Skip to main content

Um námið í kynfræði

Um námið í kynfræði - á vefsíðu Háskóla Íslands

Nám í kynfræði byggir á þeirri grundvallarforsendu að mikilvægt sé að vinna að kynheilbrigði í öllum nútíma samfélögum. Á þetta hefur skort í íslensku samfélagi og er markmið náms í kynfræði að bæta þar úr og efla þekkingu og skilning á manneskjunni sem kynveru í  heildrænum skilningi, þ.e. líkamlega, andlega og félagslega.

Í náminu er fjallað um manneskjuna sem kynveru allt lífið og þau viðfangsefni sem hún er að glíma við á hverju æviskeiði. Miðlað er þekkingu um samfélagsleg áhrif á kynheilbrigði fólks og rétt þess til kynheilbrigðis, hvaða þættir hafa áhrif á þróun kynferðislegra sambanda en jafnframt hvernig einstaklingurinn er undir það búinn að lifa kynlífi.

Fjallað er um hvað hamlar og hvað eflir kynheilbrigði. Í því samhengi eru skoðaðar ólíkar aðstæður og hvernig t.d. sjúkdómar og fötlun  geta haft áhrif á kynheilbrigði fólks. Þá er athygli beint að forvörnum og heilsueflingu ungs fólks á þessu sviði.

Skipulag námsins 

Námið er þverfræðilegt diplómanám á meistarastigi  í samstarfi tveggja deilda Háskóla Íslands, Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar og Hjúkrunarfræðideildar.

Hvert námskeið er sjálfstætt en öll saman geta þau myndað séráherslu í meistaranámi, samkvæmt reglum hverrar deildar. Hvert námskeið er til 10 ECTS eininga. Eitt námskeið á hverri önn og nær námið í heild sinni yfir þrjár annir. Hægt er að taka öll námskeiðin sem heild en einnig stök námskeið. 

Að jafnaði er kennt á íslensku en á ensku þegar um erlenda gestakennara er að ræða.

Markmið 

Meginmarkmið náms í kynfræði eru að nemendur:

  • Öðlist fræðilega þekkingu á hugtökum, hugmyndafræði, kenningum, viðfangsefnum og aðferðum kynfræða.
  • Kynnist nýjustu rannsóknum um kynheilbrigðismál.
  • Geti nýtt fræðilega þekkingu sína og skilning á kynfræði ásamt tjáskiptafærni í faglegri nálgun í starfi.
  • Búi yfir þekkingu og færni til að fræða skjólstæðinga og aðra um kynlíf.
  • Hafi víðtæka vitneskju um vandamál og viðfangsefni, fræðileg sem hagnýt, byggð á nýjustu rannsóknum í kynfræði.
  • Geri sér grein fyrir eigin gildismati og viðhorfum til kynferðismála.
  • Geti áttað sig á nýjungum og þróun á sviði kynfræða sem byggist á vísindalegum grunni.

Fyrir hverja?

Námið er ætlað fagfólki innan heilbrigðis-, uppeldis-og félagsvísinda, s.s. félagsfræðingum, félagsráðgjöfum, guðfræðingum, hjúkrunarfræðingum, kennurum, kynjafræðingum, læknum, mannfræðingum, sálfræðingum og lögfræðingum.

Tengt efni