Um BA-nám í heimspeki | Háskóli Íslands Skip to main content

Um BA-nám í heimspeki

Heimspekin leitar skilnings á samhengi hlutanna í víðustu merkingu. Hún leitast við að greina hugtök og rök, túlka og skýra margvísleg álitamál, grundvallarspurningar og forsendur. Hún beitir fyrst og fremst rökræðunni til að varpa ljósi á þau vandamál sem tekist er á um. 

Meginsvið heimspekinnar eru jafnan talin fjögur – frumspeki, sem fjallar um eðli veruleikans og hlutanna í heiminum, siðfræði, sem fjallar um grundvöll siðlegrar breytni, þekkingarfræði, sem fjallar um það hvað það er að vita, og rökfræði, sem fjallar um reglur og lögmál hugsunarinnar.

Heimspekin skiptist í fjölmargar undirgreinar, svo sem heimspekisögu, stjórnmálaheimspeki, fagurfræði, trúarheimspeki, vísindaheimspeki, málspeki, hugspeki, femíníska heimspeki og svo mætti lengi telja.

Viðfangsefni heimspekinnar
 

Heimspeki skiptist niður í ýmis svið eftir viðfangsefnum.

Frumspeki fjallar um eðli veruleikans og hlutanna í heiminum. Hver er munurinn á efni og anda? Hver eru tengsl hugsunar og heims? Hvert er eðli orsakalögmálsins, tímans? Eru til hinstu rök um lífið og heiminn?

Siðfræði fjallar um grundvöll siðlegrar breytni. Er til hlutlægur mælikvarði á rétt og rangt, gott og slæmt? Hvað er góður vilji? Hvernig ber mér að haga lífi mínu?

Þekkingarfræði fjallar um það hvað það er að vita. Hvað er sannleikur? Getum við vitað nokkuð með vissu? Hver eru tengslin á milli skoðunar og þekkingar?

Rökfræði fjallar um reglur rökhugsunar. Hvernig er hægt að greina gildar röksemdafærslur frá ógildum? Hvað eru rökréttar ályktanir?

Stjórnmálaheimspeki fjallar um eðli og grundvöll ríkisins, og um réttlætingu þess. Hvað er réttlæti? Hvað er réttlát stjórnskipan? Af hverju hefur ríkið einkarétt á valdbeitingu?

Fagurfræði fjallar um eðli listar og fegurðar. Er fegurðin huglæg eða hlutlæg? Eru til hlutlægir mælikvarðar á fegurð? Hvaða hlutverki gegnir listin í samfélaginu? Hvað er listaverk?

Trúarheimspeki fjallar um tilvist Guðs og tengsl mannsins við Guð. Er hægt að sanna tilvist Guðs? Getur Guð verið algóður þegar hið illa veður uppi í heiminum?

Vísindaheimspeki fæst við frumforsendur og aðferðir náttúru-, félags- og hugvísinda. Í vísindaheimspeki er m.a. rætt um þá viðleitni félagsvísinda og mannlegra fræða að taka upp aðferðir raunvísinda. Geta vísindi verið hlutlæg og hvað merkir að eitthvað sé “vísindalega sannað”?

Lögspeki fjallar um siðagrunn laga og samfélagslegt hlutverk lagasetninga. Hvað eru lög? Af hverju ber að framfylgja lögum? Hví ber mönnum að hlýða lögum, sem koma þeim illa?

Hugspeki veltir fyrir sér veruleika vitundarinnar. Í hverju felst meðvitund? Getur hugsun falist í efnafræðilegum ferlum í heilanum?

Málspeki fjallar um mörk máls og heims. Hver eru tengsl inntaks orða og þess sem orðin eru um? Hvert er eðli boðskipta?

Félagsleg heimspeki fjallar um samband einstaklinga og stofnana samfélagsins og þær siðferðilegu spurningar sem vakna í því samhengi.

