Skip to main content

Um BS-nám í matvælafræði

BS-nám í matvælafræði er 180 eininga, þriggja ára háskólanám. Námið byggir á sterkum grunni raunvísinda, verk- og tæknifræði, býður upp á þjálfun í notkun mismunandi aðferðafræði og veitir góða innsýn inn í heilbrigðisvísindagreinar.

Grunnnám í matvælafræði fjallar meðal annars um lausnir fyrir framleiðslu, vinnslu og þróun matvæla, líftækni, öryggi og nýtingu matvæla með hagsmuni neytenda að leiðarljósi. Náið samstarf er um kennslu í matvælafræði við Matís ohf sem er opinbert rannsókna- og þróunarfyrirtæki í matvælafræði, en margir kennarar deildarinnar starfa einnig hjá Matís.

Tenging við atvinnulíf og gestafyrirlesarar

Nemendur fá tækifæri til að tengjast atvinnulífi með hagnýtum verkefnum, heimsóknum í fyrirtæki auk þess sem gestafyrirlestrar úr atvinnulífinu eru hluti af náminu. Kennarar deildarinnar eru í mjög virku samstarfi við virta háskóla í Evrópu og Bandaríkjunum, erlendir gestafyrirlesarar eru því einnig virkur hluti af náminu. Þannig munu nemendur öðlast reynslu í samskiptum við innlenda og erlenda aðila í námi sínu, sem þeir búa að eftir að námi loknu.

Sjálfstæði, vísindaleg vinnubrögð og raunhæf verkefni

Námið er bæði bóklegt og verklegt og eðli sínu samkvæmt er það fjölbreytt, þverfaglegt og krefjandi. Það á að undirbúa nemendur vel undir ýmis störf. Áhersla er þess vegna á sjálfstæði, vísindaleg vinnubrögð, lausnamiðað nám og raunhæf verkefni. Sjá nánar um skipulag námsins í Kennsluskrá HÍ.

Markmið kennslu til BS-prófs í matvælafræði er að útskrifa matvælafræðinga með traustan þekkingargrunn og getu til að miðla þekkingu sinni til annarra. Kennslan á að hjálpa nemendum til að bera ábyrgð á eigin námi, að öðlast færni í þekkingaröflun í matvælafræði og öðrum fræðigreinum sem nýtast greininni, og að öðlast hæfni til að takast á við margvísleg verkefni í lífi og starfi.

Öflug rannsóknarvirkni

Við Matvæla- og næringarfræðideild er stundar fjölbreyttar og viðamiklar rannsóknir. Samstarf deildarinnar við Matís gerir matvælafræðina að einni öflugustu rannsóknareiningu Háskólans. Mikil rannsóknavirkni hjálpar okkur að ná markmiðum í kennslu og þar stendur deildin sig vel. Sjá nánar um rannsóknir við deildina.

Starfsleyfi

Að loknu BS-námi í matvælafræði geta nemendur sótt um starfsleyfi og réttindi til þess að kalla sig "matvælafræðing" frá Embætti landlæknis. Á undanförnum árum hafa flestir matvælafræðingar aflað sér frekari menntunar og lokið meistaranámi. Vegna örrar þróunar í greininni er mælt með þessu og er námið í raun 5 ára nám. Sama þróun hefur átt sér stað erlendis.

Tengt efni