Skip to main content

Meðgöngusiðir í japanskri menningu

Gunnella Þorgeirsdóttir, aðjunkt við Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda

Óhætt er að segja að áhugi á japönsku hafi vaxið mjög frá því að fyrst var boðið upp á hana árið 2003 í Háskóla Íslands. Þá voru skráðir nemendur 37 en voru tíu árum síðar orðnir tæplega 100. „Það hefur endurtekið sýnt sig að Íslendingar bera sterkar taugar til Japana og ásókn í japönsku hefur sjaldan verið meiri en nú,“ segir Gunnella Þorgeirsdóttir, aðjunkt og umsjónarmaður japönskunámsins. Áhugi Japana á Íslandi og íslenskri menningu er ekki síður mikill og sækja japanskir nemendur í að koma hingað í skiptinám að sögn Gunnellu.

Við fyrstu sýn virðist erfitt að átta sig á hvað skýrir áhuga Íslendinga á þessari fjarlægu þjóð í austri en Gunnella er með svör á reiðum höndum. „Eyja- og sjávarmenning einkennir bæði samfélög og báðar þjóðir þekkja að búa við kröftug náttúruöfl sem geta minnt á sig hvenær sem er. Þá varð einnig feikimikil breyting á báðum samfélögum í kjölfar stríðsáranna þar sem þau tóku að mörgu leyti menningarlegt heljarstökk fram á við og gripu nýja tækni og þekkingu föstum tökum en héldu á sama tíma í eldri hefðir og viðhorf sem enn þann dag í dag lita samfélögin. Þar má nefna viðhorf til hjátrúar og frjálsleg viðhorf til trúarbragða,“ segir Gunnella.

Gunnella Þorgeirsdóttir

„Það hefur endurtekið sýnt sig að Íslendingar bera sterkar taugar til Japana og ásókn í japönsku hefur sjaldan verið meiri en nú.“

Gunnella Þorgeirsdóttir

Hjátrú og vígsluathafnir voru einmitt viðfangsefni Gunnellu í doktorsnámi hennar. „Rannsóknin sneri að meðgöngusiðum í japanskri menningu, þá sérstaklega vígsluathöfnum ýmiss konar. Kveikjan var mín eigin reynsla þar sem ég upplifði meðgönguna sem ákveðið millibilsástand sem sjá mátti táknrænt í ýmiss konar hjátrú, venjum og hefðum í tengslum við meðgönguna. Eftir að hafa kynnt mér þessa siði hér á landi ákvað ég að bera þá saman við viðlíka hefðir og venjur í Japan,“ segir Gunnella, „en ég komst fljótt að því að gildi hjátrúar, sem hafði verið mjög sterk hér á landi, hafði minnkað töluvert í Japan og sumar tegundir alveg að lognast út af samfara innreið hátæknisamfélagsins.“

Á móti höfðu vígsluathafnir sem og gildi þeirra eflst mikið á síðustu áratugum í Japan. „Þar má nefna verndunarathafnir á meðgöngu og síðar innleiðingu barnsins inn í samfélagið, en þær athafnir eiga sér stað með reglulegu millibili allt til sjö ára aldurs. Viðmælendur í rannsókninni tóku undantekningarlaust þátt í einni eða fleiri slíkum athöfnum,“ segir Gunnella sem bendir jafnframt á að athafnirnar tengi saman kynslóðirnar. „Þær færa bæði foreldra nær börnum og tengdaforeldra nær tengdabörnum og barnabörnum, en tengja jafnframt einnig hina ungu foreldra við fyrri kynslóðir í krafti sameiginlegrar þekkingar.“