Skip to main content

24. háskólafundur 19. október 2007

24. háskólafundur haldinn 19. október 2007 í Hátíðasal Háskóla Íslands í Aðalbyggingu
Fundartími: Kl. 13.00-16.30
Dagskrá

Kl. 13.00 - 13.05 Rektor setur fundinn, fer yfir dagskrá og tímaáætlun og gerir grein fyrir framkomnum gögnum (5 mín.).
Kl. 13.05 - 13.20 Dagskrárliður 1. Rektor reifar mál sem eru efst á baugi hjá Háskóla Íslands (15 mín.).
Kl. 13.20 - 15.00 Dagskrárliður 2.
Kl. 15.00 - 15.20 Kaffihlé (20 mín.)
Kl. 15.20 - 17.00 Dagskrárliður 2 (frh.). Stefna Háskóla Íslands 2006-2011: Endurskoðun á skipulagi og stjórnkerfi Háskóla Íslands (70 mín.).
Kl. 17.00            Rektor slítur fundi.

Kl. 13.00-13.05: Fundarsetning

Rektor setti 24. háskólafund Háskóla Íslands og bauð fundarmenn velkomna til starfa. Sérstaklega bauð rektor velkomna nýja fulltrúa á háskólafundi. Þá gerði rektor grein fyrir útsendum og framlögðum fundargögnum, dagskrá og tímaáætlun fundarins. Fundarritari var Magnús Diðrik Baldursson, skrifstofustjóri rektorsskrifstofu og gæðastjóri Háskólans.

Kl. 13.05 - 13.20 - Dagskrárliður 1: Rektor reifar mál sem eru efst á baugi hjá Háskóla Íslands

Rektor hóf mál sitt á því að greina frá því að mjög mörg stór verkefni væru í vinnslu í Háskólanum um þessar mundir. Mikill og góður árangur hefði nú þegar náðst á öllum helstu áherslusviðum skólans, en hann myndi ótrauður halda áfram sókn sinni á næstu árum. Rakti rektor stuttlega þau verkefni sem eru efst á baugi og helstu viðburði frá síðasta háskólafundi:

Framkvæmd stefnu Háskóla Íslands 2006-2011

  • Gæðanefnd háskólaráðs var skipuð um mitt ár 2006 og hefur hún þegar látið til sín taka með því að undirbúa framkvæmd nokkurra mikilvægra þátta í stefnu Háskólans og hrinda af stað ýmsum umbótaverkefnum.
  • Í byrjun maí sl. tóku gildi nýjar reglur um ráðningu akademískra starfsmanna sem fela í sér margháttaðar endurbætur frá fyrra ráðningarkerfi. Í framhaldinu verður hafist handa við endurskoðun á reglum um framgang akademískra starfsmanna.
  • Rannsóknavirkni kennara og sérfræðinga Háskólans hefur aukist umtalsvert, eins og glöggt má sjá á því að birtingum í ISI tímaritum fjölgaði um 17% á milli áranna 2005 og 2006.
  • Styrkjum vegna doktorsnáms hefur fjölgað verulega, bæði með tilkomu Háskólasjóðs Eimskipafélags Íslands og með framlagi úr Rannsóknasjóði Háskólans.
  • Háskólaráð samþykkti í maí sl. að stofnsetja við Háskóla Íslands sérstaka Miðstöð framhaldsnáms (e. Graduate School) sem mun hafa það hlutverk að efla rannsóknir og framhaldsnám og samræma gæðakröfur milli fræðasviða og deilda skólans.
  • Háskólaráð samþykkti á árinu reglur um veitingu akademískra gestastarfa og hafa flestar deildir Háskólans þegar gert samninga við slíka kennara.
  • Í stefnu Háskóla Íslands 2006-2011 er lögð rík áhersla á framúrskarandi kennslu og aðstöðu til náms. Til að ná þessu markmiði hyggst skólinn m.a. móta almenna stefnu um inntöku nemenda og skilyrði um undirbúning, auka kröfur um námsframvindu nemenda, bæta þjónustu við nemendur og grípa til aðgerða til að draga úr brottfalli nemenda. Til að vinna að þessu stefnumiði skipaði háskólaráð í sumarbyrjun nefnd um inntöku nýnema og aðgerðir gegn brottfalli úr námi.
  • Í stefnu Háskólans er m.a. kveðið á um áframhaldandi þróun formlegs gæðakerfis kennslu og setningu skýrra kennslumarkmiða fyrir deildir skólans. Unnið hefur verið að undirbúningi þessa máls um nokkra hríð á vettvangi kennslumálanefndar og gæðanefndar og er gert ráð fyrir að drög að kennslustefnu verði kynnt á háskólafundi á vormisseri 2008.
  • Á vettvangi gæðanefndar hafa verið undirbúnar reglur um aðstoðarkennarastyrki fyrir framhaldsnema og hefur háskólaráð samþykkt þær. Er þetta í samræmi við það meginstef í stefnu Háskóla Íslands 2006-2011 að efla framhaldsnám við skólann. Í því samhengi gegnir fjárhagslegur stuðningur við framhaldsnema í formi styrkja eða launaðra starfa lykilhlutverki.
  • Stefna Háskóla Íslands gerir ráð fyrir fjölgun erlendra framhaldsnema á næstu árum og er í því sambandi m.a. nauðsynlegt að huga sérstaklega að móttöku og sérstökum þörfum þeirra.
  • Háskólaráð hefur nýlega skipað nefnd til að gera tillögur um heildarskipulag háskólasvæðisins, þ.m.t. framtíðarstaðsetningu hinna nýju fræðasviða skólans.

Framkvæmd stefnu Háskólans - efst á baugi

  • Tvö mál er varða framkvæmd stefnu Háskólans eru efst á baugi um þessar mundir, þ.e. í fyrsta lagi afgreiðsla viðbótarframlags ríkisins á fjárlögum fyrir árið 2008 vegna samnings Háskóla Íslands og menntamálaráðuneytisins um fjármögnun stefnunnar og í öðru lagi yfirstandandi endurskoðun á skipulagi og stjórnkerfi Háskóla Íslands.

Sameining Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands

  • Starf verkefnisstjórnar sameiningar KHÍ og HÍ er í fullum gangi og er verið að móta tillögur um fjölmarga einstaka þætti sameiningarinnar, þ.m.t. faglega samþættingu menntavísindasviðs og annarra fræðasviða hins sameinaða háskóla.
  • Háskólarnir tveir munu halda sameiginlega námskynningu 16. febrúar nk. og fer hún væntanlega fram í nýju Háskólatorgi.
  • Ákveðið hefur verið að opna nýjan ytri og innri vef fyrir sameinaðan háskóla 1. júlí 2008.

Fjármál Háskóla Íslands

  • Hlutfall sértekna af heildartekjum Háskóla Íslands hefur farið hækkandi á síðustu árum og stefnir í að það verði um 39% á árinu 2007.
  • Háskóli Íslands hefur yfir að ráða öflugu safni styrktarsjóða og er heildareign þeirra nú um 4,3 milljarðar króna.
  • Í kjölfar samnings Háskóla Íslands og menntamálaráðuneytisins um fjármögnun stefnu skólans mun ríkisframlag aukast um 3,2 milljarða króna á næstu 5 árum. Verið er að undirbúa tillögur um skiptingu viðbótarfjársins fyrir árið 2008.
  • Þrátt fyrir þennan mikla árangur er mikilvægt að vinna áfram að fjármögnun Háskólans til framtíðar og að leita leiða til að gera rekstur hans hagkvæmari og renna fleiri stoðum undir fjármögnun skólans.

