Skip to main content

Nútímaleg túlkun á konfúsíanisma

Geir Sigurðsson, prófessor við Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda

„Bókin er fyrst og fremst tilraun til að túlka konfúsíaníska heimspeki út frá áherslum hennar á menntun, sjálfsrækt, hefðir og sköpunargáfu,“ segir Geir Sigurðsson, heimspekingur og prófessor í kínverskum fræðum við Háskóla Íslands. Hér á Geir við nýútkomna bók eftir hann sjálfan sem ber titilinn Confucian Propriety and Ritual Learning: A Philosophical Interpretation.

„Í bókinni set ég líka fram heildstæðar hugmyndir um hugsun, gildi og lífsmáta fólks í samtímanum með hliðsjón af blöndu asískra og vestrænna pælinga. Þannig er bókin skýrandi og boðandi í senn,“ segir Geir sem telur að bókin sé aðgengileg og henti vel til að skilja hvað konfúsíanisminn snýst um.

Geir Sigurðsson

„Í bókinni set ég líka fram heildstæðar hugmyndir um hugsun, gildi og lífsmáta fólks í samtímanum með hliðsjón af blöndu asískra og vestrænna pælinga. Þannig er bókin skýrandi og boðandi í senn.“

Geir Sigurðsson

Geir hefur stýrt námslínu kínverskra fræða við háskólann frá upphafi og var fyrsti forstöðumaður Konfúsíusarstofnunarinnar hér á landi sem kennd er við norðurljós. Að sögn Geirs er konfúsíanisminn tvímælalaust áhrifamesti heimspekiskólinn í Kína frá fornu fari auk þess að vera sterkasta aflið í mótun kínverskrar og raunar einnig kóreskrar, japanskrar og víetnamskrar menningar. „Konfúsíanisminn er þannig meira en afmarkaður heimspekiskóli í vanalegum skilningi. Hann er réttnefndur siðmenningarlegur hugmyndagrunnur sem felur í sér spennandi nálgun á samband einstaklingsins við ýmsar stofnanir samfélagsins, s.s. fjölskylduna, menntastofnanir og yfirvöld. Hann leggur línurnar fyrir þá hefðbundnu en jafnframt skapandi þroskabraut sem einstaklingurinn fetar í samskiptum við þessar stofnanir í lífi sínu,“ segir Geir.

Ýmsar ástæður eru fyrir því að Geir valdi það viðfangsefni sem blasir við lesanda í bókinni. „Ein er sú að ég hef mikinn áhuga á því þroskaferli manneskjunnar sem við tengjum oftast menntun og vil gjarnan grafast fyrir um hvað í því felst. Í öðru lagi hef ég lengi verið þeirrar skoðunar að meginlykillinn að heimspeki konfúsíanismans sé einmitt menntunarhugtakið.“

Geir segist einnig hafa viljað ögra sjálfum sér með því að einblína á umdeildasta og kannski erfiðasta þátt konfúsíanismans: li 禮, sem útleggja mætti sem „hefðbundna siði“.