Skip to main content

Skoðar samskipti þeirra yngstu

Miklar breytingar hafa orðið í leikskólum landsins á undanförnum árum og áratugum og hefja börn nú leikskólagöngu mun yngri en áður. Sú staðreynd var Hrönn Pálmadóttur, lektor í leikskólafræði, innblástur að doktorsverkefni en þar beinir hún sjónum að yngstu leikskólabörnunum. „Rannsóknin snýst um leik og samskipti eins til þriggja ára barna í leikskóla þar sem reynt er að nálgast sjónarhorn barnanna sjálfra. Kannað er hvernig yngstu leikskólabörnin byggja upp samfélag sitt í leik og voru myndbandsupptökur af samskiptum barnanna meginrannsóknaraðferðin,“ útskýrir Hrönn.

Hrönn segir rannsóknina falla vel að áhuga sínum á leik og námi ungra barna og kennslu leikskólakennaranema. Í leik sínum fái börn reynslu af félagslegri þátttöku innan hópa. „Líkaminn gegnir mikilvægu hlutverki þegar ung börn tjá fyrirætlanir og skapa merkingu í samskiptum sínum við aðra. Í nýlegri aðal- námskrá leikskóla og í alþjóðlegum samþykktum er staðfest að öll börn hafi þau mannréttindi að á þau sé hlustað. Ég velti því fyrir mér hvort börn sem ekki eru farin að nota tungumálið sem megintjáningarleið gætu haft takmarkaðri möguleika en eldri börnin til að láta til sín taka í leikskólasamfélaginu,“ segir Hrönn enn fremur.

Hrönn Pálmadóttir

...raddir barna eru mikilvægt framlag til umræðu um gæði og hlutverk leikskóla í samfélaginu.“

Hrönn Pálmadóttir

Niðurstöður Hrannar benda m.a. til þess að þátttaka í leik virtist vera mikilvæg í augum barnanna. „Samskiptin snerust um að koma sjálfu sér á framfæri, taka þátt í athöfnum annarra og móta þannig sameiginlegan grundvöll fyrir leikinn. Börnin sýndu hæfni í samskiptunum en gátu einnig verið varnarlaus og óörugg með stöðu sína innan barnahópsins. Mikilvæg gildi í samskiptunum snerust um að tjá einstaklingsbundinn rétt og að sýna umhyggju fyrir félögum og kennurum. Í leiknum áttu sér einnig stað átök milli barnanna þar sem þau tjáðu eigin sjónarmið og leituðu leiða til að leysa ágreininginn,“ segir hún enn fremur um niðurstöður sínar.

Um þýðingu rannsóknarinnar segir Hrönn að þarna sé yngstu leikskólabörnunum gefið tækifæri til að eiga hlutdeild í mótun þekkingar á lífi þeirra í leikskóla „en raddir barna eru mikilvægt framlag til umræðu um gæði og hlutverk leikskóla í samfélaginu.“

Leiðbeinandi: Jóhanna Einarsdóttir, prófessor og forseti Menntavísindasviðs.

Hrönn lauk doktorsprófi frá Háskóla Íslands árið 2015.