Fræðasetur Háskóla Íslands á landsbyggðinni - vaxandi starfsemi

  • Mikil gróska einkennir starfsemi fræðasetra Háskólans á landsbyggðinni og eru nú starfrækt slík setur á sjö stöðum, þ.e. í Stykkishólmi, Sandgerði, Hveragerði, Vestmannaeyjum, Höfn, Húsavík og Bolungarvík. Nýverið samþykkti ríkisstjórnin sérstakar mótvægisaðgerðir gegn niðurskurði aflaheimilda og gera þær m.a. ráð fyrir eflingu þekkingarstarfsemi á landsbyggðinni. Í tengslum við þetta er í fjáraukalögum ársins 2007 gert ráð fyrir um 50 m.kr. framlagi til fræðasetra Háskólans.

Framkvæmdir
Fjölmargar framkvæmdir standa nú yfir eða eru fyrirhugaðar í tengslum við Háskóla Íslands:

  • Verið er að endurnýja sali Háskólabíós og verður aðstaða til kennslu til fyrirmyndar þegar því verki er lokið.
  • Vinna við byggingu Háskólatorgs er á áætlun og eru aðeins 43 dagar fram að vígslu þess 1. desember nk. Efnt var til samkeppni um nöfn á húsin tvö og tengibygginguna á milli þeirra og bárust á annað þúsund tillögur. Niðurstöður voru kynntar 16. október sl. og munu húsin heita Háskólatorg og Gimli en tengibyggingin mun heita Tröð.
  • Áfram er unnið að undirbúningi Vísindagarða í Vatnsmýrinni og er stefnt að því að framkvæmdir við fyrsta áfanga hefjist þegar á næsta ári.
  • Bygging nýs háskólasjúkrahúss er einnig í undirbúningi og var efnt til kynningar á hönnunarþættinum í júní sl. Mikill fjöldi starfsfólks HÍ og LSH hefur lagt fram mikla og metnaðarfulla vinnu við þarfagreiningu hins nýja sjúkrahúss.
  • Bygging fyrir Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, svonefnt Hús íslenskra fræða, mun væntanlega rísa vestan Suðurgötu fyrir aldarafmæli Háskóla Íslands árið 2011. Gert er ráð fyrir að íslenskuskor hugvísindadeildar verði í sama húsnæði.
  • Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum áformar að byggja hús undir starfsemi sína á lóð vestan við Suðurgötu.

Nýir samningar

  • Í júní sl. staðfestu Háskóli Íslands og Harvard háskóli í Bandaríkjunum viljayfirlýsing um skipulegt samstarf í lýðheilsuvísindum.
  • Í sama mánuði undirrituðu Lagastofnun Háskólans og lögmannsstofan LEX samstarfssamning um rannsóknir í auðlinda- og umhverfisrétti.
  • Í júlí sl. var undirritað samkomulag milli Háskóla Íslands og Íslenskrar erfðagreiningar um aukið samstarf á sviði rannsókna og kennslu.
  • Í sama mánuði gerðu Háskóli Íslands og Hjartavernd með sér samning um samstarf á sviði lýðheilsuvísinda.
  • Í ágúst endurnýjuðu Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur og Háskóli Íslands samstarfssamning um vettvangsnám og rannsóknir í tómstundafræði.

Nýr styrktarsjóður

  • Nýlega var stofnaður nýr styrktarsjóður við Háskóla Íslands í hjúkrunar- og ljósmóðurfræðum.

Atburðir í júní

  • Kristján Leósson, vísindamaður við Raunvísindastofnun Háskólans, hlaut í júní sl. hvatningarverðlaun vísinda- og tækniráðs fyrir árið 2007.
  • Undirritað var samkomulag um sameiginlegt nám í sjávar- og vatnalíffræði í Háskóla Íslands og Hólaskóla - Háskólanum á Hólum.

Jafnréttismál

  • Mikill árangur hefur náðst í jafnréttismálum innan Háskólans á undanförnum árum. Í fyrsta sinn í sögu Háskólans gegnir kona embætti rektors, konur eru í meirihluta deildarforseta og háskólaráð er skipað fleiri konum en körlum. Þá hefur konum fjölgað verulega sem formönnum stjórna, nefnda og ráða er skipuð hafa verið af hálfu skólans.

Samstarf Háskóla Íslands og Bókmenntahátíðar

  • Suður-Afríski nóbelsverðlaunahafinn í bókmenntum, John Maxwell Coetzee, hélt fyrirlestur í Hátíðarsal í tengslum við Bókmenntahátíð og bar hann heitið Diary of a bad year. Metaðsókn var að fyrirlestrinum og þurfti fjöldi fólks frá að hverfa.

Kappaksturinn mikli

  • 30 vistvænustu bifreiðar landsins tóku þátt í ökutækjakeppni VOR (vettvangi orkurannsókna innan verkfræðideildar), Verkfræðistofnunar Háskóla Íslands og Orkuveitu Reykjavíkur 13. september sl.

Haustfagnaður starfsmanna

  • Rektor bauð öllu starfsfólki Háskólans ásamt mökum til haustfagnaðar í Hátíðasal í september sl.

Afmæli

  • Haldið var upp á 50 ára nám í lyfjafræði við Háskóla Íslands í september sl.
  • Um þessar mundir er því fagnað að 160 ár eru liðin frá því að Prestaskólinn tók til starfa, en hann var settur við hátíðlega athöfn þann 2. október 1847. Prestaskólinn rann inn í Háskóla Íslands þegar hann var stofnaður 17. júní 1911 og telst guðfræðideild því elsta deild skólans.
  • Sama dag var haldið upp á 30 ára afmæli háskólamenntaðra hjúkrunarfræðinga við Háskóla Íslands.

Ýmsir viðburðir

  • Hinn 27. september sl, á fæðingardegi Bríetar Bjarnhéðinsdóttur, færði Landsbanki Íslands námsbraut í kynjafræði að gjöf safn bóka og tímarita um femínisma og kvennabaráttu. Halldór J. Kristjánsson, bankastjóri Landsbankans, í Odda í dag, 27.september, afhenti gjöfina sem inniheldur um 500 bækur og tímarit sem mörg hver eru nú ófáanleg.
  • Í október sl. fékk nám í félagsráðgjöf evrópska vottun frá European Network for Quality Assurance in Study Programs in Social Professions (ENQUASP) og er Háskóli Íslands fyrsti háskóli á Norðurlöndum sem hlýtur slíka vottun.
  • Hinn 28. september sl. tók Háskóli Íslands þátt í Vísindavöku Rannís með glæsilegri dagskrá.

Að lokum þakkaði rektor þeim fjölmörgu starfsmönnum Háskóla Íslands, bæði í akademískum störfum og í stjórnsýslustörfum, sem af ósérhlífni og miklum metnaði hafa lagt sitt af mörkum til að Háskólinn nái markmiðum sínum.
 

Kl. 13.20 - 17.00 - Dagskrárliður 2: Stefna Háskóla Íslands 2006-2011: Endurskoðun á skipulagi og stjórnkerfi Háskóla Íslands

Rektor sagði yfirstandandi endurskoðun á skipulagi og stjórnkerfi Háskóla Íslands, sem kveðið er á um í stefnu skólans, vera gríðarlega umfangsmikið verkefni sem snerti alla starfsmenn skólans. Víða um lönd væru háskólar að huga að skipulagi og stjórnkerfi sínu með einum eða öðrum hætti, oftast að frumkvæði stjórnvalda. Það sem hins vegar einkenndi breytingarnar við Háskóla Íslands væri að hann hefði sjálfur haft frumkvæði að þeim en ekki stjórnvöld.

