Skip to main content

Skandinavísk fræði

Skandinavísk fræði

Hugvísindasvið

Skandinavísk fræði

BA gráða – 180 ECTS einingar

Þriggja ára fræðilegt grunnnám í skandinavískum fræðum. Lögð er áhersla á að nemendur nái fullum tökum á dönsku og/eða sænsku máli jafnt í ræðu sem riti, öðlist djúpa fræðilega þekkingu á skandinavískri tungu og þjóðlífi, sem og bókmenntum og menningu Skandinavíu.

Skipulag náms

X

Mál og menning I: Vinnulag og aðferðir í hugvísindum (MOM101G, MOM102G)

Meginmarkmið námskeiðsins er að leita svara við spurningum á borð við: Hvað eru hugvísindi og vísindaleg vinnubrögð, hvernig er þeim beitt á sviði hugvísinda, hvað er átt við með hugtökunum gagnrýnin hugsun, siðferði og siðfræði, ritstuldur, heimildaleit og heimildavinna? Ennfremur er námskeiðinu ætlað að veita nemendum innsýn í vinnuaðferðir hugvísinda og þjálfa þá í faglegum vinnubrögðum s.s. heimildaleit, framsetningu texta, ritun, ritgerðarsmíð, framsögum og fleiru. 

ATHUGIÐ! NÁMSKEIÐIÐ ER KENNT Á ÍSLENSKU OG Í STAÐNÁMI. ÞEIR SEM TAKA NÁMSKEIÐIÐ Á ENSKU OG Í FJARNÁMI EIGA AÐ VERA SKRÁÐIR Í MOM102G.

MOM101G er ætlað nemendum í erlendum tungumálum ÖÐRUM en ensku. Nemendur í ensku og þeir sem ekki eiga íslensku að móðurmáli eiga að vera skráðir í MOM102G.

X

Mál og menning I: Vinnulag og aðferðir í hugvísindum (MOM101G, MOM102G)

Meginmarkmið námskeiðsins er að svara spurningum eins og: hvað eru hugvísindi og vísindaleg vinnubrögð, hvernig er þeim beitt á sviði hugvísinda, hvað er átt við með hugtökunum gagnrýnin hugsun, ritstuldur, heimildaleit og heimildavinna? Ennfremur er námskeiðinu ætlað að veita nemendum innsýn í vinnuaðferðir hugvísinda og þjálfa þá í faglegum vinnubrögðum s.s. akademísku læsi og ritun (framsetningu texta, ritgerðasmíð), heimildaleit, framsögum og fleiru. 

ATHUGIÐ! Námskeiðið er kennt á ensku og er ætlað BA-nemendum í ensku og nemendum í akademískri ensku, þeim sem ekki hafa íslensku sem móðurmál og þeim sem stunda fjarnám.

Nemendur í erlendum tungumálum öðrum en ensku og þeir sem hafa íslensku að móðurmáli eiga að skrá sig í MOM101G.

X

Sænsk málfræði I (SÆN106G)

Farið yfir grundvallaratriði í sænskri málfræði. Í námskeiðinu er áherslan lögð á beygingarfræði. Fjallað verður um orðflokkana og gefið yfirlit yfir uppbyggingu og beygingu orða. Veittur verður fræðilegur grunnur ásamt því að nemendur geri skriflegar æfingar.

X

Danskar samtímabókmenntir (DAN110G)

Í þessu námskeiði í dönskum samtímabókmenntum verður lögð áhersla á danskar bókmenntir eftir 2000. Með því að lesa texta sem tengjast ýmist raunsæi, töfraraunsæi, sjálfsögum, loftslagsbreytingum eða mínímalísma öðlast nemandinn þekkingu á greiningarverkfærum bókmenntafræðinnar: túlkun, stíl, grein, o.s.frv.

X

Sjálfsnám í sænsku (SÆN005G)

Námskeiðið er nemendastýrt sænskunám þar sem markmiðið er að nemendur æfi helstu þætti sænskunnar með sjálfsnámi undir stjórn kennara.

Námskeiðið er ætlað þeim sem hafa grunnþekkingu á sænsku, upp að færnistigi A2 (CEFR).

Nemendur gera verkefni vikulega á Canvas sem innihalda spurningar um sænska tungu og fara yfir undirstöður málfræði, framburðar og orðaforða.

