Um BA-nám í sagnfræði | Háskóli Íslands Skip to main content

Um BA-nám í sagnfræði

Sagnfræði er fræðigreinin um mannleg samfélög og einstaklinga, um stjórnkerfi þeirra og stjórnmál, frelsi og ófrelsi, atvinnuvegi og efnahagslíf, hvers konar lifnaðarhætti og menningu í víðasta skilningi. Í sagnfræði eru samfélög könnuð eins langt aftur í tíma og heimildir leyfa og oft skoðuð í löngum tímasniðum.

Eins er leitast við að skoða samfélögin sem mest í heild og sjá samhengið á milli hinna einstöku geira þeirra, svo sem stjórnkerfis og efnahagslífs, efnahagslífs og hugmyndaheims, stjórnkerfis og hugmyndaheims. Jafnframt beinist áhugi sagnfræðinga að einstaklingum og hinu einstaka og tengslum þessa við stærri heildir og hið almenna.

Fræðigreinin snýst um að kunna að rannsaka mannleg samfélög, einkum í fortíð, og miðla þekkingu um þau til annarra. Mikilvægur hluti sagnfræði felst í að kunna að lesa mikinn fróðleik út úr litlum heimildum og beita þó varúð við að oftúlka hvorki né mistúlka. Sagnfræðingar hafa iðulega áhuga á að vita eitthvað annað um viðfangsefni sitt en heimildunum var ætlað að segja. Því reynir á rökrétta hugsun, hugkvæmni og frumleika í starfi þeirra. Við miðlun sagnfræðilegs fróðleiks reynir líka á skýrleika í hugsun og leikni í meðferð máls.

Námsleiðir
Nám til BA-prófs tekur þrjú ár og er samtals 180 einingar. Hægt að taka sagnfræði til 180 eininga, sem aðalgrein til 120 eininga (og þá með annarri grein sem aukagrein) eða sem aukagrein til 60 eininga (með annarri grein sem aðalgrein). Nánari upplýsingar í kennsluskrá Háskóla Íslands.

Markmið
Markmið námsins er að nemendur fái góða yfirsýn yfir bæði almenna sögu og Íslandssögu, og öðlist jafnframt færni til að rannsaka sjálfir mannleg samfélög með aðferðum sagnfræðinnar.

Kennsluhættir
Kennsla í sagnfræði fer fram í fyrirlestrum, samræðuformi og semínaræfingum. Tímasókn er mikilvæg en því aðeins hafa menn gagn af henni að þeir komi vel undirbúnir og frumskilyrði er að hafa lesið þá texta sem fjalla á um hverju sinni.

Nánari upplýsingar
Hægt er að hafa samband við verkefnastjóra deildar og verkefnastjóra alþjóðamála til að fá nánari upplýsingar um nám og skiptinám. Upplýsingar um námið má nálgast í kennsluskrá.

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

CAPTCHA
Sía fyrir ruslpóst
Image CAPTCHA
Skrifaðu stafina sem sjást á myndinni.