Verkefnið felst í skráningu og rannsókn á dómsmálum sem skráð voru og varðveitt í Dómabókum Suður- og Norður-Múlasýslu á 19. öld. Skráð verða kerfisbundið dómsmál og afgreiðsla þeirra svo rannsaka megi í framhaldinu hvaða flokkar afbrota koma fyrir, hver þjóðfélagsstaða brotlegra er, skipting eftir kyni, hverjar algengustu refsingar voru samkvæmt dómum, hvort samræmi var í dómum fyrir brot af sama eða hliðstæðu tagi og hvernig þessar heimildir endurspegla lífsbaráttu fólks. Einnig hvort og þá hvernig utanaðkomandi þrengingar á borð við harðindi eða náttúruhamfarir hafa áhrif á afbrot og eðli þeirra.
Sakamál og afgreiðsla þeirra í réttarkerfinu eru merkilegar heimildir sem geta varpað ljósi á þjóðfélagsstöðu fólks, eftir stétt, stöðu og kyni. Þetta atriði var hvatinn að því að til verkefnisins er stofnað. Markmiðið sumarið 2020 er að komast eins langt og unnt er við að skrá niður upplýsingar kerfisbundið upp úr dómabókum Múlasýslna. Úrvinnsla og greining upplýsinganna verður unnin þegar náðst hefur að skrá öll dómsmálin sem komu fyrir rétt í héraði á Austurlandi á 19. öld, málsaðila þeirra, tegund afbrota og refsinga og fleira.
Verkefnið hófst sumarið 2020 með styrk úr Nýsköpunarsjóði námsmanna og ráðningu háskólanema á mastersstigi í sagnfræði til 3 mánaða.