
Mannauðsstjórnun
120 einingar - MS gráða
MS nám í mannauðsstjórnun er fræðilegt og hagnýtt nám fyrir þá sem vilja öðlast þekkingu og skilning á stjórnun mannauðs innan fyrirtækja og stofnana. Námið snertir alla helstu grundvallarþætti í rekstri stofnana og fyrirtækja.
Nám til MS prófs er 120 einingar hið minnsta, þar af 90 einingar í námskeiðum, auk MS-ritgerðar sem er að lágmarki 30 einingar.

Um námið
Áhersla er lögð á að sameina hagnýtar og fræðilegar áherslur og dýpka þannig skilning nemenda á stjórnun mannauðs. Uppbygging námsins miðar að því að búa nemendur undir að sinna krefjandi og flóknum störfum á sviði starfsmanna- og mannauðsmála, hvort sem er í fyrirtækjum og stofnunum eða hjá hagsmunasamtökum. Miðað við fullan námshraða er námið fjögur misseri.
Forkröfur vegna MS náms í mannauðsstjórnun eru fyrsta háskólapróf og er almennt krafist fyrstu einkunnar (7,25). Nemendur eru valdir inn í þetta nám með hliðsjón af fyrra námi og starfsreynslu. Nemendahópurinn hefur því mjög mismunandi bakgrunn og má þar m.a. nefna: BA í mannfræði, BS í hjúkrunarfræði, BA í lögfræði, BS í sálfræði, B.Ed., BS í viðskiptafræði, svo nokkuð sé nefnt. Ekki er gerð krafa um fyrra nám í viðskiptafræði. Nemendur, sem ekki hafa BS/BA í viðskiptafræði eða hagfræði í grunnnámi sínu eða aukagrein í þessum deildum, þurfa við upphaf námsins að ljúka undirbúningsnámskeiðinu VIÐ155M Inngangur að rekstri. Námskeiðið er ekki til gráðu.