Skip to main content

Opnar glugga inn í fortíðina

Steinunn Kristjánsdóttir, prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild

Segja má að Steinunn Kristjánsdóttir lifi í fortíðinni en hún tilheyrir þeim hópi fólks sem hefur einlægan áhuga á að skoða löngu liðinn hversdaginn. Allan sinn feril hefur hún rótað í jarðvegi í leit að því sem getur fært hana nær sannleikanum um fortíð okkar Íslendinga. Steinunn er prófessor í fornleifafræði.

„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á að kafa í samfélög fortíðar, “ segir hún, „svo það var aldrei nein spurning hvað ég myndi leggja fyrir mig í námi. Það var sumsé ekkert eitt sem kveikti þennan áhuga hjá mér á fortíðinni. Ég nýt þess líka að miðla niðurstöðum úr rannsóknum mínum, því ég vil ekki bara halda þeim út af fyrir mig, og þar kemur kennsla sér ekki síst vel. Mér finnst að sama skapi ótrúlega gaman að kynnast fólki sem vill feta þessa sömu braut og ég gerði og leiðbeina því inn í framtíðina.“

Steinunn segir að við rannsóknastörf hafi áhersla alltof oft verið lögð á að skoða hið opinbera og stjórnarfarslega í samfélögum fortíðar, að gögn um hversdaginn séu eins konar þjóðlegur fróðleikur sem ekki skipti máli fyrir heildarmyndina. Þetta sé þó að breytast. „Ég vil draga hversdaginn inn í rannsóknir því hann endurspeglar oft svo vel hvernig samfélagsgerðin var og er.“

Steinunn hefur verið afkastamikill vísinda- maður og fræðimaður og eftir hana liggja bækur og greinar um ólík efni fornleifafræðinnar. Hún hefur þó einkum og sér í lagi rannsakað klaustur á Íslandi. Mikla athygli vakti stór rannsókn hennar á Skriðuklaustri þar sem rýni í rústirnar leiddi í ljós að klaustrið var stærra en áður var talið og í raun spítali. Þá komu fram einkenni sjúkdóma í rannsóknum á beinum sem leiddu í ljós að Ísland var betur tengt Evrópu á síðmiðöldum en áður var talið.

Steinunn Kristjánsdóttir

Steinunn hefur verið afkastamikill vísinda- maður og fræðimaður og eftir hana liggja bækur og greinar um ólík efni fornleifafræðinnar. Hún hefur þó einkum og sér í lagi rannsakað klaustur á Íslandi.

Steinunn Kristjánsdóttir

Við uppgröft á Skriðuklaustri kom fjöldi beinagrinda úr gröfum en beinin voru rannsökuð sérstaklega. „Bein veita ótrúlega miklar upplýsingar um líf og störf fólks, beinagrind hvers og eins er eins konar gangandi saga þess. Hún geymir sögu mataræðis, lifnaðarhátta, áfalla og sjúkdóma, svo eitthvað sé nefnt. Ég hef lagt á það mikla áherslu að starfsmenn mínir beri virðingu fyrir þeim gögnum sem þeir grafa upp og á það ekki síst við beinagrindur.“

Steinunn segir að tilfinningin að grafa upp bein ráðist af eðli grafarinnar. „Ég vil reyndar helst ekki grafa upp grafir vegna þess að mér finnst ég ekki alltaf hafa rétt til að opna grafir fólks sem á sér enga málsvara lengur en þessi vinna er engu að síður mikilvægur hluti af starfi fornleifafræðinga.“

Í rústum Skriðuklausturs fann Steinunn líkneski af heilagri Barböru sem er líklega einn merkasti fundur hennar á grip úr fortíðinni. Líkneskið er gert úr leir í Hollandi á 15. öld en heilög Barbara á að vernda gegn sótthita og hita almennt. „Svo mátti sjá fingraför þess sem bjó það til á leirnum – mér þykir það mjög merkilegt, það er næstum því eins og sjá líkneskið búið til.“

Nú vinnur Steinunn að því að kortleggja klaustur á Íslandi. „Rannsókninni miðar vel en í sumar tókst okkur að heimsækja sex klausturstaði af fjórtán. Við erum því heldur á undan áætlun en hitt.“

„Samhliða rannsóknum á Skriðuklaustri 2002–2012 vann ég með hópi norrænna fræðinga að sérstakri rannsókn á garðrækt í íslensku miðaldaklaustrunum. Þá áttaði ég mig á því hversu lítið er í raun vitað um þau og túlkanir oft misvísandi. Og það var þá sem sá áhugi kviknaði hjá mér að kortleggja ytra og innra starf klaustranna og reyna um leið að setja hugmyndafræði kaþólsks klausturlífs á Íslandi á miðöldum í sögulegt samhengi í Evrópu. Ísland hefur nefnilega aldrei verið eyland í menningarlegu tilliti og það vil ég undirstrika. Við kortlagninguna verður þess freistað að staðsetja rústir klaustranna með fjarkönnunum, þ.e. jarðsjármælingum og lestri ýmiss konar loft- mynda, og töku könnunarskurða. Þá er núna unnið við að leita að gripum úr klaustrunum, skrá örnefni um þau, skoða ættartengsl þeirra sem unnu við þau og fara yfir skjöl sem geta varpað ljósi á efnahag, áherslur í starfi og rekstri þeirra.“ Mörgum þykir fornleifafræðin spennandi og í kvikmyndum er gjarnan ýjað að yfirnáttúru- legum þáttum sem tengjast þessu starfi. Steinunn lítur þó fyrst og síðast á greinina sína sem vísindi.

„Án fortíðar, menningar og sögu þrífast samfélög ekki,“ segir hún. „Slík þekking þarf samt ekki endilega að vera bundin við sögu um þjóðerni, trú eða eitthvað álíka heldur grundvallast vitund fólks um eigin bakgrunn sem er bæði félagslegur og einstaklingsbundinn.Mér finnst stundum þegar ég fylgist með störfum fólks sem sinnir grunnstörfum samfélagsins, eins og við hjúkrun, lækningar og þess háttar, að það að kafa í fortíðina og söguna sé ónytsamleg sóun á tíma og fjármunum. Þá hugsa ég einmitt til þess að ekkert samfélag getur í raun þrifist án menningar og sögu, í þessum þáttum felast viss lífsgæði.“