Um BA-nám í klassískum fræðum | Háskóli Íslands Skip to main content

Um BA-nám í klassískum fræðum

Klassísk fræði fást við menningarheim Forngrikkja og Rómverja. Megináhersla er lögð á sögu þeirra, bókmenntir, heimspeki og tungumál. Klassísk fræði eru þess vegna í senn sagn- og bókmenntafræði, heimspeki og málvísindi.

Nám í klassískum fræðum
Það tímabil menningarsögunnar sem fræðin fást við er langt, a.m.k. þrettán aldir, og nær frá áttundu öld f.Kr., þegar hillir undir grísku ríkin og Hómerskviður eru samdar, fram til loka Rómaveldis um 500 e.Kr. En fræðigreinin fæst ekki aðeins við fornöldina sjálfa, heldur einnig við arf klassískrar menningar, viðtökur hans og framhaldslíf, hvort heldur er í málunum sjálfum, bókmenntum eða heimspeki, á miðöldum í vestri eða austri, sem og á nýöld.

Markmið námsins er að miðla nemendum almennri þekkingu og veita skilning á rómverskri og/eða forngrískri tungu, sögu, hugmyndaheimi og menningu, sérstöðu þessa og áhrifum á evrópska sögu og menningu.

Námstilhögun
Námsleið í klassískum fræðum er þverfaglegur inngangur að grundvelli vestrænnar menningar. Undirstaðan felst í nokkrum kynnum af tungumálunum tveimur, forngrísku og latínu, sem eru eins konar lykill að þessum menningarheimi og arfi hans. Málin gera nemendum kleift að öðlast visst sjálfstæði í kynnum sínum. Önnur námskeið innan námsleiðarinnar veita almenna innsýn í helstu þætti menningarinnar en engin þeirra krefst nákvæmrar þekkingar á fornmálunum enda eru þau kennd innan ólíkra námsbrauta. Á þessum grundvelli getur nemandinn öðlast þekkingu á bakgrunni allra hugvísinda.

Námsleiðin
Klassísk fræði eru kennd til BA-gráðu sem aukagrein. BA-nám tekur að jafnaði þrjú ár. Aukagrein til 60 eininga er eins árs nám með aðalgrein (120 einingar) á öðru sviði. Náminu má ljúka á einum vetri eða dreifa á fleiri.

Námsleiðin samanstendur af námskeiðum sem kennd eru í ólíkum greinum Hugvísindasviðs, innan bókmenntafræði, heimspeki, sagnfræði og klassískra mála.

Nánari upplýsingar
Hægt er að hafa samband við verkefnastjóra deildar og verkefnastjóra alþjóðamála til að fá nánari upplýsingar um nám og skiptinám. Upplýsingar um námið má nálgast í kennsluskrá.

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Ef þú vilt fá svar frá okkur.
Settu inn skjáskot hér ef þú telur þörf á.
Skrár verða að vera minni en 2 MB.
Leyfðar skráartegundir: gif jpg jpeg png.
CAPTCHA
Sía fyrir ruslpóst
Image CAPTCHA
Skrifaðu stafina sem sjást á myndinni.