Kennslan fer ekki fram á kennslustofu heldur í gegnum netið, á Canvas. Þar finna nemendur öll vikuleg verkefni sem og miðannarverkefnið. Lokaprófið fer fram á Teams.

Kennarinn mun hitta bekkinn þrjú skipti á misserinu á Teams: í upphafi misseris, í viku sex til að ræða miðmisserisverkefni, og við lok misseris fyrir próf. Nemendur mega alltaf hafa samband við kennara í gegnum misserið og hægt verður að hitta kennara á Teams eða í skóla ef þörf er á.

Fyrir nemendur sem þurfa meiri þjálfun í sænsku er mælt með netkennsluefninu Learning Swedish sem verður aðgengilegt á Canvas.

X

Sænsk málnotkun I (SÆN101G)

Lögð verður áhersla á talað mál, orðaforða, ásamt færni í að tala eðlilega og fjölbreytta sænsku. Markmiðið er að nemendur nái góðum tökum á að nota sænsku til tjáskipta. Lestur, talmál, munnlegar æfingar í nútímasænsku. Ætlast er til að nemendur hafi a.m.k. grunnþekkingu í sænsku fyrir. Nemendur í fjarnámi gera æfingar skriflega eða taka upp myndbönd eða hljóðskrár þar sem þeir svara spurningum vikunnar.

Lokaprófið er munnlegt fyrir alla og þá á Teams fyrir þá sem komast ekki á staðinn.

X

Mál og menning II: Hugmynda- og málvísindasaga (MOM201G, MOM202G)

Námskeiðið er ágrip af vestrænni hugmynda- og málvísindasögu frá fornöld og fram til nútímans. Í því felst heimspekileg umfjöllun um þróun vísinda og fræðilegrar þekkingarleitar í Evrópu þar sem rýnt er í ólíkan skilning á eðli þekkingar og hlutverki hennar í mannlegu lífi allt frá Grikkjum til forna og fram á skeið upplýsingarinnar á átjándu öld. Inn í þessa þekkingarfræðilegu umræðu fléttast einnig mismunandi sjónarhorn frá fyrri öldum á eðli tungumálsins. Ennfremur er vikið að helstu straumum og stefnum í þjóðfélagsmálum, tæpt á nokkrum mikilvægum bókmenntaverkum fyrri alda og hugað að tilurð ýmissa menningarlegra einkenna sem áberandi eru í vestrænum samfélögum nútímans. Í seinni hluta námskeiðsins er áhersla lögð á sögu og þróun málvísinda sem sérstakrar fræðigreinar fram á okkar daga. Námskeiðið færir nemendum fræðileg grundvallarhugtök og -tól sem ómissandi eru fyrir frekara nám í bókmenntum, málvísindum og öðrum menningarfræðum. Námskeiðið fer að mestu leyti fram sem vendikennsla og er gert ráð fyrir að nemendur mæti vel undirbúnir í tíma.

X

Mál og menning II: Hugmynda- og málvísindasaga (MOM201G, MOM202G)

Námskeiðið er ágrip af vestrænni hugmynda- og málvísindasögu frá fornöld og fram til nútímans. Í því felst heimspekileg umfjöllun um þróun vísinda og fræðilegrar þekkingarleitar í Evrópu þar sem rýnt er í ólíkan skilning á eðli þekkingar og hlutverki hennar í mannlegu lífi allt frá Grikkjum til forna og fram á skeið upplýsingarinnar á átjándu öld. Inn í þessa þekkingarfræðilegu umræðu fléttast einnig mismunandi sjónarhorn frá fyrri öldum á eðli tungumálsins. Ennfremur er vikið að helstu straumum og stefnum í þjóðfélagsmálum, tæpt á nokkrum mikilvægum bókmenntaverkum fyrri alda og hugað að tilurð ýmissa menningarlegra einkenna sem áberandi eru í vestrænum samfélögum nútímans. Í seinni hluta námskeiðsins er áhersla lögð á sögu og þróun málvísinda sem sérstakrar fræðigreinar fram á okkar daga. Námskeiðið færir nemendum fræðileg grundvallarhugtök og -tól sem ómissandi eru fyrir frekara nám í bókmenntum, málvísindum og öðrum menningarfræðum. Námskeiðið fer að mestu leyti fram sem vendikennsla og er gert ráð fyrir að nemendur mæti vel undirbúnir í tíma.

