Skip to main content

Um MA-nám í miðaldafræðum

Miðaldafræði er þverfræðileg grein þar sem teknir eru til rannsóknar valdir þættir úr sögu, menningu, trúarbrögðum, bókmenntum, listum og heimspeki á tímabilinu 500 til 1500.

Markmið

Meginmarkmið miðaldafræða á MA-stigi er að veita stúdentum með viðeigandi bakgrunn færi á að stunda markvisst rannsóknanám á kjörsviði sínu undir handleiðslu viðurkenndra fræðimanna og jafnframt búa þeim umgjörð sem geri þeim kleift að hljóta þá þekkingu og færni sem krafist er á rannsóknarsviðinu.

Umsækjendur þurfa að hafa BA-próf með fyrstu einkunn (7,25) að lágmarki, eða jafngilda menntun, og þurfa jafnframt að sýna fram á að þeir búi yfir þekkingu og færni til að takast á við rannsóknanám sem felur í sér sjálfstæða rannsóknavinnu og ritgerðaskrif.

Nám í Miðaldafræði hentar þeim sem vilja öðlast innsýn í ólík svið miðaldafræða. Meistaraverkefni er þó unnið á afmörkuðu kjörsviði. Inntökuskilyrði: BA-próf af hugvísindasviði eða sambærilegt próf. Ef eitthvað skortir á bakgrunn nemenda er heimilt að gera ákveðnar forkröfur sem nemendur uppfylla á námstímanum.

Full námsframvinda er sem hér segir:

  1. Á fyrsta misseri er sameiginlegt námskeið með öðrum nemendum á Hugvísindasviði (10e), námskeið á kjörsviði (10e) og eitt eða tvö valnámskeið (samtals 10e). Jafnframt sækja nemendur málstofu í miðaldafræðum en eru ekki skráðir í hana formlega fyrr en á öðru misseri.
  2. Á öðru misseri er námskeið um nýjar rannsóknir (5-10e) og/eða námskeið á kjörsviði, og eitt eða tvö valnámskeið.
  3. Á þriðja misseri er rannsóknarverkefni vegna MA-ritgerðar (10e), námskeið á kjörsviði og eitt eða tvö valnámskeið.
  4. Á fjórða misseri er MA-ritgerð sem metin er til 30e.

Nauðsynleg fylgiskjöl með umsókn

a)      Ferilskrá umsækjanda. Í ferilskrá þarf að koma fram námsferill og starfsreynsla umsækjanda, þar með talið rannsóknir og ritstörf ef við á, þannig að ráða megi af þeim upplýsingum hvort umsækjandi hafi bakgrunn sem teljast má viðeigandi undirbúningur fyrir námið og áætlað rannsóknarverkefni.

b)      Greinargerð um markmið umsækjanda og væntingar til námsins. Hér þarf að gera grein fyrir ástæðum þess að sótt er um námið og hvert markmið umsækjanda er með því. Einnig þarf að fylgja stutt lýsing á hugmynd umsækjanda að fyrirhuguðu rannsóknarverkefni, þannig að ráða megi af lýsingunni á hvaða sviði miðaldafræða verkefnið er og hvaða kennari eða fræðimaður gæti haft umsjón með því. Fullt tillit er tekið til þess að áhugasvið nemenda geta breyst meðan á námi stendur.

c)      Prófskírteini. Nemendur brautskráðir úr HÍ þurfa ekki að senda inn prófskírteini. Aðrir þurfa að senda staðfest afrit prófskírteina og námsferils til skrifstofu Hugvísindasviðs.

Nánari upplýsingar

Hægt er að hafa samband við verkefnastjóra deildar og verkefnastjóra alþjóðamála til að fá nánari upplýsingar um nám og skiptinám.