Meginmarkmið endurskoðunarinnar væri að gera Háskóla Íslands betur kleift að ná markmiðum sínum með því að styrkja í senn grunneiningar skólans og Háskólann sem heild. Þetta yrði gert með því að gera grunneiningarnar faglega öflugri, efla stoðþjónustu við kennara, efla þjónustu við nemendur, færa framkvæmdavaldið nær grasrótinni og styrkja stjórnsýsluna og gera hana faglegri og skilvirkari. Nýju skipulagi og stjórnkerfi Háskólans væri ætlað að gera Háskóla Íslands betur í stakk búinn til að fást við breytt starfsumhverfi sem einkenndist m.a. af aukinni samkeppni við innlenda og erlenda skóla um fjármagn, nemendur, kennara, verkefni og aðstöðu. Einnig stuðluðu breytingarnar að auknum tengslum Háskólans við atvinnulíf og að víðtækara samstarfi hans við alþjóðlegar vísindastofnanir og háskóla.

Við endurskoðunina hefði verið lögð áhersla á ítarlegt samráð við alla hagsmunaaðila.

  • Byrjað var á því að fara vandlega yfir ábendingar í kjölfar viðamikilla ytri úttekta á Háskóla Íslands sem gerðar voru á árunum 2004-2005. Sérstakur starfshópur vann skipulega úr niðurstöðum úttektanna og gerði tillögur til rektors um viðbrögð við þeim.
  • Veturinn 2005-2006 tók við umfangsmikil stefnumótunarvinna sem lauk með samþykkt stefnu Háskóla Íslands 2006-2011 í maí 2006.
  • Í kjölfarið skipaði háskólaráð starfshóp í september 2006 til að setja fram hugmyndir um nýtt skipulag og stjórnkerfi skólans.
  • Hugmyndir starfshópsins voru ræddar í háskólaráði, á deildarforsetafundum, á háskólafundum og sendar til umsagnar í allar starfseiningar Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands veturinn 2006-2007.
  • Einnig naut Háskólinn ráðgjafar frá erlendum háskólum, s.s. Aberdeen háskóla í Skotlandi og Minnesota háskóla í Bandaríkjunum, en þessir háskólar hafa nýverið gengið í gegnum umfangsmiklar skipulagsbreytingar.
  • Formlegar tillögur um nýtt skipulag og stjórnkerfi Háskóla Íslands voru síðan lagðar fram og ræddar á háskólafundi í mars 2007 og í framhaldi af því voru haldnir fundir með þeim aðilum sem mynda fræðasviðin fimm á vormánuðum 2007.
  • Ennfremur hélt rektor fundi með stjórnum Félags prófessora og Félags háskólakennara og fleiri hagsmunaaðilum á tímabilinu mars-maí 2007.
  • Endurskoðaðar tillögur voru lagðar fram og ræddar á háskólafundi í maí 2007 og sendar deildum og félögum kennara og stúdenta til umsagnar í júlí 2007.
  • Starfshópur háskólaráðs hélt reglulega vinnufundi meðan á öllu ferlinu stóð
  • Rektor hélt fundi í sérhverri deild skólans í september 2007 þar sem hún kynnti tillögurnar.
  • Skilafrestur fyrir umsagnir var 17. september 2007 og var fjallað um þær í háskólaráði 20. september 2007.
  • Málið var rætt í háskólaráði 11. október 2007 og endanlegar tillögur sendar fulltrúum á háskólafundi 12. október 2007.
  • Loks voru tillögurnar ræddar til niðurstöðu á háskólafundi 19. október 2007 og á háskólaráðsfundi í kjölfarið.
  • Miðað er við að nýtt skipulag og stjórnkerfi Háskóla Íslands taki gildi 1. júlí 2008.

Í starfshópnum sátu eftirfarandi einstaklingar:

  • Ólafur Þ. Harðarson, prófessor við félagsvísindadeild og varaforseti háskólaráðs, formaður
  • Inga Jóna Þórðardóttir, viðskiptafræðingur og fulltrúi þjóðlífs í háskólaráði
  • Jón Atli Benediktsson, prófessor í verkfræðideild, þróunarstjóri Háskólans og aðstoðarmaður rektors
  • Ólafur Proppé, rektor Kennaraháskóla Íslands
  • Róbert H. Haraldsson, dósent og varaforseti hugvísindadeildar
  • Rögnvaldur Ólafsson, dósent í raunvísindadeild
  • Sigurður Örn Hilmarsson, fyrrverandi formaður Stúdentaráðs
  • Þórdís Kristmundsdóttir, prófessor í lyfjafræðideild og fulltrúi heilbrigðisvísindasviðs í háskólaráði

Með starfshópnum unnu:

  • Ingjaldur Hannibalsson, prófessor við viðskipta- og hagfræðideild
  • Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísindasviðs
  • Magnús Diðrik Baldursson, skrifstofustjóri rektorsskrifstofu og gæðastjóri Háskólans
  • Steinunn Halldórsdóttir, verkefnisstjóri sameiningar Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands
  • Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs

Að framsögu sinni lokinni bauð rektor Ólafi Þ. Harðarsyni, formanni starfshópsins, að kynna endanlegar tillögur hópsins.

Kynning Ólafs bar titilinn „Skipulag og stoðþjónusta Háskóla Íslands. Lokatillaga starfshóps til háskólafundar í samráði við rektor og háskólaráð."

Ólafur hóf mál sitt á því að lýsa ánægju sinni með að nú væri komið að lokum þessa verkefnis sem staðið hefur yfir í heilt ár. Gríðarleg vinna hefði verið lögð í undirbúning málsins, enda skipti miklu máli fyrir framtíð Háskóla Íslands að vel væri að því staðið. Í ferlinu hefðu komið fram mörg ólík sjónarmið og útilokað að þau næðu öll fram að ganga. Miklu máli skipti þó að ná almennri sátt um tillögurnar. Þá benti Ólafur á að málið hefði verið á dagskrá síðustu tveggja háskólaráðsfunda og í reynd væri því um að ræða tillögur rektors og háskólaráðs.

Næst fór Ólafur stuttlega yfir forsendur tillagnanna og málsmeðferðina:

  • Stefna Háskóla Íslands - efling kennslu og rannsókna
  • Aukin samkeppni
  • Auknir fjármunir
  • Bætt stoðþjónusta
  • Aukin skilvirkni - öflugri forysta
  • Lýðræði - grenndarregla

Málsmeðferð

  • Háskólaárið 2006-2007: Víðtækt samráðsferli - fjöldi funda - fjöldi tillagna
  • Sumar 2007: Tillögur sendar til deilda
  • September 2007: Umsagnir deilda
  • Október 2007: Lokatillögur lagðar fyrir háskólafund
  • Október 2007: Afgreiðsla háskólaráðs

Meginatriði nýs skipulags

  • Fimm fræðasvið - verkaskipting og valddreifing - betri tenging við yfirstjórn - forsetanefnd
  • Öflugar deildir - faglegt sjálfstæði
  • Forsetar fræðasviða ráðnir
  • Forsetar deilda kjörnir
  • Stoðþjónusta aukin og færð nær vettvangi
  • Þverfræðilegt samstarf

Umsagnir deilda

  • Almennt jákvæðar
  • Fjöldi og stærð fræðasviða
  • Fáar athugasemdir við önnur meginatriði tillagna
  • Ýmsar athugasemdir um einstök atriði - sumar ganga hver gegn annarri
  • Margar snúast um atriði sem eftir er að útfæra betur, t.d. fyrirkomulag stoðþjónustu og innra skipulag deilda

Viðbrögð háskólaráðs (20. september 2007) við umsögnum deilda

  • Áhersla á að fræðasvið verði ekki fleiri en fimm talsins. Rektor falið að hafa samráð við forseta lagadeildar, viðskipta- og hagfræðideildar og félagsvísindadeildar.
  • Rektor og formanni starfshóps falin nokkur önnur verkefni => skýrð hér á eftir

