Að hefja nám á skrítnum tímum Dagleg rútína Nú þegar nýtt skólaár er hafið og ljóst er að kennsla mun að mestu leyti fara fram í gegnum fjarbúnað þá er mikilvægt er að huga að daglegri rútínu, og vellíðan. Gott er að skipuleggja daginn, borða og fara að sofa á svipuðum tíma og hreyfa sig. Ef þú sinnir daglegri rútínu vel mun það líklega hafa jákvæð áhrif á hugsanir þínar, einbeitingu og líðan. Vinnutími Við mælum með þú mætir í þá tíma sem boðið er upp á í staðkennslu en einnig þess fyrir utan skilgreina ákveðinn tíma dags þar sem þú sinnir lærdómi. Að setja markmið fyrir daginn og útbúa verkefnalista virkar vel fyrir marga. Að auki er æskilegt að hafa skýr skil á milli náms og frítíma. Þannig aukast líkurnar á að þú njótir frítímans enn betur og náir árangri í náminu. Vellíðan Veltu fyrir þér hvað lætur þér líða betur og dregur úr streitu. Við mælum sérstaklega með að passa upp á reglulega hreyfingu, útiveru og gefa sér tíma til að sinna áhugamálum, hitta vini og fjölskyldu. Jafnframt nýta margir sér núvitundar- og slökunaræfingar til að draga úr streitu. Þrátt fyrir mikið annríki í námi er mikilvægt að halda áfram að gera það sem veitir þér gleði. Vertu í sambandi við aðra Við erum núna öll að ganga í gegnum óvenjulega, síbreytilega tíma sem getur verið áskorun og haft áhrif á líðan. Þar sem námið er núna að mestu leyti í fjarkennslu, er mikilvægt að huga að félagslegum tengslum og jafnvel mynda minni námshópa (study-groups) til stuðnings við nám. Örstutt um námshópa Útgangspunkturinn í námshópum er að vinna saman og læra hvert af öðru. Í námshópi færðu nýtt sjónarhorn á viðfangsefnið, dýpri og betri skilning á efninu, endurgjöf á hugsanir þínar um námsefnið og lausnir á verkefnum, tækifæri til að kenna/leiðbeina öðrum og þjálfun í að vinna með öðrum. Aðrir kostir við námshópa eru að þeir veita nemendum aðhald í námi, auka ábyrgðartilfinningu nemenda, þeir þora frekar að tjá sig og geta lært nýja námstækni. Þegar þú ert búin/n að skuldbinda þig til þess að taka þátt í starfi með öðrum, þar sem allir njóta góðs af samvinnu, þá vilt þú leggja þitt af mörkum. Aðrir treysta á framlag þitt eins og þú treystir á þeirra. Gagnkvæmur stuðningur, skilningur og hvatning eru lykilatriði í góðum námshópum. Nánari upplýsingar um námshópa er að finna hér. Ráðleggingar fyrir háskólanema vegna COVID-19 Umfjöllun um COVID-19 hefur líklega ekki farið fram hjá neinum. Þegar svona umræða er í þjóðfélaginu er skiljanlegt að margir finni fyrir auknum kvíða, depurð eða öðrum erfiðum tilfinningum. Einnig hefur samkomubannið töluverð áhrif á líf flestra. Sálfræðingar við Náms- og starfsráðgjöf HÍ hafa tekið saman nokkur atriði sem geta verið hjálpleg til að takast á við þessar aðstæður: Dagleg rútína Nú þegar kennsla fer að mestu leyti fram í gegnum fjarbúnað eru margir frekar einangraðir heima hjá sér. Þá er mikilvægt er að huga að sinni andlegu líðan til að koma í veg fyrir depurð eða kvíða. Gott er að skipuleggja daglega rútínu, þ.e. borða reglulega, fara í háttinn og vakna á svipuðum tíma og hreyfa sig. Ef þú sinnir daglegri rútínu vel mun það líklega hafa jákvæð áhrif á hugsanir