
Stjórnun og stefnumótun
120 einingar - MS gráða
MS nám í stjórnun og stefnumótun er bæði fræðilegt og hagnýtt. Áhersla er lögð á fræðilega þekkingu á sviði forystu og stjórnunar skipulagsheilda og hagnýtingu hennar. Námið miðar að því að nemandinn öðlist færni bæði við rannsóknir og hagnýtingu á fræðunum.
Nám til MS prófs er 120 einingar hið minnsta, þar af 90 e. í námskeiðum, auk MS-ritgerðar sem er að lágmarki 30 e.

Um námið
Í meistaranámi í stjórnun og stefnumótun fara nemendur í gegnum ýmsar kenningar - allt frá kenningum um einstaklinga sem stjórnendur yfir í kenningar um stjórnun, stefnumótun og skipulagsheildir. Áhersla er lögð á gagnrýna hugsun og hagnýtingu námsins. Þá veita aðferðafræðinámskeið undirbúning undir söfnun gagna og ákvarðanatöku.
Miðað við fullan námshraða er námið fjögur misseri.
Forkröfur í námið er BA eða BS gráða úr háskóla. Almenna reglan er að umsækjendur hafi lokið grunnnámi með 1. einkunn (7,25). Nemendur eru valdir inn í námið með hliðsjón af fyrra námi og starfsreynslu. Nemendur sem ekki hafa lokið að lágmarki 36 einingum í viðskiptafræði eða skyldum greinum í grunnnámi þurfa við upphaf námsins að ljúka undirbúningsnámskeiðinu VIÐ155M Inngangur að rekstri, námskeiðið er ekki til gráðu. Af þessum 36 einingum skulu að lágmarki 24 einingar vera í eftirfarandi greinum eða sambærilegum: Fjármál, Inngangur að fjárhagsbókhaldi, Rekstrarhagfræði, Aðferðafræði, Inngang að mannauðsstjórnun, Inngang að stjórnun, Inngangur að markaðsfræði, Inngang að verkefnastjórnun, UI – Tölvunotkun og töflureiknir, Lögfræði.