Valdmörk yfirstjórnar, fræðasviða, deilda og námsgreina

  • Aukin verkefni fræðasviða og deilda - verkefni færð nær vettvangi: Fræðasvið og deildir fjalli um nánari útfærslu
  • Deildir fjárhagslegar einingar innan sviða
  • Stúdentar fái fulltrúa í stjórn fræðasviða
  • Fulltrúi fræðasviðs í háskólaráði hafi ekki atkvæðisrétt í stjórn sviðsins
  • Deildir útfæri innri starfsemi (departments)

Rannsóknastofnanir

  • Fræðasvið og deildir geta starfrækt rannsóknastofnanir og rannsóknastofur
  • Svið og deildir útfæri fyrirkomulag rannsóknastofnana - áhersla á samvinnu og hagkvæmni
  • Akademískir starfsmenn stofnana ráðnir á sama hátt og kennarar

Stoðþjónusta og stjórnsýsla

  • Þjónustukjarni á hverju fræðasviði - skilgreind samræmd lágmarksþjónusta
  • Verkaskipting stoðþjónustu og stjórnsýslu
  • Fræðasvið útfæra þetta nánar, geta aukið þjónustu, ákveðið verkaskiptingu fræðasviðs og deilda og stuðning við rannsóknastofnanir
  • Tenging við almennar þjónustustofnanir

Hæfniskröfur og val stjórnenda

  • Forsetar fræðasviða hafi að jafnaði prófessorshæfi - ráðnir til fimm ára í senn

Skipting fjármuna

  • Gagnsætt deililíkan
  • Sameiginleg verkefni HÍ
  • Sameiginleg verkefni fræðasviða: Stoðþjónusta, stjórnsýsla, þróunarsjóður
  • Fjárveiting til deilda - árangurstengd
  • Grunneiningar haldi sínu
  • Sértekjur deilda

Helstu hugtök og heiti

  • Fræðasvið (Colleges)
  • Deildir (Faculties)
  • Forseti fræðasviðs (Head of College)
  • Forseti deildar (Dean of Faculty)
  • Skipulagseiningar innan deilda (Departments)
  • Stjórn fræðasviða

Verk- og tímaáætlun

  • Forsetar fræðasviða ráðnir f. 1. mars 2008
  • Starfshópar um hvert fræðasvið fjalli um innra skipulag sviðs og deilda - skili tillögum fyrir 1. desember 2007
  • Ekki þarf að stokka allar deildir upp strax
  • Sérstaða menntavísindasviðs - samþætting við önnur fræðasvið

Rektor þakkaði Ólafi fyrir framsöguna og gaf orðið laust.

Málið var rætt ítarlega og komu fram margvísleg sjónarmið. Flestir fundarmenn lýstu ánægju sinni með tillögurnar og töldu þær marka mikið framfaraspor fyrir Háskóla Íslands.

Forseti raunvísindadeildar sagði að fjallað hefði verið um tillögurnar í deildinni og lýsti deildin sig reiðubúna að taka þátt í endurskipulagningunni í því skyni að Háskóli Íslands nái þeim markmiðum sem hann hefur sett sér með stefnu sinni til næstu ára. Um sameiningu raunvísindadeildar og verkfræðideildar í fræðasvið sagði forsetinn að þótt raunvísindadeild ein og sér væri nógu stór til að mynda sjálfstætt fræðasvið væri það skoðun deildarmanna að í sameiningunni fælust tækifæri sem eftirsóknarvert væri að keppast að. Miklu skipti að hið nýja skipulag myndi styrkja samkeppnisstöðu deildanna, ekki síst gagnvart erlendum háskólum. Kallaði forsetinn eftir samstarfi við önnur fræðasvið, t.d. á vettvangi hugsanlegrar lífvísindastofnunar í samstarfi við heilbrigðisvísindasvið. Þá sagði forsetinn að starfsfólk raunvísindadeildar bindi miklar vonir við þá auknu stoðþjónustu og bætta aðbúnað sem lofað hefði verið. Í ytri úttektum á raunvísindadeild og á Háskólanum í heild hefði komið skýrt fram að mikill skortur væri á margvíslegri stoðþjónustu. Þá sagði forsetinn að raunvísindadeild legði áherslu á að fræðasviðin fengju mikið sjálfstæði um sín eigin mál, þ.m.t. fjárhagslegt sjálfstæði. Best væri að fræðasviðin fengju endanlegt vald í sem flestum málum. Einnig væri mikilvægt að fjárveitingar byggðu á árangri í kennslu og rannsóknum. Um þá spurningu, hvort forsetar fræðasviða ættu að vera kosnir eða ráðnir, sagði forsetinn að hann sjálfur væri þeirrar skoðunar kosningarfyrirkomulagið væri heppilegra, en um þetta væru þó skiptar skoðanir í deildinni. Varðandi hæfiskröfur til forseta fræðasviða sagðist forseti raunvísindadeildar vilja ganga lengra en fyrirliggjandi tillögur og krefjast ótvíræðs prófessorshæfis. Loks lýsti hann þeirri skoðun sinni að skipan fræðasviða í deildir ætti að ráðast af faglegum sjónarmiðum og ekki aðeins rekstrarlegum.

Forseti læknadeildar sagði að heilbrigðisvísindasvið ætti í raun að vera heilbrigðis- og lífvísindasvið. Þá sagði hann að á fyrri stigum máls hefðu margir óskað eftir skýrari skilgreiningu á hlutverki forseta fræðasviða og forseta deilda og hefði hvort tveggja skýrst mjög í lokatillögunum. Um ráðningarkröfur til forseta fræðasviða sagði forseti læknadeildar að sumir vildu gera kröfu um doktorspróf og líklega yrði það þannig í reynd þegar fram liðu stundir. Einnig taldi hann til bóta að lokatillögurnar gerðu ráð fyrir að öll fræðasviðin hefðu sinn eigin fulltrúa í háskólaráði, því með þessu móti hefðu þau ásamt rektor meirihluta í ráðinu. Í þessu sambandi væri einnig gott að forsetar fræðasviða væru ekki kjörgengir í háskólaráð. Almennt taldi forseti læknadeildar heilbrigðisvísindadeildirnar sjá fram á vaxandi möguleika á samstarfi á vettvangi heilbrigðisvísindasviðs. Deildirnar hefðu unnið náið saman á síðustu árum og mun samstarf þeirra eflaust styrkjast enn frekar þegar þær sameinist undir hatti heilbrigðisvísindasviðs. Helsti vandinn við sameininguna væri að heilbrigðisgreinarnar væru í mjög ólíkum reikniflokkum, en vonandi væri hægt að leysa þann vanda í sameiningu þegar fræðasviðið tæki til starfa. Loks sagði forsetinn að rætt hefði verið innan heilbrigðisvísindadeildanna um næstu skref. Ljóst væri að tvær nýjar greinar væru að koma inn á sviðið, sálfræði og matvæla- og næringarfræði, og þyrftu hinar heilbrigðisvísindadeildirnar að taka höndum saman um að taka vel á móti þeim. Einnig myndi það styrkja stöðu þessara greina í samstarfi við Landspíatalann á sviði kennslu og rannsókna að koma fram undir hatti sameiginlegs heilbrigðisvísindasviðs. Þá væri það tilhlökkunarefni að heilbrigðisvísindasvið væri á leið í sameiginlega byggingu í tengslum við nýjan spítala. Loks væri sameining heilbrigðisvísindagreinanna til þess fallin að efla heilbrigðisbókasafnið sem nú væri rekið innan spítalans.

