Um MS nám í matvælafræði | Háskóli Íslands Skip to main content

Um MS nám í matvælafræði

Um MS nám í matvælafræði - á vefsíðu Háskóla Íslands

MS nám í matvælafræði er tveggja ára nám þar sem námskeið eru kennd í lotum og unnið er í rannsóknarverkefnum þess á milli. Námið er samvinnuverkefni Háskólans og Matís.
Námið samanstendur af 60 einingum í námskeiðum sem ná yfir öll helstu svið matvælafræðinnar og 60 eininga rannsóknaverkefni sem eru unnin undir handleiðslu kennara. Einnig er boðið upp á stærri rannsóknaverkefni (90 einingar) með færri einingum í námskeiðum (30 einingar), fyrir þá sem hafa lokið BS námi í matvælafræði. MS-nám í matvælafræði er nýtt, hagnýtt og alþjóðlegt nám sem kennt er á ensku.

Fyrir hverja?

Námið hentar þeim sem lokið hafa grunnnámi í matvælafræði eða öðrum raunvísindagreinum, eins og efnafræði, líffræði og verkfræði, og hafa áhuga á að gegna leiðandi hlutverki í matvæla- og líftækniiðnaði við stjórnun, nýsköpun eða rannsóknir.

Tenging við atvinnulíf

MS-nám í matvælafræði er samvinnuverkefni Matvæla- og næringarfræðideildar Háskóla Íslands og Matís, sem er opinbert rannsókna- og þróunarfyrirtæki í matvælafræði. Kennsla og rannsóknir í náminu fara að langmestu leyti fram í húsakynnum Matís að Vínlandsleið í Grafarholti. 

Nemendur fá tækifæri til að tengjast atvinnulífi með hagnýtum verkefnum, heimsóknum í fyrirtæki auk þess sem gestafyrirlestrar úr atvinnulífinu eru hluti af náminu. Kennarar deildarinnar eru í mjög virku samstarfi við virta háskóla í Evrópu og Bandaríkjunum, erlendir gestafyrirlesarar eru því einnig virkur hluti af náminu. Þannig munu nemendur öðlast reynslu í samskiptum við innlenda og erlenda aðila í námi sínu, sem þeir búa að eftir að námi loknu. Nánar um samstarf deildarinnar.

Tækifæri að námi loknu

Matvælafræði veitir frábær atvinnutækifæri og yfir 90% útskrifaðra nemenda ganga beint í spennandi starf við sitt hæfi. Tækifæri á sviði matvælafræði og líftækni eru mikil og uppbygging á þessum sviðum mikilvægur grundvöllur aukinnar verðmætasköpunar og aukinna útflutningstekna í íslensku hagkerfi. Hagnýtt framhaldsnám í matvælafræði gefur nemendum spennandi tækifæri til að taka að sér leiðandi hlutverk í uppbyggingu þessara greina.

Áhugi almennings á góðum og næringarríkum matvælum fer einnig vaxandi, matvælaframleiðsluþörf heimsins eykst sífellt og allt þetta kallar á matvælafræðinga til margra starfa í þjóðfélaginu og á alþjóðavettvangi.

Kjörsvið í erlendu samstarfi

AQFood (e. Aquatic Food Production, safety and quality), er kjörsvið innan MS náms í matvælafræði, sem er alþjóðlegt meistaranám kennt í samstarfi við DTU í Danmörku og NTNU og NMBU í Noregi.  Nemendur ljúka MS-gráðunni frá tveimur skólum.  Námið er skipulagt þannig að 1. misseri eru skyldunámskeið sem hægt er að taka í fjarnámi ( 30 ECTS), eftir það taka við námskeið námsleiðarinnar alls 60 ECTS og 30 ECTS í rannsóknarverkefni.  Sjá nánari upplýsingar á heimasíðu námsleiðarinnar: www.aqfood.org og heimasíðu HÍ.
 

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

CAPTCHA
Sía fyrir ruslpóst
Image CAPTCHA
Skrifaðu stafina sem sjást á myndinni.