Skip to main content

Reglur um skil á meistaraverkefni í formi vísindagreinar

Þessar reglur eru í samræmi við 4. mgr. 14. gr. reglna um meistaranám við Menntavísindasvið Háskóla Íslands nr. 501/2011.

Nemendum í MS-, MA- og M.Ed.-námi við Menntavísindasvið er heimilt að skila meistaraverkefni (30–60 ECTS) sem handriti að vísindagrein ásamt kápu (greinargerð) að fengnu samþykki deildar. Jafnframt skulu leiðbeinandi og sérfræðingur eða meðleiðbeinandi hafa samþykkt tilhögunina enda liggi rannsóknaráætlun fyrir. Að síðustu metur prófdómari verkefnið og sker úr um hvort handritið sé tækt til að senda til ritrýningar í vísindatímarit.

Meistaraverkefnið skal byggjast á rannsókn höfundar (rannsóknarskýrsla eða rannsóknarritgerð). Aðrar tegundir meistaraverkefna, svo sem þróunarverkefni, matsverkefni eða námskrárgerð (sjá nánar reglur um meistaraverkefni) geta einnig verið efni í vísindagrein að uppfylltum fræðilegum kröfum.

Umfang kápunnar (greinargerðarinnar) fer eftir einingafjölda meistaraverkefnisins, sjá nánar um umfang lokaverkefna í reglum um meistaraverkefni. Í kápu (greinargerð) skal gera ítarlega grein fyrir eftirfarandi: fræðilegum bakgrunni rannsóknarefnisins, markmiðum, aðferðafræði og álitamálum þar um. Auk þess gefst tækifæri til að túlka niðurstöður og ræða í lengra máli en mögulegt er í stuttri vísindagrein.

Leiðbeinandi verði meðhöfundur að vísindagreininni þegar hún birtist í tímariti enda liggi fyrir skýr greinargerð um framlag hvors um sig, meistaranema og leiðbeinanda. Samningur á milli hlutaðeigandi um meðferð rannsóknargagna skal einnig liggja fyrir í samræmi við vísindasiðareglur Háskóla Íslands. 

Í þeim tilfellum þar sem meistaranemar og leiðbeinendur vinna saman að rannsókn verði hugað að eftirfarandi þáttum:

  • Ferlið – framkvæmd rannsóknar, stjórn og skipulag, hverjir eru þátttakendur og hvert er hlutverk hvers og eins
  • Kynning og upplýsingamiðlun um verkefnið
  • Fjármögnun
  • Birtingar, höfundarréttur og meðhöfundar
  • Varðveisla gagna og eignaréttur
  • Lok verkefnis

Samþykkt á fundi stjórnar Menntavísindasviðs 2. september 2015