Skip to main content

Um BS nám í næringarfræði

BS-gráða í næringarfræði er 180 eininga, þriggja ára háskólanám. Næringarfræði byggir á sterkum grunni raunvísinda, lífvísinda og heilbrigðisvísinda, og veitir innsýn í félagsvísindi, markaðsfræði og upplýsingatækni.

Grunnnám í næringarfræði fjallar meðal annars um: næringarefnin og hlutverk þeirra, næringarþörf heilbrigðra og sjúkra, næringarþörf á ýmsum æviskeiðum, í þróuðum og þróunarlöndum, og um hollustu eða óhollustu fæðutegunda og fæðutengdra efna. Umfjöllunarefni greinarinnar er einnig hvernig aðstæður, erfðir og einstaklingurinn sjálfur hafa áhrif á næringarnám og heilsu.

Næringarfræði er heilbrigðisvísindagrein sem fjallar að töluverðu leyti um líffræði mannsins. Heilsa mannsins er aðalatriði greinarinnar. Næringarfræðin tekur einnig mið af umhverfinu og sjálfbærri nýtingu.

Námið er bæði bóklegt og verklegt og eðli sínu samkvæmt er það fjölbreytt, þverfaglegt og krefjandi. Námið býður upp á þjálfun í mismunandi aðferðafræði. Það á að undirbúa nemendur vel undir ýmis störf. Áhersla er þess vegna á sjálfstæði, vísindaleg vinnubrögð, lausnamiðað nám og raunhæf verkefni. 
Sjá nánar: Skipulag BS-náms í næringarfræði samkvæmt Kennsluskrá

Fjölbreyttir starfsmöguleikar og framhaldsnám

Markmið kennslu til BS-prófs í næringarfræði er að undirbúa nemendur vel fyrir meistaranám í næringarfræði til að útskrifa næringarfræðinga með traustan þekkingargrunn og getu til að miðla þekkingu sinni til annarra. Kennslan á að hjálpa nemendum til að bera ábyrgð á eigin námi, að öðlast færni í þekkingaröflun í næringarfræði og öðrum fræðigreinum sem nýtast greininni, og að öðlast hæfni til að takast á við margvísleg verkefni í lífi og starfi.

Næringarfræðingar með viðeigandi þjálfun hafa hæfni til að vinna í heilbrigðisþjónustu og fræðslu að forvörnum eða næringarmeðferð, auk þess sem þeir geta unnið margs konar verkefna- og rannsóknavinnu. BS-nám í næringarfræði er ákjósanlegur grunnur fyrir frekara nám í greininni. Það veitir einnig hæfni til áframhaldandi náms í mörgum öðrum greinum og til margra starfa í samfélaginu.

Öflugar rannsóknir

Matvæla- og næringarfræðideild leitast við að vera í fremstu röð háskólakennslu í greininni og  að standast samanburð á alþjóðlegum vettvangi. Rannsóknastofa í næringarfræði, sem tilheyrir Háskóla Ísland og Landspítala, er nú ein öflugasta eining háskólans í rannsóknavirkni á hvert stöðugildi kennara. Mikil rannsóknavirkni hjálpar okkur að ná markmiðum í kennslu. Sjá nánar um rannsóknir við deildina.

Löggilt stafsheiti næringarfræðings

Réttur til að kalla sig næringarfræðing og starfa sem slíkur hér á landi er skilgreindur í reglugerð nr. 1086/2012 um menntun, réttindi og skyldur næringarfræðinga og skilyrði til að hljóta starfsleyfi. Löggilt starfsleyfi er veitt af Embætti landlæknis, þeim sem lokið hafa MS prófi í næringarfræði frá Háskóla Íslands. Einnig má veita þeim sem lokið hafa sambærilegu prófi erlendis og uppfylla ákveðin skilyrði starfsleyfi hér á landi.

Tengt efni