Um námið, námsskipan, markmið, kjörsvið og diplómanámsleiðir | Háskóli Íslands Skip to main content

Um námið, námsskipan, markmið, kjörsvið og diplómanámsleiðir

Sífellt fleiri stunda miðlun af einhverju tagi í íslensku samfélagi og um allan heim. Miðlunin fer fram í stofnunum, fyrirtækjum, hjá félögum og ekki síst einstaklingum og birtist sem vefur, texti, tal, vídeó, veggspjöld, sýning, hlaðvarp, útvarpsþáttur eða eitthvað enn annað. Þörf fyrir fært fólk á þessu sviði fer sívaxandi og atvinnumöguleikar hafa reynst góðir.

Hagnýt menningarmiðlun er nám á meistarastigi við Háskóla Íslands sem undirbýr þá einstaklinga sem vilja vinna við miðlun af einhverju tagi fyrir störf á þessu sviði. Námið er opið öllum sem hafa lokið BA-prófi eða sambærilegu prófi með fyrstu einkunn (7,25) en í diplómanáminu sem boðið er upp á er einnig tekið tillit til starfsreynslu. Flestir nemendurnir sem sækja námið hafa lokið grunnnámi í hug- eða félagsvísindum en námið er einnig opið fólki frá öðrum fræðasviðum. Einstök námskeið eru einnig opin nemendum í öðru framhaldsnámi því að margir snertifletir eru milli fræðigreina í hagnýtri menningarmiðlun.

Hagnýt menningarmiðlun er 90 eininga MA-nám með þremur kjörsviðum og tveimur námsleiðum í diplómanámi, 30 e og 60 e. Námið byggist á þverfaglegri nálgun og er markmiðið að nemendur öðlist reynslu sem geri þeim fært að starfa á ólíkum sviðum menningarmiðlunar, bæði sjálfstætt og í samstarfi við aðra. Í náminu eiga nemendur m.a. að ná valdi á undirstöðuatriðum, kenningum og hugtökum sem tengjast miðlun og menningu og geta fjallað um þau á gagnrýninn hátt. Þeir eiga að öðlast skýran skilning á því hvað er vönduð og viðurkennd miðlun menningar og geta rökstutt mat sitt. Jafnframt eiga þeir að öðlast skilning og færni til að fjalla um mismunandi framsetningu menningarefnis og ólíkt inntak efnis eftir miðlunarleiðum og markhópum. Nemendur eru m.a. búnir undir að vinna sjálfstætt og skipulega að fjölbreyttum miðlunarverkefnum og að veita nýja sýn á viðfangsefni samtímamenningar með nýsköpun og frumkvæði. Þeir eiga að öðlast færni í að miðla efni á fræðasviði sínu á myndrænan hátt, með munnlegri miðlun og í rituðum texta og geta stýrt miðlunarverkefnum og nýtt sér þar viðeigandi rannsóknaraðferðir, fræðikenningar og miðlunarleiðir.

Markmið

Nánar tiltekið eru markmið námsins eftirfarandi:

  • Að nemandi hafi þekkingu á ólíkum sviðum menningarmiðlunar og hafi öðlast færni á tilteknu(m) sviði/um menningarmiðlunar.
  • Að nemandi hafi þekkingu og skilning á aðferðum og kenningum sem varða menningu og miðlun hennar, nýsköpun og frumkvöðlastarf.
  • Að nemandi hafi færni til þess að taka rökstudda afstöðu til álitamála í menningarmiðlun.
  • Að nemandi hafi tileinkað sér gagnrýna hugsun og geti gert grein fyrir skoðunum sínum.

Námsleiðir

Nám í hagnýtri menningarmiðlun samanstendur af þremur kjörsviðum (90 e nám) og tveimur námsleiðum í diplómanámi (30 e og 60 e):

  • HMM, 90 e MA nám. Kjörsvið Hagnýt menningarmiðlun, 90 e. MA nám

Námið þjálfar fólk í nokkrum helstu miðlunarleiðum og veitir nemendum fræðilegan grunn til þess að meta einkenni og eðli miðlunar og greina hana. Ekki er gert ráð fyrir sérhæfingu á þessu kjörsviði en nemendur geta þó stýrt námi sínu í ákveðinn farveg með vali á valgreinum. Náminu lýkur með 30 e lokaverkefni sem er annars vegar tiltekin miðlun og hins vegar fræðileg umfjöllun sem tengist viðkomandi miðlun.

