
Reikningsskil og endurskoðun
90 einingar - M.Acc. gráða
Markmið með náminu er að auka þekkingu og færni nemenda á sviði reikningsskila og endurskoðunar.
Námið hentar því vel þeim einstaklingum sem hafa hug á því að vinna við fjármál, reikningshald, reikningsskil og/eða endurskoðun í fyrirtækjum eða stofnunum.

Um námið
Meistaranám í reikningsskilum og endurskoðun lýkur með prófgráðunni Master of Accounting and Auditing (M.Acc.). Meistaranámið í reikningsskilum og endurskoðun (bæði 90 e. og 120 e. námsbrautirnar) ásamt tilskilinni starfsreynslu, veitir rétt til þess að þreyta próf til löggildingar í endurskoðun, en það próf er í umsjón Endurskoðendaráðs. (www.endurskodendarad.is)
Forkröfur í námið eru BS próf í viðskiptafræði með tiltekinni áherslu á reikningshald, skattskil, lögfræði og fjármál. Þeir, sem hafa BS próf í viðskiptafræði án slíkrar sérhæfingar eða annað sambærilegt háskólapróf, svo sem hagfræði, geta sótt undirbúningsnámskeið á BS stigi til að uppfylla þessa forkröfu. Undirbúningsnámskeið: Fjármál I, Fjármál II, Fjármálagerningar, Lögfræði A, Inngangur að fjárhagsbókhaldi, Reikningsskil, Rekstrarbókhald, Einstaklingsskattaréttur, Ársreikningagerð A og Ársreikningagerð B.
Almenna reglan er að umsækjendur hafi fyrstu einkunn til að fá inngöngu (7,25).
Umsækjendur sem uppfylla önnur skilyrði og eiga eftir þrjú eða færri undirbúningsnámskeið geta hafið meistaranám í reikningsskilum og endurskoðun með því skilyrði að ljúka undirbúningsnámskeiðunum á fyrsta skólaári.
Óheimilt er að hefja nám á seinna ári í M.Acc. námi ef viðkomandi hefur ekki lokið undirbúningsnámskeiðum á fyrra námsári.