Skip to main content

Heimspekilegar áskoranir á farsóttartímum

Tengiliður

Eyja Margrét Brynjarsdóttir
Tölvupóstur: eyjabryn@hi.is

Hugvísindasvið

Hugvísindasvið býður upp á afar fjölbreytt nám um mannlegt samfélag, tungumál, málvísindi, trúarbrögð, listir, bókmenntir, fornleifafræði, sögu, heimspeki og fleira. Öflugt rannsóknastarf er stundað á sviðinu. 

Veggspjald rannsóknarinnar

COVID-19 verkefni HÍ

Rannsóknarteymi

Eyja Margrét Brynjarsdóttir, prófessor í heimspeki
Finnur Ulf Dellsén, dósent í heimspeki
Vilhjálmur Árnason, prófessor í heimspeki

Nemar

  • Ásthildur Gyða Garðarsdóttir
  • Hörður Brynjar Halldórsson
  • Victor Karl Magnússon
  • Vigdís Hafliðadóttir

Samstarfsaðilar

  • Siðfræðistofnun Háskóla Íslands: Siðfræðistofnun sér nemendum fyrir vinnuaðstöðu og mun birta niðurstöður á heimasíðu sinni.
  • dAton: dAton er nýsköpunar- og gagnagreiningarfyrirtæki sem sérhæfir sig í að þróa lausnir og leiðir fyrir fyrirtæki og stofnanir til að nálgast mikið magn upplýsinga sem gerir þeim kleift að taka betri ákvarðanir. Starfsmenn verkefnisins hafa aðgang að gögnum sem dAton hefur safnað saman um COVID-19 og annað tengt faraldrinum.
  • Vísindavefurinn: Starfsmenn verkefnisins skrifa svör eða stutta pistla sem birtast á Vísindavefnum. Vísindavefurinn hefur sett á laggirnar sérstaka ritnefnd sem hefur umsjón með efni tengdu COVID-19-faraldrinum undir yfirskriftinni Framlag vísindasamfélagsins — upplýst umræða um COVID-19.
  • Landlæknisembættið: Starfsmenn verkefnisins taka viðtöl við aðila hjá Landlæknisembættinu til að fá betri mynd af  ýmsum áskorunum tengdum COVID-19.
  • Kvenréttindafélag Íslands: Starfsmenn verkefnisins taka viðtöl við aðila hjá Kvenréttindafélaginu til að fá betri mynd af ýmsum áskorunum tengdum COVID-19.

Lýsing á rannsókninni

  • COVID-19 faraldurinn hefur vakið margar áleitnar grundvallarspurningar um ákvarðanir stjórnvalda, siðferðileg álitamál í heilbrigðisgeiranum, réttindi og skyldur almennings, mat á áhættu og mismunandi hagsmunum, upplýsingagjöf til almennings og traust til vísinda.
  • Þetta verkefni snýst um að skoða COVID-19-faraldurinn og viðbrögðin við honum út frá þeim undirsviðum heimspekinnar sem helst snerta á þeim álitamálum sem upp koma: hagnýtri siðfræði, stjórnmálaheimspeki, feminískri heimspeki og þekkingarfræði/ vísindaheimspeki.
  • Verkefnið felst í skrásetningu og greiningu helstu atburða og álitamála sem upp hafa komið í tengslum við faraldurinn frá heimspekilegu og siðfræðilegu sjónarhorni.
  • Hér kemur í ljós hvað það eru margir ólíkir hagsmunir í húfi og margir áhrifaþættir sem koma við sögu.
  • Í þessu samhengi er rætt um samspil einkaaðila og stjórnavalda.
  • Það er sérstaða Íslands að hafa fengið hjálp frá Íslenskri Erfðagreiningu sem er stóri leikarinn á sviðinu. Ákvörðun um að taka þátt var tímabundið dregin til baka vegna ágreinings um eftirlitshlutverk Vísindasiðanefndar með verkefninu og hvort líta ætti á það sem rannsókn. Þessi staða dregur fram hversu háð íslensk stjórnvöld eru að einhverju leyti þessu fyrirtæki en getur einnig varpað ljósi á íslenskt samfélag.
  • Fleiri dæmi eru ýmsar ákvarðanir um lokanir fyrirtækja og stofnana og þeir hagsmunir og áhættumat sem hafa þarf til hliðsjónar þar, sem og þróun umræðu um faraldurinn út frá aðgengi almennings að upplýsingum, mati á þeim og áhrifa þeirra á hegðun almennings og afstöðu.
  • Einnig hefur verið mikið kapphlaup um allan heim að safna að sér tengdum varningi, eins og öndunarvélum og grímum. Hér er mikilvægt að skoða hvernig þjóðir ættu að koma sér saman um að dreifa þessum varningi í framtíðinni.

