Um námið | Háskóli Íslands Skip to main content

Um námið

Nám í uppeldis- og menntunarfræði gefur nemendum kost á að dýpka skilning sinn á fræðum sem fást við uppeldi og menntun. Fengist er við spurningar sem tengjast þroska og uppeldi barna og unglinga, samskiptum fólks, sjálfsmyndum einstaklinga og hópa, fjölskyldum, skólum, kynferði og kyngervi, menningarlegum margbreytileika, menntun og starfsframa, og þróun skólakerfa. Námið felur í sér fjölbreytta grunnmenntun sem undirbýr fólk til starfa á fjölmörgum sviðum uppeldis-, félags- og tómstundamála. Námið leggur einnig góðan grunn að frekara námi á sviði menntunar- og félagsvísinda.

Námið skiptist í skyldunámskeið og fjölda valnámskeiða þar sem nemendur geta dýpkað þekkingu sína á ákveðnum viðfangsefnum og lýkur með fræðilegri BA-ritgerð. Meðal skyldunámskeiða eru inngangur að uppeldis- og menntunarfræði, þroska- og námssálarfræði, samskipti í uppeldis- og fræðslustarfi, fjölskyldur í nútímasamfélagi og aðferðafræði.

Margs konar valnámskeið eru í boði á Menntavísindasviði. Einnig geta nemendur valið námskeið á öðrum sviðum Háskóla Íslands, t.d. inngangsnámskeið í félagsfræði, mannfræði, sálfræði eða kynjafræði.

Fyrirkomulag kennslu

Námið er ýmist kennt í staðnámi með fyrirlestrum og umræðutímum í hverri viku eða í fjarnámi með staðbundnum lotum. Upplýsingar um kennslufyrirkomulag eru tilgreindar í hverju námskeiði fyrir sig í kennsluskrá. Heimavinna og ritgerðasmíð er veigamikill þáttur í náminu.

Aðgangur að frekara námi

Að loknu grunnnámi geta nemendur haldið áfram á sömu braut og tekið frekara nám á meistarastigi í uppeldis- og menntunarfræði eða alþjóðlegu námi í menntunarfræði. Auk þess fara margir í frekara nám í greinum eins og náms- og starfsráðgjöf, blaða- og fréttamennsku, opinberri stjórnsýslu, fötlunarfræði, kynjafræði, alþjóðasamskiptum og kennslufræði. Miðað er við að þeir sem teknir eru inn í meistaranám hafi lokið BA-prófi með fyrstu einkunn.

Tengt efni

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

CAPTCHA
Sía fyrir ruslpóst
Image CAPTCHA
Skrifaðu stafina sem sjást á myndinni.