Samskipti og forvarnir | Háskóli Íslands Skip to main content

Samskipti og forvarnir

Samskipti og forvarnir - á vefsíðu Háskóla Íslands

Viltu byggja upp heilbrigð og uppbyggileg samskipti í námi og leik? 

Samskipti og forvarnir er kjörsvið í framhaldsnámi í tómstunda- og félagsmálafræði en einnig í boði sem viðbótardiplóma til 60 eininga. Í náminu verða kynntar árangursríkar leiðir til að hafa áhrif á skólabrag og menningu í hópum barna og ungmenna á vettvangi frítímans, takast á við hegðunar- og samskiptavanda og ýta undir umhyggu og virðingu. Sérstök áhersla er á að veita nemendum hagnýt verkfæri og þálfun í að beita þeim.

Frestur til að sækja um í viðbótardiplómur er til 5. júní. Sótt er um nám á hi.is.

Nemendur sitja hagnýt og fræðileg námskeið þar sem fjallað er um ástæður og eðli eineltis, forvarnir og inngrip. Þá verður umfjöllun um mikilvægi hálfformlegs náms, vináttu og vináttuþjálfunar, samskipti milli einstaklinga og hópa, stöðu og sjónarhorn barna og ungmenna og fjölmenningarleg gildi. Einnig fá nemendur þjálfun í lausn erfiðra álitamála og hvert hlutverk og ábyrgð fagfólks er í slíkum málum. 

Að námi loknu munu nemendur búa yfir hæfni til að stuðla að heilbrigðum og uppbyggilegum samskiptum og þekkja leiðir til að bregðast við einelti, kvíða, vinaleysi og vanlíðan barna og ungmenna.

Fyrir hverja er viðbótardiplóman?

Námið er sérstaklega miðað að stjórnendum í skólum, leiðtogum í félagsmiðstöðvum og frístundaheimilum og öðru starfi á vettvangi frítímans. Námið er einnig sniðin að kennurum, tómstunda- og félagsmálafræðingum, námsráðgjöfum, þjálfurum og leiðtogum á sviði íþrótta- og æskulýðsstarfs, þroskaþjálfum og öðru fagfólki sem vinnur með börnum og ungmennum í leik og námi.

Umsjónarmaður námsins

Halldóra Vanda Sigurgeirsdóttir, lektor í tómstunda- og félagsmálafræði, er umsjónarmaður námsleiðarinnar (vand@hi.is).

Nánari upplýsingar um námið veitir Sigurlaug María Hreinsdóttir, deildarstjóri Deildar heilsueflingar, íþrótta- og tómstunda (sigurlaug@hi.is).

Vanda Sigurgeirsdóttir