Forseti lyfjafræðideildar hrósaði starfshópnum og rektor fyrir mjög vel unnar tillögur. Stórkostlegt væri að svo fljótt myndi nást sátt í þessu stóra máli. Lykillinn að þessum árangri væri að málið hefði verið unnið í mikilli sátt við deildir Háskólans. Lagði forsetinn til að tillögurnar yrðu samþykktar í þeirri mynd sem lægi fyrir fundinum, í trausti þess að áfram verði unnið að útfærslu þeirra í sama anda. Varðandi fyrirhugaða eflingu stjórnsýslu og stoðþjónustu sagði forseti lyfjafræðideildar að hún myndi kosta mikla fjármuni. Þá væri mikilvægt að hafa hugfast að stjórnsýsla og stoðþjónusta væri ekki markmið í sjálfu sér heldur væri það hlutverk þeirra að styrkja akademískar einingar skólans. Í tengslum við eflingu stoðþjónustunnar sagði forseti læknadeildar það skipta miklu máli fyrir heilbrigðis- og raunvísindagreinar að búa vel að rannsóknastofum með verklegri þjálfun og tryggja að þar væri nægur fjöldi tækni- og aðstoðarfólks. Ytri úttektir hefðu bent sérstaklega á að þessi þáttur hefði verið vanræktur.

Forseti viðskipta- og hagfræðideildar sagði að í umsögn deildarinnar um tillögurnar hefði verið óskað eftir því að fræðasviðin yrðu sex að tölu og að viðskiptafræði, hagfræði og lögfræði mynduðu sjálfstætt svið. Rökin væru m.a. þau að þessar deildir ættu í samkeppni við aðra innlenda skóla, þær ættu mikil og sameiginleg tengsl við atvinnulíf, þær þyrftu að veita framúrskarandi þjónustu sem yrði borin saman við einkaskóla og að forseti slíks sviðs gæti orðið öflugur talsmaður þess út á við. Háskólaráð hefði hins vegar falið rektor að ræða við þessar deildir um nánara samstarf með félagsvísindadeild og hefðu þær viðræður skýrt margt varðandi fjárhagslegt, faglegt og rekstrarlegt sjálfstæði þeirra. Í ljósi þessa hefði deildarfundur viðskipta- og hagfræðideildar samþykkt að gerast aðili að félagsvísindasviði. Báðar skorir deildarinnar væru byrjaðar að undirbúa sig fyrir breytinguna og væri reiknað með því að viðskiptafræðideild og hagfræðideild verði sjálfstæðar deildir. Mikil tilhlökkun væri vegna væntanlegrar vígslu Háskólatorgs og Gimli eftir aðeins 43 daga. Þar yrði m.a. sérhannað rými fyrir stjórnsýslu og stoðþjónustu deildanna þar sem boðið yrði upp á frábæra þjónustu við kennara og nemendur. Lauk forseti viðskipta- og hagfræðideildar máli sínu á því að lýsa því yfir að deildarmenn hlakkaði til að vinna saman á nýju og öflugu félagsvísindasviði.

Forseti verkfræðideildar sagði það vera afar jákvætt að tekist hefði að mynda fimm öflug fræðasvið við Háskóla Íslands. Ljóst væri að mikil vinna lægi að baki hjá starfshópnum og að deildir hefðu sýnt dug og þor í þessari vinnu. Þær hefðu sýnt í verki að þær væru tilbúnar til að takast á við þær breytingar sem eru framundan. Verkfræðideild hefði sett fram hugmyndir um hvernig fræðasviðinu verði skipt upp í deildir og gengið væri út frá því að jafnræðis yrði gætt í þátttöku í stjórnun á milli verkfræðideildar og raunvísindadeildar. Af framlögðum tillögum væri ljóst að starfshópurinn hefði brugðist við mörgum framkomnum ábendingum og athugasemdum. Þó vildi forseti deildarinnar benda á tvö atriði sem skýra þyrfti betur við nánari útfærslu hins nýja skipulags, þ.e. annars vegar skilin á milli yfirstjórnar og stjórnar fræðasviða og hins vegar innleiðingu fræðasviðsins. Mikilvægt væri að fræðasviðin hefðu fullt sjálfræði um það, hvaða stoðþjónustu þau myndu veita og nauðsynlegt væri að þau fengju nægilegt fjármagn til að veita hana. Samhliða eflingu stoðþjónustu á vettvangi fræðasviðanna þyrfti að huga vel að því að sameiginleg stjórnsýsla verði sterk. Loks væri mikilvægt að missa ekki sjónar á kjarnahlutverki skólans og að tryggja að starfsemi hans raskist ekki í öllum breytingunum framundan. Því væri mikilvægt að viðhafa vandaða verkefnisstjórn við innleiðingu hins nýja skipulags.

Forseti hugvísindadeildar lýsti ánægju sinni yfir því hve mikil samstaða væri um að lenda tillögum starfshópsins farsællega og hvað allir væru tilbúnir í að láta hlutina ganga vel. Vitaskuld gætu ekki allir fengið öllu framgegnt í svo lýðræðislegu ferli, en greinilega hefði verið tekið tillit til margra athugasemda við fyrri tillögur. Sérstaklega væri ánægjulegt fyrir hugvísindasvið að sjá að hinar nýju tillögur gerðu ráð fyrir faglegum skipulagseiningum undir deildunum. Sagði forseti hugvísindadeildar að deildin hefði vissulega getað óskað sér meiri samlegðaráhrifa af endurskipulagningunni og að það væri óskandi að háskóaráð myndi í framhaldinu koma hlutunum þannig fyrir að það verði eftirsóknarvert fyrir fræðasviðin að vinna saman.

Forseti tannlæknadeildar þakkaði starfshópnum fyrir vel unnin störf og tók undir margt sem forsetar annarra heilbrigðisvísindadeilda sögðu. Lagði forseti tannlæknadeildar áherslu á að um væri að ræða ferli sem lyki ekki í eitt skipti fyrir öll heldur væri viðvarandi verkefni. Ljóst væri að mikil vinna væri framundan, en heilbrigðisvísindadeildirnar hefðu vitað af þessu verkefni lengi og væru í reynd löngu byrjaðar að undirbúa framkvæmd þess.

Forseti lagadeildar greindi frá því að framan af í endurskipulagningarferlinu hefði deildin verið heldur treg til að gerast aðili að stóru félagsvísindasviði. Helsta ástæðan fyrir þessu hefði verið sú að lagadeild hefði talið sér best borgið með því að mynda sjálfstætt fræðasvið með viðskipta- og hagfræðideild undir stjórn öflugs forseta sem gætti sameiginlegra hagsmuna þessara deilda. Í kjölfar háskólaráðsfundar 27. september sl. hófust skipulegar viðræður á milli deildanna þar sem m.a. var skýrt hvert hlutverk og staða lagadeildar yrði innan hins nýja fyrirkomulags. Viðræðurnar hefðu verið mjög uppbyggilegar og var það niðurstaða lagadeildar að leggjast ekki gegn kerfisbreytingunni. Málið hefði einnig verið kynnt á deildarfundi. Lagadeild liti á þetta sem tækifæri til að eflast og verða enn sterkari. Sagði forseti lagadeildar að fyrirliggjandi endurskoðaðar tillögur skýrðu margt sem áður var óskýrt, einkum hvað átt væri við með „stoðþjónustu". Fagnaði forsetinn tillögunum um aukna stoðþjónustu á vettvangi fræðasviðanna og óskaði jafnframt eftir því að fá að taka þátt í nánari útfærslu þeirra. Einnig væri það mikilvæg viðbót í lokatillögunum að gert væri ráð fyrir að deildir myndu njóta þeirra sértekna sem þær öfluðu. Að lokum lýsti forseti lagadeildar vilja og tilhlökkun til að eiga gott samstarf við hinar deildirnar á hinu nýja félagsvísindasviði.

