Skip to main content

Örninn flýgur fugla hæst

Gunnar Þór Hallgrímsson, dósent við Líf- og umhverfisvísindadeild, og Hallgrímur Gunnarsson fuglaáhugamaður 

Það er sólríkur sumardagur þegar við þræðum götuna með feðgunum Gunnari Þór Hallgrímssyni og Hallgrími Gunnarssyni og spennan er mikil því yfir áfangastaðnum hvílir leynd sem er meira að segja verndaður með lögum. Við ætlum í arnarhreiður.

„Rannsóknin snýr að því að vakta íslenska haferni og kanna margvíslega þætti í líffræði þeirra. Í rannsóknum hjá svona sjaldgæfri og viðkvæmri tegund þurfa margir aðilar að koma að borðinu og vinna saman sem smurð vél,“ segir Gunnar Þór sem er dósent í dýrafræði. Hann bendir í áttina að óðali arnarins.Tveir tignarlegir hafernir hefja sig til flugs með þungum vængjaslætti.

Gunnar Þór Hallgrímsson og Hallgrímur Gunnarsson

„Rannsóknin snýr að því að vakta íslenska haferni og kanna margvíslega þætti í líffræði þeirra. Í rannsóknum hjá svona sjaldgæfri og viðkvæmri tegund þurfa margir aðilar að koma að borðinu og vinna saman sem smurð vél.“

Gunnar Þór Hallgrímsson og Hallgrímur Gunnarsson

„Þegar maður sér haferni hnita svona hringi yfir höfði manns á svona fallegum sumardegi, þá myndi ég vilja vera skáld,“ segir Gunnar Þór og brosir. „Ernir eru tignarlegastir allra fugla og því velur maður ekki hvort maður vilji rannsaka þá. Maður einfaldlega gerir það ef tækifæri gefst.“

Við færum okkur nær hreiðrinu og þar situr ungi, gríðarstór þrátt fyrir að vera einungis sex vikna gamall. Í hreiðrinu eru fjaðrir fýla og gríðarleg fuglabeinakös. „Það er yfirleitt einn ungi í hverju hreiðri,“ segir Hallgrímur, „sjaldan tveir og heyrir til algerra undantekninga ef þeir eru þrír.“ Gunnar tekur ungann með handbragði sem felur í sér andstæður, hann er í senn mjúkhentur og ákveðinn. „Við höfum beint sjónum sérstaklega að því hvort skyldleiki íslenskra arna geti hamlað frjósemi þeirra en þessi tignarlegi fugl var í bráðri útrýmingarhættu á Íslandi um miðja síðustu öld. Þá var stofninn orðinn mjög lítill og líklega eru allir núlifandi ernir afkomendur þeirra,“ segir Gunnar Þór þar sem hann krýpur við hreiðrið. Á meðan tekur faðir hans blóðsýni úr unganum en slík hefur hann tekið um langt árabil.

Frjósemi íslenskra arna er minni en í nágrannalöndunum að sögn Hallgríms. Erfitt hefur reynst að tengja það við veðurfar og mengunarálag er minna hérlendis en í sumum erlendum stofnum sem hafa hærri frjósemi. „Vegna sögu íslenska stofnsins og einangrunar hans frá öðrum haförnum lá í augum uppi að kanna hvort innbyrðis skyldleiki kæmi hér við sögu. Samkvæmt þeim gögnum sem unnið hefur verið úr eru skýr merki um að skyldleikaæxlun hafi áhrif á frjósemi íslenskra hafarna,“ segir Gunnar Þór.