Aðgangskröfur: BA-próf eða sambærilegt próf með fyrstu einkunn (7,25)

  • HMM, 90 e MA nám. Kjörsvið: Vefmiðlun

Nám á kjörsviði í vefmiðlun er hugsað sem undirbúningur fyrir þá sem hafa áhuga á að vinna við vefmiðlun, vefstjórnun og rafræna þjónustu í fyrirtækjum, hjá stofnunum og öðrum aðilum. Í náminu er tekið á helstu þáttum sem sérfræðingar í rafrænni þjónustu í fyrirtækjum og stofnunum sinna en auk þess er fræðilegum grunni fléttað inn í námið. Náminu lýkur með 30 e lokaverkefni sem er annars vegar vefmiðlunarverkefni og hins vegar fræðileg umfjöllun sem tengist verkefninu.

Aðgangskröfur: BA-próf eða sambærilegt próf með fyrstu einkunn (7,25)

  • HMM, 90 e. MA nám. Kjörsvið: Menningarmiðlun og nýsköpun

Námið þjálfar fólk í að samþætta menningarmiðlun, verkefnisstjórn og nýsköpun og er einkum hugsað fyrir þá nemendur sem óska að láta til sín taka sem stjórnendur verkefna við menningarmiðlun með áherslu á nýsköpun og frumkvöðlastarf. Nálgunin hér er bæði hagnýt og fræðileg og lýkur náminu með 30 e lokaverkefni sem er samsett umfjöllun um hagnýtt verkefni annars vegar og fræðilegan og aðferðafræðilegan grunn hins vegar.

Aðgangskröfur: BA-próf eða sambærilegt próf með fyrstu einkunn (7,25)

  • Vefmiðlun, 60 e diplómanám í vefmiðlun, sjá nánar heimasíðu vefmiðlunar

Diplómanám í vefmiðlun er hugsað sem undirbúningur fyrir þá sem hafa áhuga á að vinna við vefmiðlun, vefstjórnun og rafræna þjónustu í fyrirtækjum og stofnunum. Í náminu er tekið á helstu þáttum sem sérfræðingar í rafrænni þjónustu í fyrirtækjum og stofnunum sinna. Náminu lýkur án lokaverkefnis en unnt er að halda áfram að námi loknu og taka þá MA nám á kjörsviði í vefmiðlun.

Aðgangskröfur: BA-próf eða sambærilegt próf með fyrstu einkunn (7,25)að jafnaði en einnig er tekið tillit til starfsreynslu.

  • HMM, 30 e diplómanám í hagnýtri menningarmiðlun

Námið þjálfar fólk í helstu miðlunarleiðum og veitir nemendum fræðilegan grunn til þess að meta einkenni og eðli miðlunar og greina hana. Náminu lýkur án lokaverkefnis en unnt er að halda áfram að námi loknu og taka þá MA nám.

Aðgangskröfur: BA-próf eða sambærilegt próf með fyrstu einkunn (7,25)) að jafnaði en einnig er tekið tillit til starfsreynslu.

Tengsl við aðrar greinar

Stúdent getur með samþykki umsjónarkennara námsleiðarinnar lokið mest 20 e úr valnámskeiðum, sem falla að markmiðum hagnýtrar menningarmiðlunar, á BA-stigi eða af MA-stigi í öðrum greinum eða í öðrum háskólum sem samningar hafa verið gerðir við. Námskeið af BA-stigi skulu metin til 6 e í stað 10 e nema þar séu gerðar auknar námskröfur til stúdenta á meistarastigi.

Umsjón með meistaranámi í Hagnýtri menningarmiðlun hefur Sumarliði R. Ísleifsson, lektor, s. 525-4418 og netfang: sumarlidi@hi.is

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

CAPTCHA
Sía fyrir ruslpóst
Image CAPTCHA
Skrifaðu stafina sem sjást á myndinni.