Stjórnun og þróunarstarf | Háskóli Íslands Skip to main content

Stjórnun og þróunarstarf

Stjórnun og þróunarstarf  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Viltu eflast sem framtíðarstjórnandi og leiðtogi?

NÝTT! Stjórnun og þróunarstarf er kjörsvið í framhaldsnámi í tómstunda- og félagsmálafræði en einnig í boði sem viðbótardiplóma til 60 eininga. 

Fyrir hverja er viðbótardiplóman?

  • Námið er sérstaklega miðað að stjórnendum á vettvangi frítímans 
  • Námið hentar stjórnendum með stutta eða lengri starfsreynslu
  • Verkfæri þátttakenda í náminu verða fyrst og fremst þeirra eigin reynsla

Þátttakendur fá mörg tækifæri til að yfirfæra kenningar um stjórnun á eigið starf og nýta áskoranir úr starfi í verkefnum og umræðum við aðra stjórnendur. Þátttakendur efla tengslanet sitt í náminu og efla hæfileika sína til að vinna þétt saman með stjórnendum annarra stofnana og ólíkum fagstéttum, sem sífellt meiri krafa er um í samfélaginu.

ATH. Þótt viðbótardiplóman sé sérstaklega miðuð að stjórnendum þá geta allir sótt um í námið sem lokið hafa bakkalárprófi.

Frestur til að sækja um í viðbótardiplómur er til 5. júní. Sótt er um nám á hi.is.

Þátttakendur fá góða yfirsýn yfir kenningar um stjórnun og forystu, mat á starfi, lærdómssamfélag fagfólks og undirbúning, innleiðingu og eftirfylgni þróunarverkefna. Þá er fjallað um kenningar um ýmsa þætti stofnana á borð við menningu, starfsanda, krísur, samskipti á vinnustað, hvatningu og samspil stofnana við ytra umhverfi sitt, þ.m.t. foreldra, stjórnvöld og stjórnsýslustofnanir.

Rúmlega þriðjungur námsins byggir á frjálsu og bundnu vali þar sem nemendur geta valið úr miklu námsframboði Menntavísindasviðs og styrkt sig í jafn ólíkum þáttum og jákvæðri sálfræði, fjölmenningu, leikjum, læsi, áhættuhegðun, heilsu, hinseginfræðum, reynslunámi og sjálfbærni.

Dæmi um námskeið

Eitt námskeiða gengur út á að þátttakendur fá tækifæri til að fara á vettvang og fylgja eftir stjórnanda á vettvangi frítímans í hans starfi. Þá er einnig fjallað um gildi og stöðu tómstunda- og félagsmálastarfs í víðu samhengi og kafað ofan í framþróun á sviðinu í íslensku sem og alþjóðlegu samhengi. 

Verkefnastjóri námsins

„Í náminu fá nemendur tækifæri til að nýta eigin reynslu af stjórnun markvisst og kynnast öðrum stjórnendum og þeirra reynslu. Það verður örugglega mesti lærdómurinn þegar upp er staðið.“

Oddný Sturludóttir, aðjunkt við Menntavísindasvið (oddnys@hi.is).

Nánari upplýsingar veitir Sigurlaug María Hreinsdóttir, deildarstjóri Deildar heilsueflingar, íþrótta- og tómstunda (sigurlaug@hi.is).

Oddný Sturludóttir