Stærðfræðikennsla betrumbætt | Háskóli Íslands Skip to main content

Stærðfræðikennsla betrumbætt

Guðbjörg Pálsdóttir, dósent við Kennaradeild

„Helstu rannsóknasvið mín eru menntun stærðfræðikennara, námsefni í stærðfræði fyrir grunnskóla og skipulagning og uppbygging stærðfræðikennslu.“ Þetta segir Guðbjörg Pálsdóttir, dósent í stærðfræðikennslu.

Þessa dagana vinnur Guðbjörg að samanburðarrannsókn á hugmyndafræðilegum bakgrunni stærðfræðikennaramenntunar í Háskóla Íslands og við Nelson Mandela Metropolitan háskólann í Suður-Afríku. „Upphaf að þeirri rannsókn má rekja til heimsókna minna í háskólann í Suður-Afríku og þeirra samræðna sem ég átti við kennara og kennaranema þar. Rannsóknin er unnin í samstarfi okkar Guðnýjar Helgu Gunnarsdóttur, lektors við Kennaradeild, og Lyn Webb, dósents í stærðfræðimenntun við Nelson Mandela Metropolitan háskólann."

Guðbjörg Pálsdóttir

Guðbjörg vinnur að samanburðarrannsókn á hugmyndafræðilegum bakgrunni stærðfræðikennaramenntunar í Háskóla Íslands og við Nelson Mandela Metropolitan háskólann í Suður-Afríku.

Guðbjörg Pálsdóttir

Guðbjörg segir að fyrstu niðurstöður gefi tilefni til að skoða nánar á hvern hátt samfélagið og alþjóðlegir meginstraumar birtast í námskrá fyrir stærðfræðikennaranema. Niðurstöðurnar voru kynntar á ráðstefnu í Maputo í Mósambík í janúar síðastliðnum.

Þær Guðbjörg og Guðný Helga hafa að auki tekið þátt í norrænu samstarfsneti undanfarin þrjú ár um námsefni í stærðfræði. „Við höfum unnið með sænskum starfssystrum að rannsókn á notkun og viðhorfum stærðfræðikennara í fyrstu bekkjum grunnskólans til kennsluleiðbeininga í stærðfræði. Í netinu hafa starfað yfir 30 manns frá Norðurlöndunum og Eystrasaltslöndunum við að rannsaka námsefni út frá mörgum sjónarhornum, m.a. hafa þátttakendur rannsakað námsefnisgerð og notkun námsefnis á öllum skólastigum,“ segir Guðbjörg.

Þær Guðbjörg og Guðný Helga hafa líka fengið aðgang að gögnum úr rannsókn sem nefnist Starfshættir í grunnskólum og skoðað uppbyggingu stærðfræðikennslustunda. „Í gögnunum kemur fram að kennarar leggja áherslu á að styðja hvern nemanda í námi sínu með því að veita einstaklingshjálp í framhaldi af bekkjarumræðu. Við munum kynna þessar rannsóknir á alþjóðlegri ráðstefnu um stærð- fræðimenntun og samfélag í júní.“

Guðbjörg er ekki einhöm í verkefnum sínum því nú er hún að hefja rannsókn á því hvernig íslenskir unglingastigskennarar vinna með stærðfræðileg líkön og sköpun í stærðfræði. Rannsóknin er í samstarfi við gistiprófessorinn Bharath Sriraman.

Guðbjörg segir afar brýnt að gerðar séu rannsóknir á sviði stærðfræðimenntunar á Íslandi. „Þótt þær rannsóknir sem við stundum á Menntavísindasviði séu flestar smáar í sniðum, þá hjálpa þær við að skoða íslenskt skólasamfélag í ljósi erlendra rannsókna. Þær gefa okkur hugmyndir um hvernig við getum staðið að menntun og starfsþróun stærðfræðikennara. Við höfum til dæmis verið að þróa og rannsaka notkun rannsóknakennslustunda í stærðfræðikennara- námi sem hafa gefið okkur góð tækifæri til að þróa áfram kennsluhætti. Meginmarkmið rannsókna í stærðfræðimenntun er að finna leiðir til að bæta stærðfræðikennslu og þar með möguleika til stærðfræðináms.“

Netspjall