Skip to main content

Með öræfin í bakgarðinum - um tengsl samfélags og hálendis á Austurlandi

Verkefnið felst í rannsókn á hinum ýmsum hliðum tengsla manns og öræfa Austurlands. Öldum saman hafa öræfi Austurlands átt sér bæði raunverulega og ímyndaða hlið sem sá afskekkti heimur sem þau hafa löngum verið. Þar má bæði fræðast um sögu náttúruafla og lífsbaráttu samfélaga við rætur þeirra, auk gildis þeirra í dag fyrir auðlindanýtingu, náttúruvernd og náttúrutúrisma. Markmiðið er að leiða saman þverfræðilegar rannsóknir um efnið. Verkefninu var hleypt af stokkunum með ráðstefnu á Hótel Héraði vorið 2018 þar sem komu saman með erindi vísindamenn af hinum ýmsu fræðasviðum ásamt heimamönnum

Fyrstu áfangar í rannsóknum í þessu þema af hálfu Rannsóknaseturs HÍ á Austurlandi eru tvær birtar greinar: „Um ást á öræfum; og áhrif hennar á verndun miðhálendisins“, Ritið. Tímarit Hugvísindastofnunar 3/2019, bls. 45–67, og „Hálendisheimur opnast. Um náttúrusýn í frásögnum öræfafara norðan Vatnajökuls á 18. og 19. öld.“ Skírnir. Tímarit hins íslenska bókmenntafélags 192:2 (2018), bls. 302-338.  

Næsti áfangi er yfirstandandi rannsókn á Íslandsferðum þýska jarðfræðingsins dr. Emmu Todtmann undir vinnuheitinu: „Konan sem kannaði leyndardóma jöklanna. Emma Todtmann og rannsóknir hennar á Íslandi á fyrri hluta 20. aldar.“