Skip to main content

Raskanir meðal framhaldsskólanema

Helena Halldórsdóttir, M.Ed. frá Kennaradeild

Athyglisbrestur, þunglyndis- og kvíðaraskanir eru meðal algengustu geðraskana hja skólabörnum og hafa rannsóknir sýnt að þær geti valdið mikilli vanlíðan og alvarlegum vandamálum sé ekki brugðist við þeim strax. Helena Halldórsdóttir, sem lauk M.Ed.- prófi í kennslufræði framhaldsskóla vorið 2014, nýtti sér í lokaverkefni sínu gögn frá Framhaldsskólapúlsinum til að meta tengsl milli þessara raskana og viðhorfa nemenda til kennara og skóla.

„Ég fékk áhuga á þunglyndi og kvíða í BS-náminu mínu í sálfræði og langaði að skoða áhrif þessara raskana á framhaldsskólanemendur. Ég vildi kanna hversu hátt hlutfall þeirra glímir við athyglisbrest, þunglyndi og kvíða í sínu námi þar sem þessar raskanir geta haft mjög hamlandi áhrif á daglegt líf þeirra,“ segir hún.

Helena Halldórsdóttir

„Ég fékk áhuga á þunglyndi og kvíða í BS-náminu mínu í sálfræði og langaði að skoða áhrif þessara raskana á framhaldsskólanemendur. Ég vildi kanna hversu hátt hlutfall þeirra glímir við athyglisbrest, þunglyndi og kvíða í sínu námi þar sem þessar raskanir geta haft mjög hamlandi áhrif á daglegt líf þeirra.“

Helena Halldórsdóttir

Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að nemendur með athyglisbrest eru líklegri til að finna fyrir einkennum þunglyndis og kvíða en aðrir nemendur. Þeim finnst þeir standa verr félagslega í skólanum, verða frekar fyrir einelti og hafa almennt neikvæðara viðhorf til kennara og skólans en aðrir nemendur. „Einnig getur viðhorfið verið neikvæðara ef þeir telja sig ekki mæta skilningi skólayfirvalda. Allt þetta getur aukið líkurnar á brotthvarfi úr námi,“ segir Helena.

Hún segir nauðsynlegt að kanna hversu algengar þessar raskanir séu í hópi framhaldsskólanema þar sem þær geti haft alvarlegar afleiðingar. „Skima þyrfti fyrir einkennum geðraskana meðal framhaldsskólanema með það í huga að bæta líðan þeirra, reynist vandinn til staðar. Það mætti gera með sérsniðnum námskeiðum fyrir nemendur og jafnvel kennara þar sem farið yrði yfir hvernig einkenni raskana lýsa sér og hvernig best sé að takast á við þau,“ segir Helena að lokum.

Leiðbeinendur: Anna Lind Pétursdóttir, dósent við Kennaradeild, og Elsa Eiríksdóttir, lektor við Kennaradeild.