Femínísk heimspeki fjallar um það hvernig karlar hafa mótað heimspekilega hugsun um aldir og viðleitni kvenna til að endurmeta og endurmóta heimspekina í ljósi kvenlegra gilda. Femínísk heimspeki skoðar m.a. siðfræði, vísindaheimspeki og þekkingarfræði í þessu ljósi svo heimspeki geti betur endurspeglað bæði heim karla og kvenna.

Tilvistarheimspeki fjallar um innviði og sérstöðu mannlegrar tilvistar og gengur út frá því að hún verði einungis skýrð og skilin réttilega með hliðsjón af persónulegri reynslu og ákvörðunum.

 

Markmið
Markmið heimspekikennslunnar á BA-stigi er að veita nemendum góða undirstöðumenntun í heimspeki:

  • Almenna þekkingu á sögu vestrænnar heimspeki;
  • skipulega innsýn í megingreinar heimspekinnar;
  • dýpri skilning á einstökum undirgreinum, tímabilum, stefnum, höfundum eða viðfangsefnum í sögu og samtíð;
  • færni í gagnrýninni hugsun, nákvæmum lestri og að gera skýra og rökstudda grein fyrir skoðunum sínum í ræðu og riti.

Námsleiðir og samsetning BA-náms í heimspeki
Nám til BA-prófs tekur þrjú ár og er samtals 180 einingar. Hægt að taka heimspeki sem aðalgrein til 180 eininga, sem aðalgrein til 120 eininga (og þá með annarri grein sem aukagrein) eða sem aukagrein til 60 eininga (með annarri grein sem aðalgrein).

·         Heimspeki sem aðalgrein (180 einingar)
Nemendur taka almenn og söguleg inngangsnámskeið, fjögur námskeið á meginsviðum heimspekinnar, nokkur valnámskeið af sérsviðum heimspekinnar, að lágmarki tvær málstofur ásamt verkefnum, nokkur fleiri valnámskeið, málstofur eða framhaldnámskeið og skrifa B.A.-ritgerð. Sjá nánar um samsetningu BA-náms í heimspeki til 180 eininga.

·         Heimspeki sem aðalgrein (120 einingar)
Nemendur taka almenn og söguleg inngangsnámskeið, fjögur námskeið á meginsviðum heimspekinnar, nokkur valnámskeið af sérsviðum heimspekinnar og eina málstofu ásamt verkefni, auk þess að skrifa B.A.-ritgerð. Einnig taka nemendur 60 einingar í annarri grein sem aukagrein. Sjá nánar um samsetningu náms í heimspeki til 120 eininga.

·         Heimspeki sem aukagrein (60 einingar)
Nemendur taka eitt almennt og tvö söguleg inngangsnámskeið, tvö námskeið að eigin vali á meginsviðum heimspekinnar og eitt valnámskeið af sérsviðum heimspekinnar. Einnig taka nemendur 120 einingar í annarri grein sem aðalgrein. Sjá nánar um samsetningu náms í heimspeki til 60 eininga.

Gátlistar fyrir nemendur

Framhaldsnám
Eftir BA-próf má læra heimspeki, heimspekikennslu og hagnýta siðfræði til MA-prófs. Eftir MA-próf má, að vissum skilyrðum uppfylltum, leggja stund á doktorsnám (PhD). MA-nám tekur að jafnaði tvö ár, doktorsnám þrjú til fjögur ár. Sjá nánar á vefsíðu um framhaldsnám í heimspeki og hagnýtri siðfræði.

Kennsluhættir
Nemendur læra heimspeki með því að stunda námið – lesa heima, sækja fyrirlestra og taka þátt í málstofum, auk þess sem samræður, rannsóknarvinna og ritgerðasmíð eru veigamiklir þættir í náminu.

Húsnæði
Kennsla í heimspeki fer einkum fram í Aðalbyggingu, Árnagarði og Háskólatorgi.

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

CAPTCHA
Sía fyrir ruslpóst
Image CAPTCHA
Skrifaðu stafina sem sjást á myndinni.