Skip to main content

Um námið í kennslufræði verk- og starfsmenntunar

Markmið námsins er þríþætt: Í fyrsta lagi að þeir sem stunda námið geti að loknum 60 einingum af því sótt um að verða framhaldsskólakennarar í grein sinni eða grunnskólakennarar ef greinin er kennd í grunnskólum. Í öðru lagi er með bakkalárnáminu tryggt að kennarar í verk- og starfsgreinum geta sótt um meistaranám og þannig aukið starfshæfni sína í skólakerfinu, svo sem í stjórnunarstörfum og störfum innan símenntunar og starfsþróunar greinarinnar. Í þriðja lagi er iðnmeisturum með þessu námi gefið tækifæri til að afla sér gráðu sem veitir þeim almennt samkeppnishæfi í samfélaginu.

Námið skiptist á eftirfarandi hátt:

  • Grunnur að kennslufræði verk- og starfsmenntunar:  45e
  • Inngangsnámskeið og aðferðafræði: 20e
  • Málstofur í kennslufræði verk- og starfsmenntunar: 15e
  • Sérhæft lokaverkefni: 10e
  • Valnámskeið, einkum úr grunnskólakennarafræði, uppeldis- og menntunarfræði, tómstundafræði eða þroskaþjálfunarfræði:  30e

Aukagrein

Nemandi þarf að velja sér 60 eininga aukagrein til að ljúka bakkalárnáminu. Aukagreinina er í flestum tilvikum best að taka samhliða öðru og þriðja ári. Aukagrein er hægt að taka innan Menntavísindasviðs eða utan. Dæmi um aukagreinar innan Menntavísindasviðs eru grunnskólakennarafræði, leikskólakennarafræði, uppeldis- og menntunarfræði eða tómstunda- og félagsmálafræði.

Fyrirkomulag kennslu

Námið er skipulagt sem staðnám og fjarnám með skilgreindri mætingaskyldu. Þau námskeið sem eru skipulögð sérstaklega fyrir þennan námshóp eru kennd í staðbundnum lotum og þar fyrir utan er námið stundað með aðstoð netsins. Einnig er boðið upp á reglulegar kennslustundir síðdegis fyrir þá sem þess óska. Námið fer fram að verulegu leyti með stuðningi tölvutækninnar og vefkennslukerfa og er því nauðsynlegt að nemendur hafi sjálfir aflað sér ákveðinnar undirstöðufærni í tölvunotkun eða afli sér hennar þegar í upphafi námsins. Hluti námsins er þannig skipulagður að nemendur mæta reglulega í tilgreindan framhaldsskóla, svokallaðan heimaskóla, bæði til að vinna námsverkefni og til æfingakennslu.

Tengt efni