Skip to main content

Setningar í sögunni

Þórhallur Eyþórsson, prófessor við Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda 

„Markmið verkefnisins er að gera heildstæða greiningu á þróun íslenskrar setningagerðar frá elstu tíð til nútíma ásamt samanburði við skyld mál. Ætlunin er að prófa svokallaða tregðutilgátu um að setningafræðilegar breytingar stafi einungis af ytri þáttum. Þessir ytri þættir geta verið málfræðilegir, einkum breytingar í hljóð- og beygingarkerfi sem hafa áhrif á setningagerðina, eða málfélagslegir, t.d. áhrif eins tungumáls á annað.“ Þetta segir Þórhallur Eyþórsson, prófessor í málvísindum, um rannsókn sem hann hefur unnið að ásamt íslenskum og erlendum samstarfsmönnum undanfarin ár.

Þórhallur segir að íslenska sé tilvalið tungumál til að prófa þessa tilgátu vegna langrar og ríkulegrar bókmenntahefðar, tiltölulega mikillar einangrunar landsins og minni erlendra áhrifa en í mörgum öðrum nálægum löndum. „Þessi samfellda rithefð og tilvist háþróaðra sögulegra gagnagrunna um íslensku gerir okkur kleift að rannsaka setningagerðir í íslensku í aldanna rás á skilvirkari hátt en í mörgum öðrum málum. Gagnagrunnarnir hafa að geyma vandlega valda og tímasetta texta frá öllum tímabilum íslenskunnar,“ segir Þórhallur.

Þórhallur Eyþórsson

„Þessi samfellda rithefð og tilvist háþróaðra sögulegra gagnagrunna um íslensku gerir okkur kleift að rannsaka setningagerðir í íslensku í aldanna rás á skilvirkari hátt en í mörgum öðrum málum.“

Þórhallur Eyþórsson

Hann bætir við að andstætt tregðutilgátunni reyni rannsakendurnir að sýna fram á að þegar allir ytri þættir hafa verið útilokaðir verði samt eftir „hreinar“ setningafræðilegar breytingar, eða „stökkbreytingar í setningagerð“ eins og hann kallar það. „Fyrstu niðurstöður benda til þess að a.m.k. sumar málbreytingar í íslensku hafi orðið án tilverknaðar ytri þátta, m.a. breytingar á orðaröð í sagnlið,“ bætir hann við og tekur dæmi: „Í forníslensku var bæði hægt að segja „Ég hef séð þennan mann“ eins og í nútímamáli og „Ég hef þennan mann séð“ þar sem andlagið fer á undan aðalsögninni. Á 19. öld hvarf síðara tilbrigðið eins og dögg fyrir sólu og kemur ekki fyrir lengur í venjulegu máli. Ekki er ljóst að neinar ytri orsakir hafi valdið þessari breytingu og þess vegna virðist hér vera um raunverulega stökkbreytingu í setningagerð að ræða.”

Þórhallur segir einstætt vísindagildi þessa verkefnis vera notkun á vönduðum og ítarlegum gagnagrunnum við rannsóknir á íslenskri málsögu þar sem gögnin séu greind og flokkuð með aðferðum málvísinda, máltækni, tölfræði og textafræði. „Verkefnið hefur alþjóðlega þýðingu og þar með hefur Ísland raunverulegan möguleika á að skara fram úr sem frumkvöðull á nýju sviði gagnagrunnsmiðaðra málvísinda.“