Aðferðafræði

Í meginatriðum er tvenns konar aðferðafræði beitt í verkefninu:

  • Annars vegar er upplýsingum um heimspekileg og siðferðileg álitamál í tengslum við COVID-19 aflað með skipulegum hætti með aðstoð fjölmiðlagagnabanka. Svo vill til að nú þegar hefur gagnabanka sem einblínir á COVID-19 verið komið upp á vegum fyrirtækisins dAton. Einnig verða tekin sjö til átta viðtöl við nokkra lykilaðila sem fengist hafa við erfiða ákvarðanatöku og miðlun upplýsinga til almennings varðandi COVID-19, svo sem innan heilbrigðiskerfisins, í stjórnsýslu og úr vísindasamfélaginu. Þar má nefna landlækni, sóttvarnalækni, Kvenréttindafélag Íslands, Íslenska erfðagreiningu og stjórnmálafólk. Áður en viðtölin eiga sér stað þarf að fylgjast með fréttaflutningi til að afla upplýsinga svo hægt sé að meta hvaða spurningar eru mikilvægari en aðrar.
  • Hins vegar er greiningartækjum og kenningum heimspekinnar beitt á þau heimspekilegu og siðferðilegu álitamál sem koma í ljós. Hér er t.d. um að ræða skipulega greiningu á texta í anda gagnrýninnar hugsunar með sérstakri áherslu á röksemdir og rökfærslur og greiningu á siðfræðilegum þáttum málefnanna sem sjaldan eru dregin fram í opinberri umræðu með skipulegum hætti þótt þau séu allt umlykjandi. Einnig er stuðst við kynjaheimspekileg sjónarmið, m.a. vegna aukins álags sem faraldurinn hefur valdið hjá konum. Þá verða heimspekilegar aðferðir notaðar til að skoða sambandið milli upplýsingamiðlunar, svo sem í stöðuskýrslum Embættis landlæknis, samfélags- og fjölmiðlaumræðna, ákvarðanatöku, og stefnumótun.

Samantekt af áhrifaþáttum – Framlag til samfélags

  • Framlag til samfélags í þessu verkefni felt í að safna upplýsingum og greina fyrir framtíðina. Það er mikið til af upplýsingum og sía þarf út gagnlegar upplýsingar sem hægt er að vinna með. Verkefnið mun auðvelda heimspekingum og öðru vísindafólki að vinna með gögnin í framtíðinni.
  • Hagsmunaaðilar eru því sérstaklega kennarar í heimspeki sem geta nálgast efni til kennslu frá svörum á Vísindavefnum en einnig rannsakendur, sérstaklega í heimspeki, stjórnmálafræði og félagssálfræði og stjórnmálamenn sem vinna að stefnumótun og lagafrumvörpum.
  • Rannsakendur verkefnisins ætla að vekja athygli á spurningum sem fengu ekki nógu mikla umræðu og einfalda svör við erfiðum siðfræðilegum spurningum. Dæmi eru verklagsreglur um forgang á Landspítalanum, sem hafa ekki verið í almennri umræðu.
  • Niðurstöður geta gagnast í framtíðinni við að meta áhrif af sams konar aðstæðum á tiltekna hópa samfélagsins og gera viðeigandi ráðstafanir fyrirfram. Almennur lærdómur verkefnisins er að við þurfum að geta verið gagnrýnin um það sem á sér stað og vera opinská um það sem má gera betur og hefði mátt gera betur.

Heimildir
Bára Huld Beck. (2020, 19. júlí). Afleiðingar faraldursins afdrifaríkari í verr stöddum samfélögum. Kjarninn. Sótt frá https://kjarninn.is/frettir/2020-07-16-afleidingar-faraldursins-mismunan...
Hildur Margrét Jóhannsdóttir. (2020, 08. júní). Styrkja rannsóknir á áhrifum COVID-19. RÚV. Sótt frá https://www.ruv.is/frett/2020/06/08/styrkja-rannsoknir-a-ahrifum-covid-19
Hörður Brynjar Halldórsson. (2020, 28. ágúst). Af hverju ætti ég að virða tveggja metra regluna ef aðrir gera það ekki? Vísindavefurinn. Sótt frá http://visindavefur.is/svar.php?id=79917
Pétur Magnússon. (2020, 19. júlí). Heimspekinemar rannsaka faraldurinn. MBL. Sótt frá https://www.mbl.is/folk/frettir/2020/07/19/heimspekinemar_rannsaka_faral...
Rýna í viðbrögð við kófinu út frá sjónarhóli. (2020, 13. júlí). Háskóli Íslands. Sótt frá https://www.hi.is/frettir/ryna_i_vidbrogd_vid_kofinu_ut_fra_sjonarholi_h...
Vigdís Hafliðadóttir. (2020, 17. ágúst). Af hverju skerðir ríkið réttindi fólks vegna COVID-19? Vísindavefurinn. Sótt frá http://visindavefur.is/svar.php?id=79836

Rannsóknateymið
Heimsmarkmið 3, 5 og 10 -Lógó
Meira efni