X

Sænsk málnotkun II (SÆN201G)

Lögð verður áhersla á talað mál og ritað mál. Markmiðið er að nemendur nái góðum tökum á að nota sænsku til tjáskipta. Talað og ritað mál, munnlegar og skriflegar æfingar í nútímasænsku.

X

Sænsk málfræði II (SÆN206G)

Sænsk málfræði II er framhald af Sænskri málfræði I en ekki er þó nauðsynlegt að hafa lokið því námskeiði. Fjallað verður um sænska beygingarfræði, sérstaklega fallorð og sagnorð. Kynnt verða hugtök á borð við persónuhætti og fallhætti og agnarsagnir. Innan setningafræði verður fjallað um setningar, setningarliði og greiningu á setningarhlutum. Einnig verður rætt um orðaröð og upplýsingaflæði.

X

Sjálfsnám í dönsku II (DAN001G)

Sjálfsnám í dönsku II er nemendastýrt fjarnám þar sem nemendur stjórna að hluta til eða öllu leyti helstu þáttum námsins svo sem markmiðum, aðferðum, efnisvali og námsmati. Um er að ræða framhaldsnámskeið fyrir þá nemendur sem hafa lokið Sjálfsnámi í dönsku I. Það námskeið er þó ekki nauðsynlegur undirbúningur og nýir nemendur geta skráð sig í þetta námskeið að uppfylltum forkröfum. Sjálfsnám fer fram í nánu samstarfi við umsjónarkennara sem nemendur hitta í sérstökum viðtölum 3 sinnum á misseri. Auk þess taka nemendur taka þátt í vinnustofum þar sem skipt er í litla hópa til að þjálfa talmál og ritun. Nemendur skila verkefnum til umsjónarkennara og námsmat tekur tillit til allra færniþátta: ritun, lestur, talmál og hlustun en nemendur geta stjórnað vægi hvers þáttar í samráði við kennara. Nemendur geta einnig valið hversu mörgum einingum þeir ljúka (2, 4 eða 6) og er námsmat í samræmi við fjölda eininga.

X

Skilvirkt dönskunám (DAN210G)

Í námskeiðinu er nemendum leiðbeint um hvernig þeir geta hratt, og af öryggi bætt dönskukunnáttu sína, bæði í tali og ritun. Hverjum nemanda verður mætt á því kunnáttustigi sem hann er og hann aðstoðaður við að vinna með áhugasvið sitt (t.d. ferðafræði, tölvufræði, viðskiptafræði, læknisfræði). Nemendur kynnast margvíslegum aðgengilegum hjálpargögnum, orðabókum og hvers konar vefefni. Unnið verður markvisst að eflingu orðaforða með þekktum aðferðum og leiðum sem gagnast nemendum vel til að efla dönskukunnáttu þeirra. Námsmat er fólgið í munnlegum og skriflegum verkefnum sem nemendur skila yfir misserið.

X

Sænskar bókmenntir eftir 1980 (SÆN102G)

Farið verður yfir nýjustu stefnur og strauma í sænskum bókmenntum. Nemendur eiga að lesa eina bók á önninni og skrifa ritgerð um hana. Yfirferðin um ritgerðina er lokaprófið og þá á nemandinn að geta svarað spurningum frá kennara um bókina. Best er að velja bók snemma á önninni svo hægt sé að lesa hana í ró og næði og skrá athugasemdir um hana til að undirbúa ritgerðina.

Annars verður lögð áhersla á brotum úr bókmenntum þar sem farið verður yfir nýjar og áhugaverðar sænskar bækur og stílbrigðin í þeim. Nemendur eiga einnig að lesa eina smásögu á önninni. Markmiðið er að nemendur fá góða og yfirgripsmikla þekkingu um sænskar nútímabókmenntir og -höfunda.

