í tannsliti Íslendinga til forna.

Svend Richter

„Við Sigfús Þór Elíasson tannlæknir höfum rannsakað höfuðkúpur úr fornleifafundi á Skeljastöðum í Þjórsárdal en gosaska úr Heklugosi 1104 lá yfir leifunum. Meginverkefnið var að kanna tannheilsu Íslendinga á þessum tíma með sérstaka áherslu á tannslit“

Svend Richter

„Við Sigfús Þór Elíasson tannlæknir höfum rannsakað höfuðkúpur úr fornleifafundi á Skeljastöðum í Þjórsárdal en gosaska úr Heklugosi 1104 lá yfir leifunum. Meginverkefnið var að kanna tannheilsu Íslendinga á þessum tíma með sérstaka áherslu á tannslit,“ útskýrir hann.

Í rannsóknum sem þessum verður að horfa til þess hvaða fæðu fólk neytir enda hefur hún áhrif á slit tanna. „Fiskur, sem fólk neytti á þessum tíma, var þurrkaður og sennilega mengaður af ryki og eldfjallaösku. Kjöt var aðallega súrsað, salt var ekki fáanlegt og korn var mikil munaðarvara. Þá var skyrs neytt alls staðar á Norðurlöndum. Mysa, aukaafurð við skyrgerðina, var gerjuð í mjólkursýru sem notuð var til að sýra mat, aðallega kjöt, og mjólkursýra blönduð vatni var hversdagsdrykkur Íslendinga fram á okkar tíma.“

Rannsóknir Svends og Sigfúsar á höfuðkúpunum leiða í ljós að tannslit var verulegt meðal fornmanna, meira í eldri aldurshópum og mest á fyrsta jaxli. „Tennurnar í kúpunum sýndu merki um slit af völdum grófmetis en sjá mátti slit sem líktist sýrusliti ungs fólks nú á tímum sem neytir súrra drykkja í óhófi, sérstaklega gosdrykkja, orkudrykkja og safa,“ segir Svend enn fremur.

Svend bendir á að rannsóknir Þorbjargar Jensdóttur, doktors í heilbrigðisfræðum, og samstarfsmanna á glerungsætandi áhrifum súrra drykkja sýni að mysa sé mjög sýruætandi. „Skýringin á því að menn hafa ekki komið auga á þetta fyrr er að sýruslit í glerungi, sem er orðinn faraldur hjá ungu fólki, hefur ekki verið þekkt nema í 20-30 ár. Því drögum við þá ályktun í rannsókninni að súrir drykkir og matur, ásamt neyslu grófmetis, hafi verið aðalorsakavaldur tannslits Íslendinga til forna,“ segir Svend að lokum.

Netspjall