Skip to main content

Næring og vöxtur ungbarna

Inga Þórsdóttir, prófessor og forseti Heilbrigðisvísindasviðs

„Talið er að næring hafi afgerandi þýðingu fyrir vöxt og þroska ungbarns, áhættuþætti sjúkdóma, tjáningu gena og jafnvel á fæðuvenjur einstaklingsins síðar meir,“ segir Inga Þórsdóttir, prófessor í næringarfræði og forseti Heilbrigðisvísindasviðs.

Inga hefur rannsakað og unnið með næringu ungbarna og langtímaáhrif hennar í um tvo áratugi og veit að það þarf að nota bestu aðferðir og stækka gagnasafnið til að geta svarað aðkallandi spurningum. „Kveikjan að þessum rannsóknum er áhugi minn fyrir því að leggja fram gagnreynda þekkingu sem varðar bestu mögulegu næringu snemma á lífsleiðinni,“ segir hún.

Inga Þórsdóttir

„Kveikjan að þessum rannsóknum er áhugi minn fyrir því að leggja fram gagnreynda þekkingu sem varðar bestu mögulegu næringu snemma á lífsleiðinni.“

Inga Þórsdóttir

Að sögn Ingu er aðdragandinn að þeirri rannsókn, sem hún vinnur að núna ásamt samstarfsfólki, orðinn töluvert langur. „Þegar ég flutti heim eftir doktorspróf fyrir 25 árum reyndi ég fyrir mér í rannsóknum á nokkrum viðfangsefnum næringarfræðinnar. Þetta viðfangsefni er meðal þeirra sem hafa orðið ofan á.“

Orkuinntaka og orkunýting barna sem nærast á brjóstamjólk er meðal þess sem rannsóknin nær til en einnig vöxtur barna sem fá mismikið eða ekkert af annarri næringu en brjóstamjólk fyrstu mánuði ævinnar. Matarlyst barnanna og fleira er einnig metið, allt samkvæmt bestu aðferðum sem til eru í þessum vísindum. „Við rannsökum líka næringu ungbarna samkvæmt skráningum heilsugæslunnar og athugum tengsl við algenga kvilla. Að sjálfsögðu er unnið með ópersónugreinanleg gögn og með leyfi viðkomandi,“ segir Inga enn fremur.

Hún bendir á að það skipti miklu að byggja á góðu samstarfi hér innanlands og þá sérstaklega við heilsugæsluna en einnig við öfluga hópa erlendra vísindamanna. „Rannsóknir á áhrifum næringar og annarra aðstæðna á fóstur- og ungbarnaskeiði á heilsu síðar á ævinni, eða „forritun”, mynda í dag stórt vísindasvið. Gildi rannsóknarinnar felst einfaldlega í að efla þekkingu að baki ráðleggingum um næringu ungbarna,“ segir hún að endingu.