X

Ingmar Bergman - uppreisn gegn föðurímynd (SÆN105G)

Í námskeiðinu verður fjallað um kvikmyndir Ingmars Bergman, fyrst og fremst fyrstu kvikmyndir frá tímabilinu 1950-60, þar sem uppreisn gegn föðurvaldinu myndar eins konar sálrænan kjarna. Áhersla verður lögð á þróun þemans um þörf hins trúaða manns fyrir einhvers konar tákn frá Guði í Sjunde inseglet (1956) til þess að hann samþykki að trúa á hinn grimma Guð í Jungfrukällan (1960) og áfram til uppgjörs við hina neikvæðu guðsmynd í Såsom i spegel (1961), Nattvardsgästerna (1962) og Tystnaden (1963). Nemendur horfa á fimm myndir og þær ræddar og greindar í tímum.

X

Danska: Tunga, tjáning, menning (DAN112G)

Markmiðið er að nemendur öðlist aukna alhliða samskiptahæfni á dönsku sem tekur til allra færniþátta; hlusta, lesa, tala, skrifa (fimmti færniþátturinn er „að samtala“). Í námskeiðinu verður unnið með danska menningu, hefðir og siði í víðu samhengi. Áhersla verður lögð á markvissa vinnu með þemabundinn orðaforða, auk þess sem nemendur þjálfast í notkun hvers konar hjálpargagna á sviði veforðabóka og leiðréttingaforrita. Efniviður námskeiðsins verður sóttur í alla hugsanlega miðla; dagblöð, tímarit, smásögur, söngtextar, útvarps- og sjónvarpsefni og kvikmyndir.

X

Dönsk málfræði I: Orðflokkar og orðmyndun (DAN114G)

Í námskeiðinu læra nemendur grundvallarreglur danskrar málfræði og beita þeim í talmáli og ritmáli. Nemendur verða að kunna skil á fræðilegri orðræðu um efnið.

Einnig verður farið í byggingu dansks máls. Námskeiðið er bæði fræðilegt og hagnýtt með áherslu á hvað er líkt og ólíkt með dönskri og íslenskri beyginga- og setningafræði. Nemendur vinna með fræðilega texa um efnið og nota þekkingu sína til að greina orð og setningar með tilliti til merkingar, beyginga og setningafræði. Nemendur vinna með hagnýt verkefni í tengslum við fræðin.

X

Félagsleg málvísindi og sænskar mállýskur (SÆN203G)

Markmið námskeiðisins er að kynna nemendum helstu viðfangsefni í félagslegum málvísindum. Meðal annars verður fjallað um kyn-, aldurs- og svæðisbundna málnotkun, innflytjendamál og áhrif þeirra á sænskuna, samtalsgreiningu og áhrif viðhorfa málnotenda á tungumálið. 

X

Danska: Tjáning, saga og samfélag (DAN208G)

Markmiðið er að nemendur öðlist enn aukna alhliða samskiptahæfni á dönsku sem tekur til allra færniþátta. Í námskeiðinu verður unnið með efni af ýmsu tagi og breytilegu þyngdarstigi og sem fjalla um samfélagsleg málefni, stjórnmál og sögulega atburði. Nemendur þjálfast í að tjá sig um samfélagsleg málefni, jafnt stjórnmál, sögu sem og önnur málefni sem efst eru á baugi hverju sinni. Nemendur semja texta bæði skriflega og munnlega fyrir mismunandi tilefni, ásamt því að nota málsnið sem hæfir aðstæðum og samhengi hverju sinni.  

X

Danskar bókmenntir á 20. öld (DAN206G)

Markmiðið með námskeiðinu er að nemendur öðlist yfirsýn yfir danska bókmenntasögu 20. aldar og kynnist höfundum tímabilsins með því að vinna með lykilverk. Við lok námskeiðsins skulu nemendur geta sýnt hæfni í að gera grein fyrir ákveðnum tímabilum, hugtökum og höfundaverkum í dönskum bókmenntum 20. aldar. Á grundvelli bókmenntalegra sérkenna eiga nemendur að geta staðsett texta í bókmenntasögulegu samhengi og gert grein fyrir fagurfræðilegum straumum tímabilsins.

X

Þýðingar (sænska) (SÆN205G)

Í námskeiðinu fást nemendur einkum við að þýða texta úr sænsku og á móðurmál sitt.

