Spá æðaskellur í slagæðum fyrir hjartasjúkdómum? | Háskóli Íslands Skip to main content

Spá æðaskellur í slagæðum fyrir hjartasjúkdómum?

Guðlaug Björnsdóttir, MS frá Læknadeild

„Ómun hefur verið notuð við mælingar á æðaskellum í hálsslagæðum en rannsóknir og mælingar á hversu nákvæm aðferðin er hefur skort,“ segir Guðlaug Björnsdóttir um meistararannsókn sína í geislafræði sem hún lauk vorið 2013.

Guðlaug hefur starfað við ómun hálsslagæða hjá Hjartavernd undanfarin ár en við ómunina er notast við hljóðbylgjur til þess að mæla æðaskellur í hálsslagæðum. Skellurnar geta haft alvarlegar afleiðingar þar sem þær geta hindrað eðlilegt blóðflæði og minnkað teygjanleika æða og t.d. myndað blóðtappa og orsakað heilablóðfall.

Guðlaug Björnsdóttir

„Markmiðið með verkefninu mínu var að þróa aðferð til að mæla með ómun á áreiðanlegan hátt breytingu á stærð og samsetningu æðaskella á tilteknu tímabili.“

Guðlaug Björnsdóttir

Guðlaug segist hafa verið heppin að hafa getað sérhæft sig enn frekar á þessu sviði í meistaranámi sínu í geislafræði. „Markmiðið með verkefninu mínu var að þróa aðferð til að mæla með ómun á áreiðanlegan hátt breytingu á stærð og samsetningu æðaskella á tilteknu tímabili. Verkefnið er hluti af annarri og stærri rannsókn hjá Hjartavernd sem lýtur að því að tengja helstu áhættuþætti, eins og kyn, erfðir, aldur, blóðfitu og reykingar, svo að eitthvað sé nefnt, við langtímabreytingar á æðaskellum og reyna á þann hátt að bæta og auka forspárgildi hjarta- og æðasjúkdóma,“ segir Guðlaug.

Guðlaug segir að rannsókn hennar hafi sýnt að ómunaraðferðin sem beitt er hjá Hjartavernd sé áreiðanleg til að meta langtímabreytingar í æðaskellum hálsslagæða. „Ég komst að því að sé aðferðinni fylgt strangt eftir, þá næst að halda breytileika mælinganna í lágmarki þannig að gera megi raunhæfar langtímamælingar á stærð og samsetningu æðaskella,“ segir Guðlaug og bætir við að til standi að birta niðurstöður rannsóknarinnar í vísindariti á vordögum 2014.

Leiðbeinandi: Vilmundur Guðnason, forstöðulæknir Hjartaverndar og prófessor við Læknadeild.

Netspjall