þínar, einbeitingu og líðan. Vinnutími Við mælum með að skilgreina ákveðinn tíma dags þar sem þú sinnir lærdómi. Að setja markmið fyrir daginn og útbúa verkefnalista virkar vel fyrir marga. Að auki getur verið æskilegt að setja sér mörk varðandi heimilistörf og samskipti á heimili meðan á skilgreindum vinnutíma stendur. Með því getur þú dregið úr líkum á að fara inn í vítahring frestunar auk þess sem þú setur skil á milli náms og frítíma. Þá aukast líkurnar á að þú njótir frítímans betur og náir betri árangri í náminu. Uppbyggileg bjargráð Veltu því fyrir þér hvað hefur áður reynst þér vel til að efla jákvæða líðan og draga úr streitueinkennum. Við mælum til dæmis með að nota núvitund og/eða slökunaræfingar. Sumum finnst gott að hlusta á skemmtilega tónlist til að efla jákvæða líðan, rifja upp góðar minningar eða gera plön fyrir framtíðina. Mikilvægt er að halda áfram að gera það sem veitir þér gleði. Þú gætir jafnvel nýtt tímann í að sinna gömlum áhugamálum eða læra ný, til dæmis að syngja, vinna handavinnu, teikna eða æfa júróvisjóndansa. Vertu í sambandi við aðra Við höfum mismikil tækifæri til að vera í félagslegum samskiptum þessar vikurnar. Mikilvægt er leita stuðnings hjá vinum og fjölskyldu eftir því sem hægt er. Ef við erum mikið ein heima er gott að nýta sér tæknina til að vera í reglulegu sambandi við fólkið okkar. Félagslegur stuðningur er ómetanlegur þegar við förum í gegnum tímabil sem einkennast af mikilli streitu, óöryggi eða öðrum erfiðum tilfinningum. Viðurkenndu tilfinningar þínar Mikilvægt er að gefa sér svigrúm til að viðurkenna og tjá tilfinningar sínar. Þú getur til dæmis skráð hugsanir þínar og tilfinningar niður í dagbók og/eða talað um hvernig þér líður við fólk sem þú treystir. Sýndu þér mildi og skilning eins og þú myndir gera við aðra í kringum þig. Ef við tökumst á við kvíða á uppbyggilegan hátt, þegar hann kemur upp, dregur yfirleitt úr honum til lengri tíma litið. Óhóflegar öryggisráðstafanir Eitt af því sem fólk gerir gjarnan til að draga úr kvíða er grípa til óhóflegra öryggisráðstafana. Þegar við grípum til óhóflegra öryggisráðstafana líður okkur oft betur í skamma stund en til lengri tíma þá eykst kvíðinn. Það getur til dæmis falið í sér að fylgjast með fréttum oft á dag eða byrgja sig upp af klósettpappír og dósamat. Við mælum með að forðast rangfærslur og falsfréttir en fylgja þeim ráðleggingum sem settar eru fram af Embætti landlæknis og gæta að öðru leyti hófs í viðbrögðum. Við vonum að þið hafið það öll sem best næstu vikurnar og hlökkum til að sjá ykkur aftur :-) Kærar kveðjur frá sálfræðingum NSHÍ Ásta Rún Valgerðardóttir Guðlaug Friðgeirsdóttir Katrín Sverrisdóttir emailfacebooklinkedintwitter
Þarfnast þessi síða lagfæringar? Var efnið hjálplegt? Var efnið hjálplegt? * Já Nei Endilega láttu okkur vita hvað má betur fara * Viltu fá svar frá okkur? Viltu fá svar frá okkur? Netfang * Svo hægt sé að hafa samband við þig. Skjáskot Settu inn skjáskot hér ef þú telur þörf á.Skrár verða að vera minni en 2 MB.Leyfðar skráartegundir: gif jpg jpeg png. CAPTCHASía fyrir ruslpóst Hvaða stafir eru á myndinni? * Skrifaðu stafina sem sjást á myndinni.