Um diplómanám í vefmiðlun | Háskóli Íslands Skip to main content

Um diplómanám í vefmiðlun

Diplómanám í vefmiðlun er hugsað sem góður undirbúningur fyrir þá sem hafa áhuga á að vinna við vefmiðlun, vefstjórnun og rafræna þjónustu í fyrirtækjum og stofnunum. Í náminu er stefnt að því að taka á helstu þáttum sem sérfræðingar í rafrænni þjónustu í fyrirtækjum og stofnunum sinna. Eftirspurn eftir reynslu og þekkingu fólks af notendaupplifun, vefmiðlun og vefstjórn fer mjög vaxandi á Íslandi. Sífellt fleiri fyrirtæki og stofnanir fjárfesta meira í vefnum og þurfa starfsfólk á þessu sviði til að sinna vefmálum og annarri rafrænni þjónustu.

Fjölbreytt nám

Starf sérfræðings í rafrænni þjónustu (vefstjórans) er ekki beinlínis tæknilegs eðlis þó að hann þurfi að þekkja grundvallaratriðin í tæknimálum vefsins. Hlutverk hans er margþætt og ráðgert er að námið taki á helstu þáttum í starfi hans, þ.e.:

 • vefritstjórn
 • efnisstjórn
 • vefstefnumótun
 • stjórn vefverkefna
 • nytsemi
 • upplýsingaarkitektúr
 • notendaupplifun
 • þarfagreiningu
 • grundvallaratriðum í vefhönnun
 • aðgengismálum
 • markaðssetningu á netinu
 • samfélagsmiðlum
 • notkun myndbanda og hlaðvarps á vef
 • grunntækni vefviðmótsins
 • vefgreiningu
 • fjölbreyttum leiðum í miðlun efnis

Nám í vefmiðlun ætti að vera góður undirbúningur til að takast á við þessar áskoranir og þeir sem kunna til verka í vefmiðlun munu gegna mikilvægu hlutverki í þessari þróun ásamt öðrum sérfræðingum í vefþróun, svo sem vefhönnuðum og forriturum.

Diplómanám í vefmiðlun tekur tillit til sérstakra aðstæðna á Íslandi þar sem störf sérfræðinga í rafrænni þjónustu krefjast meiri almennrar þekkingar á mörgum sviðum fremur en sérfræðiþekkingar á einu sviði. Að loknu námi í vefmiðlun ættu nemendur að geta sótt um störf þar sem námið nýtist með beinum hætti, nemendum og atvinnulífinu til góða.

Þverfaglegt nám

Námið er eins árs (tveggja missera) hagnýtt þverfaglegt framhaldsnám í vefmiðlun innan hagnýtrar menningarmiðlunar. Námið er 60 einingar. Full námsframvinda á einu misseri miðast við 30 einingar. Allir sem lokið hafa BA-prófi með fyrstu einkunn (7,25) í hugvísindum, félagsvísindum eða skyldum greinum geta sótt um að innritast.

Aðgangur að frekara námi

Hægt er að sækja um að fá námið metið inn í meistaranám í hagnýtri menningarmiðlun. Nemandi getur einnig sótt um að fá einstök námskeið metin inn í nám á öðrum námsleiðum eftir þeim reglum um mat á fyrra námi sem gilda fyrir viðkomandi námsleiðir.

Sjá nánari lýsingu á uppbyggingu námsins í kennsluskrá.

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

CAPTCHA
Sía fyrir ruslpóst
Image CAPTCHA
Skrifaðu stafina sem sjást á myndinni.