Launað starfsnám og styrkir | Háskóli Íslands Skip to main content

Launað starfsnám og styrkir

Launað starfsnám eða vettvangsnám (ólaunað) 

Leik- og grunnskólakennaranemar á lokaári til M.Ed. eða MT-gráðu við Háskóla Íslands geta verið í 50% launuðu starfsnámi við leik- eða grunnskóla á lokaári kennaranáms eða í vettvangsnámi (ólaunuðu).

  • Launað starfsnám byggir á því að kennaranemi hafi sjálfur ráðið sig til kennslu við leik- eða grunnskóla og fengið samþykki umsjónarkennara námskeiðsins við Menntavísindasvið til að tengja starfið og námið.
  • Vettvangsnám (ólaunað) er skipulagt af Menntavísindasviði sem sér um að finna skóla fyrir vettvangsnám kennaranema.

Launað starfsnám

Kennaranemi hefur frumkvæði að því að leita að kennarastöðu og ræður sig til starfa að fenginni staðfestingu um að staðan uppfylli skilyrðií reglum mennta- og menningarmálaráðuneytis um launað starfsnám, grein 3.5.: Kennaranemi í launuðu starfsnámi sinnir kennslu og menntun leik- og/eða grunnskólabarna á grundvelli sérhæfingar í námi, auk þess fær hann tækifæri til að takast á við önnur verkefni er tengjast kennarastarfinu.

Ráðning kennaranema er alla jafna frá 1. ágúst til 31. júlí.

Vettvangsnám (ólaunað)

Kennaranemi sem ekki kýs launað starfsnám fer í vettvangsnám sem er skipulagt af Menntavísindasviði og sem hæfir þeirri sérhæfingu sem kennaraneminn menntar sig til. 

Háskólar bera faglega ábyrgð á starfsnámi kennaranema á lokaári í samvinnu við skólana þar sem þeir starfa. Markmiðið er að efla tengsl kennaramenntunar við starfsvettvang og auka færni nýrra kennara til að takast á við áskoranir kennarastarfsins til framtíðar í þágu barna og ungmenna. Hæfniviðmið í náminu ásamt námsmati eru skilgreind í kennsluskrá.  Nánari upplýsingar um fyrirkomulag er að finna í námskeiðslýsingum í kennsluskrá.

Reglur mennta- og menningarmálaráðuneytis um fyrirkomulag launaðs starfsnáms kennaranema

Nánari upplýsingar um skipulag námskeiða sem tengjast starfsnámi/vettvangsnámi á fimmta ári er að finna í kennsluskrá:

Hvatningarstyrkir til kennaranema á lokaári

Kennaranemar geta sótt um styrki á lokaári sínu í námi, í samræmi við reglur sem mennta- og menningarmálaráðuneytið setur á hverju ári. Styrkirnir geta numið allt að 800.000 krónum. Um umsóknarferlið á Menntavísindasviði má lesa í Uglu. Frekari upplýsingar um hvatningarstyrki til kennaranema má finna á heimasíðu Stjórnarráðs Íslands.

Kennaranemar sem leggja stund á 120 ECTS eininga meistaranám geta sótt um styrk sem nemur allt að 800.000 kr. Fyrri helmingurinn greiðist þegar nemandi hefur lokið 90 ECTS einingum í meistaranámi sem leiðir til leyfisbréfs og seinni helmingurinn þegar nemandi hefur brautskráðst.

Kennaranemar sem hafa meistarapróf í faggrein og innritast í 60 ECTS eininga kennaranám sem leiðir til leyfisbréfs geta sótt um styrk sem nemur allt að 400.000 kr. Styrkurinn greiðist út í einu lagi við námslok.

Styrkurinn er talinn fram sem tekjur líkt og aðrir sambærilegir styrkir og af honum því greiddir skattar og önnur opinber gjöld. 

Hægt er að sækja um styrkinn fyrir 1. nóvember 2021. 

  • Sækja um styrk - opnað verður fyrir umsóknarsíðu þegar nær dregur