Fulltrúi hjúkrunarfræðideildar sagðist taka undir mörg sjónarmið sem komið hefðu fram, t.d. varðandi hæfiskröfur til forseta fræðasviða og forseta deilda. Í því sambandi væri rétt að hafa í huga að krafan um prófessorshæfi væri ekki íþyngjandi vegna þess að prófessorum fjölgaði við Háskólann og því kæmi sífellt stærri hópur til greina. Um valdmörk á milli forseta fræðasviða og forseta deilda sagði fulltrúinn að e.t.v. hefði verið betra að forsetar deilda hefðu ráðningarvald yfir skrifstofufólki, ráðstöfun húsnæðis og fleiri mál eða að sviðin fengju sjálf að ráða valdmörkum deilda og sviðs. Sérstaklega gerði fulltrúi hjúkrunarfræðideildar að umtalsefni samsetningu háskólaráðs og að í fyrirliggjandi tillögum væri ekki lengur gert ráð fyrir því að félög háskólakennara ættu þar fulltrúa. Ýmis rök mæltu með því að núverandi fyrirkomulagi yrði ekki breytt: Í fyrsta lagi myndi seta fulltrúa kennarafélaganna í háskólaráði styrkja ráðið akademískt. Í öðru lagi yrði fulltrúi félaganna ekki bundinn tilteknum fræðasviðum og gæti því horft á mál út frá sameiginlegum hagsmunum Háskólans og starfsmanna hans. Í þriðja lagi yrði fulltrúinn mikilvægur tengiliður á milli háskólaráðs og félaga þeirra starfsmanna sem annast kjarnastarfsemi skólans og gæti þannig komið sjónarmiðum ráðsins á framfæri við félögin og öfugt. Þetta myndi stuðla að gagnkvæmum skilningi og stöðugleika í starfsemi skólans. Í fjórða lagi fjallaði háskólaráð oft um réttinda- og aðstöðumál akademískra starfsmanna og þá skipti máli að réttum upplýsingum væri miðlað og komið á framfæri innan skólans alls, þvert á einstök fræðasvið. Í fimmta lagi hefði með endurteknum hætti reynt á fulltrúa félaganna í stærri málum sem hefði tekist að lenda farsællega. Í sjötta lagi hefðu félögin gert úttektir á réttindamálum starfsmanna Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands sem leitt hefðu í ljós mikinn mun á sumum sviðum á stöðu kennara í skólunum. Í aðdraganda sameiningar skólanna myndi væntanlega koma til kasta fulltrúa félaganna í háskólaráði að vinna að betri samræmingu þessara mála. Loks mætti nefna að ekki væri kveðið á um það í stefnu Háskólans að kennarafélögin skyldu ekki eiga fulltrúa í háskólaráði og fyrir því væru ekki heldur færð nein sérstök rök í fyrirliggjandi tillögum um nýtt skipulag og stjórnkerfi Háskóla Íslands. Þá skipti það litlu máli hvort fulltrúar í háskólaráði verði 12 eða 11, ráðið verði alltént fámennt í samanburði við það sem gerist í ýmsum öðrum alþjóðlegum háskólum.

Að svo mæltu bar fulltrúi hjúkrunarfræðideildar upp svohljóðandi breytingartillögu:

Í kafla 1.1.1, val, samsetning, formaður, komi á undan „tveimur fulltrúum stúdenta“ orðin „fulltrúa félaga akademískra starfsmanna“. Við þetta verður fjöldi fulltrúa í háskólaráði 12 í stað 11.

Rektor benti á að fulltrúi hjúkrunarfræðideildar, sem jafnframt er fulltrúi Félags prófessora og Félags háskólakennara í háskólaráði, hefði borið þessa tillögu upp á síðasta fundi háskólaráðs og þar hefði hún verið felld. Ástæðan væri sú að samkvæmt tillögunum væri þegar búið að fjölga fulltrúum akademískra starfsmanna, þannig að ef rektor og fulltrúar stúdenta væru með taldir væru fulltrúar Háskólans í miklum meirihluta í ráðinu. Með því að fella tillöguna væri m.ö.o. ekki verið að gera lítið úr mikilvægi félaganna eða frammistöðu þeirra í háskólaráði.

Formaður starfshópsins bætti því við að breytingartillagan hefði einnig verið felld vegna þess að fulltrúi kennarafélaganna hefði staðið að henni einn. Þá minnti formaðurinn á að í stefnu Háskóla Íslands 2006-2011 væri kveðið á um að fjölgað skyldi utanaðkomandi fulltrúum í háskólaráði og það yrði ekki gert nema með því að fækka fulltrúum Háskólans hlutfallslega á móti. Nú þegar væri gert ráð fyrir fimm akademískum fulltrúum í ráðinu og með því væri hagsmunum þeirra borgið. Við þetta bættist að það væri í sjálfu sér ólýðræðislegt að stéttarfélög ættu fulltrúa í æðstu stjórn stofnunar, rétt eins og þau ættu ekki fulltrúa á Alþingi. Ekki yrði séð að slíkt fyrirkomulag væri til þess fallið að tryggja almenna hagsmuni í háskólaráði, enda væru stéttarfélög í eðli sínu sérhagsmunafélög.

Fulltrúi hugvísindadeildar tók undir það sjónarmið að félög starfsmanna ættu sæti í háskólaráði og sagði slíkt fyrirkomulag tíðkast víða um lönd. Þá gerði fulltrúinn að umtalsefni ensk heiti fræðasviða og deilda í hinu nýja skipulagi. Taldi hann óheppilegt að fræðasvið hétu á ensku „colleges" og deildir hétu „faculties". Slíkt gæti valdið missiklingi og stríddi gegn markmiðum Háskólans í alþjóðasamskiptum. Mikilvægt væri að kerfi hinna ensku heita væri gegnsætt. Tveir valkostir kæmu einkum til álita. Ef fræðasvið hétu „colleges" kallaði það á að deildir sem undireiningar þeirra yrðu nefndar „departments". Hinn valkosturinn væri að kalla stærri einingarnar „schools" og þær smærri „faculties". Hvatti fulltrúinn til þess að starfshópurinn og háskólaráð létu sérfræðinga fara yfir ensku heitin áður en gengið yrði frá málinu.

Forseti hjúkrunarfræðideildar fagnaði hinu nýja skipulagi og sagði það fela í sér spennandi tækifæri fyrir heilbrigðisvísindagreinarnar. Lagði forsetinn áherslu á að deildir hefðu sjálfstæði í fjármálum, húsnæðismálum og ráðningarmálum. Tillögurnar gerðu ráð fyrir því að fræðasviðin yrðu sterkar stjórnunareiningar, en erfitt væri að sjá fyrir hvernig þau myndu þróast. Einnig sagðist forseti deildarinnar binda miklar vonir við þá styrku stoðþjónustu sem verið væri að leggja grunninn að. Loks gerði forseti hjúkrunarfræðideildar að umtalsefni að í tillögunum væri ekki minnst á deildarskrifstofur. Miklu skipti að þær yrðu starfræktar áfram, enda væri ekki síður mörg og mikilvæg verkefni á sviði stjórnsýslu og stoðþjónustu að vinna á vettvangi deilda eins og fræðasviða. Í hjúkrunarfræðideild væri t.d. mikið klínískt nám sem krefðist öflugs utanumhalds og því væri mikilvægt að hafa skýra sýn varðandi deildarskrifstofur.