Skoðaðir verða ýmsar gerðir texta, bæði fagtextar og bókmenntatextar. Textarnir eru fengnir úr bókum, dagblöðum, bæklingum og af vefsíðum stofnana. Þýðingar á fagurbókmenntum verða teknar til sérstakrar athugunar. Nemendur þýða stutta texta og rædd verða þýðingavandamál sem upp koma eins og orðasambönd og menningarbundin atriði og hugað að mismunandi lausnum á þeim. Grunnatriði í þýðingarfræðum verða kynnt og nemendur kynna sér ritgerðir sem fjalla um rannsóknir á þýðingum.

X

Svíþjóð í tónum - frá Gamla Nóa til ABBA (SÆN109G)

Námskeiðið er kynning á sænskri tónlist með sérstakri áherslu á tónlist sem slegið hefur í gegn á heimsvísu, en einnig verður farið yfir sænska tónlistarsögu og sænska vísnahefð. Fjallað verður sérstaklega um ABBA og áhrif þessarar hljómsveitar, nútímapopptónlist og tónlist í samfélagslegu samhengi. Nemendur eru hvattir til að hlusta á sænska tónlist og mynda sína eigin skoðun um hana sem og að greina hana.

X

Tungumál og leiklist (MOM401G)

Valnámskeið í leiklist fyrir nemendur í Mála- og menningardeild, á 2. og 3. ári BA-náms, er samstarfsverkefni deildarinnar.

Nemendur vinna með þekkt leikverk á því tungumáli sem þeir eru að læra, en kennslan fer fram á íslensku og nemendur geta nýtt sér íslensku þýðinguna ef vill.

Nemendur velja senur úr verkinu með sviðsetningu í huga.

Þessi hluti skiptist í upphitunaræfingar, slökunaræfingar og ýmis konar framburðaræfingar. Vinna nemenda felst í samvinnu að leita leiða við uppsetningu þeirra sena sem valdar voru í fyrri hlutanum.

Kennarar í þeim tungumálum sem taka þátt aðstoða við framburð og tjáningu í viðkomandi tungumáli.

Kennslan fer fram í fyrirlestrasal Veraldar á miðvikudögum frá kl. 15:00 til 18:00 og er mæting forsenda þess að þetta verkefni nái markmiðum sínum.

Hámarksfjöldi nemenda er 15.

X

Norræn trú (ÞJÓ437G)

Trúarlíf manna á norðurslóðum er tekið fyrir og heimildir allt frá elstu tímum, eins og grafir, rúnasteinar, hellaristur og aðrar fornminjar verða skoðaðar. Einnig verða lesnar lýsingar á norrænum trúarathöfnum í verkum eftir Tacitus, Adam frá Brimum, Saxo Grammaticus og í fornritum Íslendinga eins og Eddukvæðum og Konungasögum. Auk norrænnar trúar verður fjallað um seið og sjamanisma. Örlagatrú er tekin til ítarlegrar umfjöllunar sem meginþáttur í forkristnum átrúnaði á Norðurlöndum. Loks er vikið að því hvernig kristindómur hefur fallið að norrænum lífsháttum og hugsunarhætti. Námskeiðið er kennt á ensku.

Vinnulag:
Kennsla fer fram í fyrirlestrum, og umræðum um fyrirlestra.

Öll fög eru skyldufög nemaVValfagBBundið val er háð skilyrðum Námsleiðin í Kennsluskrá

Hvað segja nemendur?

""
Nafn nemanda
Nemi

Námsleiðin er ný í Háskóla Íslands og því er engin umsögn frá nemenda um námið enn sem komið er. Nemendur sem stunda nám við Hugvísindasvið Háskóla Íslands hafa verið mjög ánægðir með námið. Nemendur tala um góða kennslu og stuðning kennara, litla hópa og persónumiðaða þjónustu.

Hafðu samband

Skrifstofa Hugvísindasviðs
Aðalbygging, 3.hæð - Sæmundargötu 2

Sími: 525 4400
Netfang: hug@hi.is
Skrifstofan er opin virka daga frá kl 10:00–12:00 og 13:00–15:00.

Nemendur á Hugvísindasviði geta einnig nýtt sér Þjónustutorg í Gimli og Þjónustuborð á Háskólatorgi. Hægt er að nálgast upplýsingar í netspjalli hér á síðunni.

Fylgstu með Hugvísindasviði:

""

Hjálplegt efni

Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.