Skip to main content

Um BS nám í sálfræði

BS-gráða í sálfræði veitir traustan grunn í helstu undirgreinum sálfræðinnar og opnar leiðir að fjölbreyttu framhaldsnámi hér á landi og erlendis. BS-námið er 3 ára fræðilegt og verklegt 180 eininga grunnnám. 

Í BS-náminu er lögð áhersla á aðferðir vísindanna og gagnrýna hugsun. Við kynnumst undirgreinum fagsins eins og þroskasálfræði, félagslegri sálfræði, persónuleikasálfræði, skyn- og hugfræði, klínískri sálfræði, atferlisgreiningu og lífeðlislegri sálfræði. 

BS-nám í sálfræði er 3 ára fræðilegt og verklegt 180e grunnnám. 

Skilningur á rannsóknum og kenningum í sálfræði er efldur sérstaklega í námskeiðum um aðferðafræði rannsókna, tölfræði, mælinga- og próffræði og í námskeiðum um sögu og eðli sálfræðinnar.

Í valnámskeiðum er gjarnan fjallað um hagnýtar undirgreinar á borð við íþróttasálfræði, klíníska barnasálfræði, heilsusálfræði, umhverfissálfræði og öldrunarsálfræði. Einnig geta nemendur í sálfræði tekið valnámskeið í öðrum deildum háskólans.

Í öllum námskeiðum leysa nemendur úr verkefnum sem reyna á færni við rannsóknir og fræðimennsku. Nemendum í BS-námi gefst líka kostur á að gerast aðstoðarmenn í rannsóknum kennara og búa sig þannig undir framtíðarstörf.

Ekki er skylt að gera BS-ritgerð í Sálfræðideild. Nemendum sem vilja sleppa við lokaverkefni er heimilt að taka valnámskeið þess í stað.

Þeir sem hyggjast starfa sem sálfræðingar þurfa að ljúka framhaldsnámi í Klínískri sálfræði að loknu BS-náminu. BS-gráða í sálfræði veitir ekki starfsréttindi sálfræðings en opnar margar dyr til áframhaldandi náms og fjölbreyttra starfa.

Skoðaðu möguleika að námi loknu hér.

Skipting BS-náms í sálfræði

  • Almennar kenningar og forsendur (30e)
  • Tölfræði og aðferðafræði (25e)
  • Sérhæfð skyldunámskeið með verkefnavinnu (90e)
  • Valnámskeið, sérhæfð eða almenn (25e) og BS-ritgerð (10 e) eða valnámskeið (35e).
““