Lauk forsetinn máli sínu með því að bera upp þá breytingartillögu að liður 3.1.3, sem fjallar um stjórnsýslu deildar, verði orðaður þannig: „Deildum er heimilt að starfrækja deildarskrifstofur. Þar starfi skrifstofustjóri og annað starfsfólk eftir umfangi deildar. Setja þarf nánari reglur um skilyrði fyrir stofnun deildarskrifstofu m.a. með tilliti til umfangs deilda.“

Formaður starfshópsins brást við tillögunni og sagði að breytingartillagan fæli í sér tvennt. Í fyrsta lagi væri lagt til að starfsheitið „skrifstofustjóri“ yrði bundið í textann. Taldi hann það óeðlilega ráðstöfun, enda væri ekki kveðið á um önnur starfsheiti í stjórnsýslu og stoðþjónustu. Í öðru lagi væri víða í tillögunum fjallað á greinargóðan hátt um stjórnsýslu deilda og því væri ástæðulaust að hnykkja enn frekar á henni í kafla 3.1.3.

Forseti hjúkrunarfræðideildar svaraði því til að í textanum væri hvergi sagt að heimilt væri að stofna deildarskrifstofur og því væri breytingartillagan til komin.

Forseti guðfræðideildar þakkaði rektor og starfshópnum fyrir vandaðar og vel heppnaðar tillögur. Sagði forsetinn að það hefði tekið guðfræðideild nokkurn tíma að átta sig á þeirri breytingu sem í því fælist að verða deild innan hugvísindasviðs, en eftir því sem liðið hefði á undirbúningsvinnuna hefðu deildarmenn gert sér æ betur grein fyrir þeim tækifærum sem í tillögunum fælust. Við þetta tækifæri hygðist deildin breyta nafni sínu í guðfræði- og trúarbragðafræðideild. Lýsti forsetinn fullum stuðningi guðfræðideildar við tillögurnar.

Fulltrúi raunvísindadeildar sagði að tillögurnar hefðu verið ræddar ítarlega og um langa hríð. Þær hefðu batnað við hverja umræðu og væri niðurstaðan að verða mjög góð. Þó teldi hann það misráðið að matvæla- og næringarfræði flyttist úr raunvísindadeild til heilbrigðisvísindasviðs. Mikilvægasti einstaki hluti tillagnanna væri áform um að stórbæta stoðþjónustu. Að mati raunvísindadeildar fælist einkum þrennt í stoðþjónustu: Í fyrsta lagi stjórnsýsluþjónusta, í öðru lagi bætt viðmót skólans gagnvart nemendum og í þriðja lagi tækniþjónusta. Á heildina litið væri þó mikilvægustu spurningunni ósvarað, þ.e. hvernig farið yrði að því að búa til innra skipulag fyrir fræðasviðin. Í þessu fælist stórt tækifæri, sem væri að fækka undireiningum deilda eða skorum og búa til stærri einingar.

Að endingu bar fulltrúinn upp þrjár breytingartillögur: (1.) Í stað nafngiftarinnar „fræðasvið“ (e. college) komi „deild“ (e. faculty) og í staðinn fyrir „deild“ (e. faculty) komi „skóli“ (e. school). Forstöðumenn á báðum stigum hafi starfsheitið „forseti“ (deildarforseti, e. dean, skólaforseti, e. head of school). (2.) Í lið 1.1.1, val og samsetning háskólaráðs, komi í stað orðanna „þremur utanaðkomandi fulltrúum sem valdir eru af fráfarandi háskólaráði“ orðin „tveimur utanaðkomandi fulltrúum sem valdir eru af háskólaráði“. (3.) Í lið 2.1.1, val forseta fræðasviða (eða deilda ef 1. tillaga verður samþykkt), komi í stað ákvæðis um að rektor ráði forseta fræðasviða að fenginni umsögn valnefndar fræðasviðs: „Tillaga valnefndar um val forseta fræðasviðs (deildarforseta) skal lögð fyrir þá sem sæti eiga á þingi fræðasviðs (deildar) til samþykktar eða synjunar.“

Formaður starfshópsins lagði til að fulltrúi raunvísindadeildar drægi tillögur sínar til baka, enda fælu þær í sér verulegar breytingar sem kæmu svo seint fram að erfitt væri að samþykkja þær án þess að hafa haft ráðrúm til að gaumgæfa þær.

Fulltrúi hugvísindasviðs sagði að með tillögunum um nýtt skipulag og stjórnkerfi Háskóla Íslands væri verið að stíga afar merkilegt skref í sögu skólans. Fyrir fundinum lægi í raun sögulegt plagg. Benti fulltrúinn á að vel færi á því að skýra betur forsendur í inngangskafla textans og væri tilvalið að nota til þess þætti úr kynningum formannsins og rektors á fundinum. Sérstaklega mætti geta þess að frumkvæðið að breytingunum kæmi frá Háskólanum sjálfum en ekki frá stjórnvöldum.

Landsbókavörður óskaði fulltrúum á fundinum til hamingju með glæsilegt og vel unnið plagg sem vel hefði tekist í alla staði. Tók hún undir með fulltrúa hugvísindadeildar og sagði að réttnefni plaggsins væri „endurreisn Háskóla Íslands". Þá greindi landsbókavörður frá starfi verkefnishóps í tengslum við undirbúning sameiningar Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands sem hún hefði tekið þátt í. Hópurinn hefði rætt ítarlega um hvernig efla megi þjónustu á sviði upplýsingatækni og skoðuð hefðu verið gögn frá erlendum háskólum. Hópurinn hefði ekki komist að sameiginlegri niðurstöðu sem gæti gilt fyrir öll fræðasviðin, en meðlimir hans hefðu þó verið sammála um að gera þyrfti þarfagreiningu með aðkomu helstu hagsmunaaðila í því skyni að skilgreina helstu þjónustuþarfir. Einnig taldi hópurinn að stefna ætti að rafrænum háskóla á sem flestum sviðum í stað þess að leggja áherslu á aukið húsnæði og fjölgun starfsfólks. Þá taldi hópurinn að nauðsynlegt væri að fá mat eða úttekt á núverandi stoðþjónustu sem framkvæmd yrði af utanaðkomandi aðilum. Á grundvelli úttektarinnar yrði síðan mótuð þjónustustefna. Almennt taldi hópurinn að greina ætti á milli þrenns konar þjónustu, þeirri sem allir fengju, þjónustu sem stæði öllum til boða en hver og einn réði hvort hann vildi nýta og loks þjónustu sem hver ákvæði fyrir sig. Loks hefði hópurinn sett fram tillögu um fyrirkomulag stoðþjónustunnar í skipuriti Háskólans, en hingað til hefur nokkuð skort á að þeir aðilar sem veita stoðþjónustu hafi nægileg tengsl inn í stjórnsýsluna og inn í fræðasviðin. Loks væri ljóst að stóraukin og bætt stoðþjónusta kallaði á stóraukin fjárframlög.

Þróunarstjóri Háskólans og aðstoðarmaður rektors þakkaði fundarmönnum fyrir góðar umræður. Sérstaklega þakkaði hann formanni starfshópsins fyrir frábæra frammistöðu við undirbúning tillagnanna. Málið hefði verið rætt ítarlega og nú væri komið að því að ljúka þessum mikilvæga áfanga. Lagði þróunarstjóri til að tillögur þær sem lægju fyrir fundinum yrðu samþykktar óbreyttar en hugtök og heiti yrðu skoðuð sérstaklega í framhaldinu. Þá gat hann þess að rektor hefði skipað sérstakan starfshóp sem hefði það hlutverk að gera tillögur um skiptingu þess viðbótarfjár sem Háskólinn fær til að fjármagna stefnu sína. Í þessari vinnu væri gert ráð fyrir að varið verði tugum milljóna króna til aukinnar stoðþjónustu á næstu árum.

