Skip to main content

Kjörsvið: Samfélagsgreinar

Kjörsvið: Samfélagsgreinar - á vefsíðu Háskóla Íslands

Í fimm ára kennaranámi eru samfélagsgreinar samsett kjörsvið, samsvarandi samfélagsgreinum grunnskólans, en undir þær heyra einkum samfélagsfræði, saga, landafræði og þjóðfélagsfræði, trúarbragðafræði, lífsleikni, jafnréttismál og siðfræði ásamt heimspeki.

Markmið kjörsviðsins er að mennta kennara til kennslu samfélagsgreina á öllum stigum grunnskóla þó að sérstök áhersla sé lögð á miðstig og unglingastig.

Kjörsviðið telst 40 einingar á B.Ed.-stigi og 40 á M.Ed.-stigi. Á fyrsta ári B.Ed.-náms er auk þess í boði 10 eininga inngangsnámskeið í samfélagsgreinum sem er æskilegur en ekki skyldugur undirbúningur undir kjörsviðið. Þá geta nemendur kjörsviðsins notað valeiningar, bæði á BE.d.- og M.Ed.-stigi, til að dýpka þekkingu sína á einstökum greinum sviðsins, og þarf þá að sækja hentug námskeið til annarra deilda Háskólans. Jafnframt eru námskeið samfélagsgreinakjörsviðs í boði sem valnámskeið fyrir nemendur annarra kjörsviða og námsleiða.

Skipulag kjörsviðsins

Á BEd-stigi samanstendur kjörsviðið af átta 5 eininga námskeiðum, og er miðað við að þau dreifist jafnt á 3.–6. misseri.

Tvö skyldunámskeið eru kennd árlega, ætluð 4. og 6. misseri. Þar er fengist við kennslufræði samfélagsgreina ásamt vettvangsnámi, 3 vettvangseiningar í hvoru námskeiði.

Önnur námskeið eru breytileg milli ára, ýmist helguð einstökum fræðigreinum kjörsviðsins eða samþætt úr fleiri greinum. Af þeim eru jafnan þrjú í boði ár hvert, tvö ætluð 3. og 5. misseri saman, hið þriðja 4. og 6. misseri, en nemendur á 6. misseri geta í stað þess valið M-námskeið sameiginlegt með M.Ed.-nemum. Námskeið eru í mesta lagi endurtekin á tveggja ára fresti, sum sjaldnar, þannig að nemendur eiga kost á nýjum námskeiðum þótt kjörsviðsnámið dreifist á meira en tvö ár. Sex slík námskeið, sem hver nemandi tekur á B.Ed.-stigi, tryggja nokkur kynni af a.m.k. flestum þeim fræðigreinum sem kjörsviðinu tengjast.

Á M.Ed.-stigi tilheyra kjörsviðinu tvö 10 eininga skyldunámskeið, inngangsnámskeiðið samfélagsgreinamenntun á 1. misseri og námskeiðið faggreinakennsla með 8 eininga vettvangsnámi á 2. misseri, en það er sameiginlegt fyrir öll kjörsvið. Auk þess taka kjörsviðsnemar 5 eininga M-námskeið á 2. misseri, en inntak þess breytist milli ára, og kemur því ekki að sök þó sumir hafi tekið samsvarandi námskeið á 6. misseri B.Ed.-náms. Auk þess teljast til kjörsviðsins 15 einingar af lokaverkefni M.Ed.-námsins. Þó er engin skylda að tengja lokaverkefnið kjörsviði sínu, hins vegar heimilt að gera lokaverkefni sem allt er tengt kjörsviðinu eða einstökum greinum þess.

Oddviti kjörsviðs: Helgi Skúli Kjartansson helgisk@hi.is