Fulltrúi Félags háskólakennara lýsti stuðningi við breytingartillögu fulltrúa hjúkrunarfræðideildar um að kennarafélögin ættu áfram að eiga fulltrúa í háskólaráði, enda hefði þetta sjónarmið einnig komið fram í umsögn Félags háskólakennara. Sagði hann það ekki vera sterk mótrök, sem stundum hefði verið haldið fram, að Háskólinn ætti að hafa frumkvæði að því að leggja til fjölgun utanaðkomandi fulltrúa í háskólaráði og brottfall fulltrúa kennarafélagana því hvort eð er mætti búast við því að kveðið yrði á um þetta í nýjum lögum um opinbera háskóla sem unnið væri að á vettvangi menntamálaráðuneytisins. Slíkt væri óþörf innri ritskoðun. Þá sagði fulltrúinn þá tillögu að forsetar fræðasviða yrðu ráðnir en ekki kosnir fela í sér mikla breytingu í allri hugsun varðandi ráðningarmál. Loks tók hann undir það sjónarmið að fjölskipaður háskólafundur væri ekki rétti vettvangurinn til að taka ákvörðun um endanleg íslensk og ensk heiti heldur væri skynsamlegra að yfirvega þau í kjölfar fundarins.

Fulltrúi hjúkrunarfræðideildar þakkaði fyrir umræðuna og sagði það skipta miklu máli fyrir samstöðu og upplýsingarmiðlun í Háskólanum að efna til hennar. Sagðist hann vonast til þess að tillögurnar um nýtt skipulag og stjórnkerfi gætu orðið góð umgjörð um meginstarfsemi Háskólans, rannsóknir og kennslu. Jafnframt ítrekaði fulltrúinn þá skoðun sína að heppilegra hefði verið að hafa tillögurnar almennari og gefa þannig meira svigrúm til þess að deildir og fræðasvið gætu skipt með sér verkum.

Fulltrúi þjóðlífs í háskólaráði brýndi fyrir fulltrúum á háskólafundi að tillagan sem lægi fyrir fundinum væri sáttartillaga að loknu löngu og ítarlegu samráðsferli. Sú sátt sem ríkti á fundinum sýndi að þetta ferli hefði verið gott og farsælt. Sagðist fulltrúinn ekki vera jafn ánægður með alla þætti tillagnanna, en það lægi í eðli lýðræðisins að enginn gæti fengið allar óskir uppfylltar og allir þyrftu að gefa eitthvað eftir. Þetta gilti t.d. um heiti grunneininganna. Sagðist fulltrúinn ætíð hafa verið þeirrar skoðunar að best færi á því að grunneiningarnar fimm hétu skólar og að undireiningar þeirra hétu deildir. Hins vegar hefði náðst samkomulag um heitið fræðasvið og það bæri að virða. Tók fulltrúi þjóðlífs undir með fulltrúa hugvísindadeildar um að geta ætti þess í inngangi að frumkvæðið að breytingunum hefði komið frá Háskólanum sjálfum en ekki utanfrá. Að öðru leyti lagði fulltrúinn til að tillögurnar yrðu samþykktar óbreyttar en ekki yrði hvikað frá þeim á lokasprettinum. Flestar breytingartillögur sem fram hefðu komið á fundinum hefðu verið ræddar á fyrri stigum máls án þess að um þær hefði náðst samstaða. Til dæmis hefði mikið verið rætt um það hvort forsetar fræðasviða ættu að vera ráðnir eða kjörnir. Með tillögunum væri verið að reyna að búa til sterkara stjórnkerfi og nú væri tækifæri til að prófa annað fyrirkomulag en verið hefði, í því skyni að það gæfi Háskólanum sterkari stjórnendur sem væru í stakk búnir að axla ríka ábyrgð í fjármálum. Sagði fulltrúinn að nokkurra ára seta í háskólaráði hefði sýnt sér að deildir skólans væru ekki allar jafn sterkar í stjórnun fjármála. Því ætti nú að taka þetta skref og sjá hvort það skilaði okkur sterkari háskóla. Að lokum lýsti fulltrúinn þeirri skoðun sinni að allir þeir sem ættu sæti í háskólaráði ættu að hafa heildarhagsmuni Háskólans að leiðarljósi og því væri ekki ástæða til að hafa þar sérstakan fulltrúa hagsmunafélaga starfsmanna. Tillögurnar gerðu ráð fyrir að fulltrúar Háskólans væru í meirihluta í ráðinu og það væri nóg.

Áður en gengið var til atkvæðagreiðslu gerði sviðsstjóri vísindasviðs grein fyrir því hvaða fulltrúar hefðu atkvæðisrétt, en þeir voru samtals 58 að tölu.

Fyrst bar rektor breytingartillögu fulltrúa hjúkrunarfræðideildar undir atkvæði. Áður en atkvæðagreiðsla fór fram greindi rektor frá því að hún myndi sitja hjá. Það hefði hún einnig gert þegar fulltrúinn hefði borið tillögu sína upp í háskólaráði því hún teldi ekki við hæfi að formaður háskólaráðs tæki afstöðu til samsetningar þess.

- Breytingartillagan felld með 20 atkvæðum á móti 9.

Næst bar rektor breytingartillögu forseta hjúkrunarfræðideildar undir atkvæði.

- Breytingartillagan felld með 21 atkvæðum á móti 2.

Fulltrúi raunvísindadeildar kvaddi sér hljóðs og sagði að hann teldi miklu máli skipta að tillögurnar næðu fram að ganga. Ljóst væri að ólíkar hugmyndir væru á lofti varðandi hugtök og heiti og því drægi hann fyrstu breytingartillögu sína til baka. Í ljósi umræðunnar á fundinum sagðist hann einnig draga aðra breytingartillögu sína til baka, en óskaði eftir því að rektor bæri þriðju og síðustu breytingartillögu sína undir atkvæði.

- Breytingartillagan felld með 19 atkvæðum á móti 10.

Að lokum bar rektor lokatillögur starfshóps háskólaráðs um endurskoðun á skipulagi og stjórnkerfi Háskóla Íslands í heild undir atkvæði.

- Tillögurnar samþykktar samhljóða með 40 atkvæðum.

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors og Ólafs Þ. Harðarsonar, þau Anna Agnarsdóttir, Björg Thorarensen, Ebba Þóra Hvannberg, Elín Soffía Ólafsdóttir, Gísli Sigurðsson, Halldór Jónsson, Hörður Filippusson, Inga B. Árnadóttir, Inga Jóna Þórðardóttir, Ingibjörg S. Sverrisdóttir, Ingjaldur Hannibalsson, Jón Atli Benediktsson, Lárus Thorlacius, Oddný G. Sverrisdóttir, Pétur Pétursson, Rúnar Vilhjálmsson, Sóley S. Bender, Stefán B. Sigurðsson og Torfi Tulinius.

Rektor þakkaði fulltrúum á háskólafundi fyrir góðan fund og bauð þeim að þiggja hressingu fyrir framan Hátíðasal.

Fleira var ekki gert. Fundi slitið kl. 17.00.

Listi yfir gögn sem lögð voru fram á 24. háskólafundi 19. október 2007:

1. Dagskrá og tímaáætlun 24. háskólafundar 19. október 2007.
2. Listi yfir fulltrúa á háskólafundi.
3. Fundargerð 23. háskólafundar 16. maí 2007.
4. Tillögur starfshóps háskólaráðs um endurskoðun á skipulagi og stjórnkerfi Háskóla Íslands.